Svar við fyrirspurn um málefni Landsbankans og Lindar hf.

Þriðjudaginn 26. maí 1998, kl. 10:55:20 (6874)

1998-05-26 10:55:20# 122. lþ. 133.92 fundur 409#B svar við fyrirspurn um málefni Landsbankans og Lindar hf.# (aths. um störf þingsins), viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 122. lþ.

[10:55]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég vil taka það fram að það var þannig að áður en ég tók við embætti viðskrh. hafði eignarleigufyrirtækið Lind hætt störfum og það var í tíð forvera míns sem sú heimild var veitt í nóvember 1994 að sameina Lind Landsbankanum. Deila má um þá aðgerð. Ég ætla ekki að gera það hér á þessum skamma tíma.

Ég tek undir það með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að mikilvægt er að ráðherrar svari eins ítarlega og rétt og nokkur kostur er. Það er hins vegar mjög erfitt að svara mjög ítarlega í óundirbúnum fyrirspurnum ef menn ætla að verða mjög nákvæmir á tölum. Hv. þm. kom inn á að tapið væri 600--700 millj. kr. og mig rámaði í það eftir að hafa lesið skýrslur Ríkisendurskoðunar að þær upphæðir gæti ég hvergi fundið í skýrslunni. Ég mundi að ábyrgðir sem Landsbankinn hafði gengið í fyrir Lind voru 400 millj. kr.

Ég treysti mér heldur ekki á grundvelli skýrslunnar til þess að staðfesta að sú tala væri rétt. Hefði ég gert það hefði ég hugsanlega verið að gefa rangar upplýsingar. Hins vegar, eins og hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hefur beðið um, að fá skýrslu Ríkisendurskoðunar birta, þá er hún opinbert plagg því hún liggur fyrir í ráðuneytinu og í henni kemur skýrt fram að ábyrgðir sem Landsbankinn hafði gengið í fyrir Lind voru 400 millj. kr. á þessum tíma þannig að það verður opinbert plagg og þá kemur það í ljóst hvernig þessum málum er háttað.

Af því að hv. þingmenn hafa gert nokkuð mikið úr því hver ábyrgð ráðherrans er í þessu máli og líka var rætt hér við umræðuna um ranga upplýsingagjöf Landsbankans þá hef ég fengið bankaeftirlit Seðlabankans til þess að segja til um hvert sé annars vegar hlutverk bankaráðs viðkomandi viðskiptabanka og hvert sé hlutverk viðskrh. í þessu tilfelli. Þar er byggt á 27. gr. laga nr. 113/1996, sem segir, með leyfi forseta:

,,Yfirstjórn ríkisviðskiptabanka er í höndum viðskiptaráðherra og bankaráðs svo sem fyrir er mælt í lögum þessum.``

Síðan er þessi verkaskipting alveg skýr í lögunum og ég ætla, með leyfi forseta, að vitna í niðurstöður bankaeftirlits Seðlabankans:

,,Samkvæmt framansögðu er meginniðurstaða bankaeftirlitsins sú að viðskrh. ber almenna stjórnarfarslega ábyrgð á framkvæmd laga nr. 113/1996. Hins vegar hlýtur ábyrgð hans að takmarkast af því að bankaráð ber ekki ábyrgð gagnvart honum þar sem það er þingkjörið og ráðherra hefur ekki boðvald yfir því auk þess sem viðskrh. í 1. mgr. 27. gr. laga er falin tiltekin verkefni að mati bankaeftirlitsins sem helgast fyrst og fremst af því að ríkisviðskiptabankar eru sérstakar ríkisstofnanir og viðskrh. fer með málefni þeirra fyrir hönd ríkisins.

Hvað einstaka rekstrarþætti ríkisviðskiptabanka áhrærir hefur viðskrh. ekkert með þá að gera. Reksturinn er í höndum bankaráðs og bankastjórnar. Heimildarákvæði er í 28. gr. um að ráðherra getur hvenær sem er krafið bankaráð upplýsinga um rekstur og hag hlutaðeigandi banka er til ítrekunar á þeim rétti hans sem áður var ólögfestur, samanber það sem greinir frá hér að framan og gefur honum ekki sjálfstæðan íhlutunarrétt í skjóli þessa ákvæðis. Þannig er þessi verkaskipting alveg skýr og menn þurfa ekkert að velkjast í vafa um hver ábyrgðin er í þessu tilfelli.`` (Gripið fram í: Kanntu að segja satt?)