Greinargerðir um málefni Landsbankans og Lindar hf.

Þriðjudaginn 26. maí 1998, kl. 10:59:10 (6875)

1998-05-26 10:59:10# 122. lþ. 133.93 fundur 410#B greinargerðir um málefni Landsbankans og Lindar hf.# (um fundarstjórn), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 122. lþ.

[10:59]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Í þeirri umræðu sem var að ljúka um störf þingsins kallaði ég eftir því að lagðar yrðu fyrir Alþingi tvær greinargerðir. Í fyrsta lagi greinargerð frá janúar 1996 sem var lögð fyrir bankaráð þar sem reynt var að varpa ljósi á þá atburðarás sem leiddi til þessa mikla taps. Hæstv. ráðherra hefur ekki svarað því við umræðuna hvort þessi greinargerð verður lögð fram og veit ég reyndar ekki af hverjum sú greinargerð var unnin. En ég fer fram á það, herra forseti, að sú greinargerð verði lögð fram. Það er alveg nauðsynlegt.

Hæstv. ráðherra nefndi að greinargerð Ríkisendurskoðunar sem birtist í lok árs 1996 væri opinbert plagg og lægi fyrir í ráðuneytinu. Ég fer fram á það, herra forseti, að greinargerð Ríkisendurskoðunar verði einnig lögð formlega fyrir Alþingi. Það er nauðsynlegt til að varpa ljósi á þetta mál að þessar tvær greinargerðir verði lagðar fyrir þingið þannig að þinginu gefist færi á að kanna málið til hlítar. Hér er svo stórt og alvarlegt mál á ferðinni, herra forseti, að því getur ekki lokið með einhverri stuttri umræðu um störf þingsins. Þess vegna fer ég fram á það, herra forseti, að annaðhvort svari ráðherra því hvort hann leggi þessar greinargerðir fyrir þingið nú eða að hæstv. forseti beiti sér þá fyrir því að þessar greinargerðir verði lagðar fyrir þingið.