Greinargerðir um málefni Landsbankans og Lindar hf.

Þriðjudaginn 26. maí 1998, kl. 11:01:25 (6877)

1998-05-26 11:01:25# 122. lþ. 133.93 fundur 410#B greinargerðir um málefni Landsbankans og Lindar hf.# (um fundarstjórn), SighB
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 122. lþ.

[11:01]

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Mér finnst rétt að gera forseta viðvart um það að eftir að Alþingi hefur borist skýrsla Ríkisendurskoðunar --- ég tel að hæstv. ráðherra hafi úr ræðustól áðan verið að tilkynna okkur að hann muni senda Alþingi slíka skýrslu --- þá reikna ég með því að óskað verði eftir utandagskrárumræðu um málið á þeim fáu dögum sem eftir eru af þinginu. Ég tek undir ósk hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur um að ef ráðherra hefur á því vald að senda þinginu einnig greinargerðina sem lögð var fyrir bankaráðið, þá geri hann það eða a.m.k. óski eftir því við bankaráðið að sú greinargerð berist viðskrh. þannig að hún sé opinbert plagg.

Hins vegar sýnir sú umræða sem hér hefur farið fram hve rík nauðsyn er á því að skoða þessi mál betur en gert hefur verið. Þess vegna höfum við þingmenn jafnaðarmanna tekið ákvörðun um að leggja fram í dag frv. um skipun sérstakrar nefndar með rannsóknarvaldi til að skoða þetta mál og önnur því tengd og leita svara við ýmsum spurningum, fullyrðingum og sakarefnum sem komið hafa fram í opinberri umræðu um þessi mál og önnur þeim tengd frá því að skýrsla Ríkisendurskoðunar um Landsbanka Íslands var gefin út á sínum tíma og tekin til umræðu hér. Svo margar fullyrðingar, virðulegi forseti, og bókstaflega ákærur hafa komið fram í opinberri umræðu síðan, að nauðsynlegt er að skoða þessi mál betur en gert hefur verið. Eina úrræðið sem Alþingi hefur er að gera það þannig að fela sérstakri nefnd þá skoðun og veita henni vald umfram það sem gert er ráð fyrir í þingsköpum og stjórnarskrá. Við munum leggja til að svo verði gert og ég fer þess á leit við hæstv. forseta að hann beiti sér fyrir því að leitað verði afbrigða fyrir því frv. þegar því hefur verið dreift eins og lög standa til þá væntanlega seinna í dag þannig að hægt verði að taka málið til umræðu og afgreiðslu áður en þingfundum lýkur í vor.