Dýralæknar og heilbrigðisþjónusta við dýr

Þriðjudaginn 26. maí 1998, kl. 11:20:45 (6891)

1998-05-26 11:20:45# 122. lþ. 133.6 fundur 436. mál: #A dýralæknar og heilbrigðisþjónusta við dýr# (heildarlög) frv. 66/1998, Frsm. GÁ
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 122. lþ.

[11:20]

Frsm. landbn. (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frv. til laga um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr og legg fram brtt. meiri hluta nefndarinnar með því.

Ef ég gríp ofan í nefndarálitið þá segir fyrst frá því hverjir komu á fund nefndarinnar og frá hverjum bárust umsagnir. Síðar segir, með leyfi forseta:

,,Með frumvarpi þessu er lagt til að sett verði ný heildarlöggjöf um dýralækna en gildandi lög um dýralækna eru að stofni til frá árinu 1981. Í frumvarpinu eru meðal annars lagðar til breytingar á skipan umdæma héraðsdýralækna og mælt er fyrir um skiptingu landsins í vaktsvæði dýralækna. Þá er lagt til að komið verði á fót sérstöku dýralæknaráði, skipuðu fjórum mönnum, sem á m.a. að fjalla um innflutning búfjár sé hans óskað, að sú meginregla gildi að eingöngu þeir dýralæknar sem hafa leyfi til að stunda dýralækningar megi framkvæma læknisaðgerðir á dýrum og í samræmi við ákvæði lyfjalaga er einnig lagt til að sérstaklega verði kveðið á um að dýralækni sé einungis heimilt að afhenda eða ávísa lyfseðilsskyldum lyfjum handa dýri þegar hann hefur greint sjúkdóminn.

Nefndin ræddi sérstaklega síðastnefnda atriðið en með því er ætlunin að skapa meira aðhald og árvekni í meðferð lyfja. Í flestum tilvikum verður að reikna með að sjúkdómsgreining byggist á skoðun, en greining á rannsóknastofu eftir heimsókn dýralæknis eða eftir símaviðtal, þar sem dýralæknir hefur farið yfir einkenni og gang sjúkdóms með eiganda eða umráðamanni, er einnig talin fullnægjandi sé ekki um nokkurn vafa að ræða af hálfu dýralæknis.

Þá var rætt ákvæði 13. gr. um heimild landbúnaðarráðherra til þess að semja við dýralækna við sérstakar aðstæður um greiðsluhluta ferðakostnaðar. Ljóst er að þær reglur sem þörf er á að setja um greiðslu ferðakostnaðar verður að móta í ljósi þeirrar reynslu sem fæst af nýja kerfinu. Þar verður meðal annars að horfa til þess hver verður þróunin í búsetumálum dýralækna eftir gildistöku laganna.

Þá var einnig rætt ákvæði 15. gr. vegna athugasemda Tilraunastöðvar Háskólans á Keldum og er lögð til breyting á þeirri grein. Nefndin telur rétt að taka það fram að með ákvæði 15. gr. er ekki ætlunin að breyta verkaskiptingu og samstarfi yfirdýralæknis og Tilraunastöðvarinnar á Keldum frá því sem nú er.

Loks var rætt sérstaklega hvort breytingar á störfum dýralækna samkvæmt frumvarpinu hefðu í för með sér aukinn kostnað fyrir bændur. Í minnisblaði frá landbúnaðarráðuneytinu um áætlun um breytingar á kostnaði vegna frumvarpsins, sem er fylgiskjal með nefndaráliti þessu, kemur meðal annars fram að kostnaður bænda breytist ekki með samþykkt frumvarpsins að öðru leyti en því sem kann að leiða af ákvæðum samkeppnislaga, þar sem reiknað er með að gjaldskrá verði óbreytt. Kjötskoðunardýralæknar eru taldir verða sjö og kostnaður við þá áætlaður miðað við almenn laun núna fyrir fullt starf. Heildarkostnaður við þau störf sem áætlað er fyrir er talinn fara lækkandi.

Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.``

Ég gat um þær hér áðan og liggja þær hér frammi á borðum þingmanna.

Undir þetta skrifa allir nefndarmenn landbn. Sigríður Jóhannesdóttir er ein um að skrifa undir málið með fyrirvara og gerir grein fyrir sínu máli á eftir.

Þessu nefndaráliti fylgir, eins og sagði, minnisblað um áætlun um breytingar á kostnaði vegna frv. um dýralækna. Kostnaðurinn á ekki að aukast hjá bændum við þetta frv.

Ég held, hæstv. forseti, að ég hafi þá gert grein fyrir þessu nefndaráliti og legg til að þetta frv. verði gert að lögum.