Dýralæknar og heilbrigðisþjónusta við dýr

Þriðjudaginn 26. maí 1998, kl. 11:25:50 (6892)

1998-05-26 11:25:50# 122. lþ. 133.6 fundur 436. mál: #A dýralæknar og heilbrigðisþjónusta við dýr# (heildarlög) frv. 66/1998, SJóh
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 122. lþ.

[11:25]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Frv. það sem hér liggur frammi til 2. umr. kom fyrst fram á síðasta þingi og hefur nú sem betur fer tekið miklum jákvæðum breytingum síðan. Þær breytingar urðu m.a. til þess að ég ákvað að skrifa undir frv., þó með fyrirvara sé.

Frv. er flutt að beiðni sjálfstætt starfandi dýralækna. Það eru sérstaklega þeir sem sjá sér hag í samþykkt þessara nýju laga. Þeir hafa knúið mjög á um afgreiðslu þessa máls. Það hefur komið fram í meðförum nefndarinnar að héraðsdýralæknar ýmsir hafa af þessu miklar áhyggjur. Mörg búnaðarsambönd í dreifbýlinu hafa einnig áhyggjur af að kostnaður við dýralækningar muni aukast. Að vísu hefur komið fram yfirlýsing um að svo verði ekki en það hefur þó ekki breytt því að fólk hefur þessar áhyggjur áfram.

Vaktsvæði eru í ýmsum tilvikum stækkuð mjög mikið og þess vegna er mjög bagalegt að 13. gr. frv., þar sem segir að við sérstakar aðstæður megi semja við dýralækni um greiðslu hluta ferðakostnaðar í því skyni að tryggja bændum fjarri aðsetri dýralæknis reglubundna þjónustu og bráðaþjónustu samkvæmt reglum gerðum í samráði við yfirdýralækni Dýralæknafélags Íslands og Bændasamtök Íslands, skuli því miður ekki hafa skýrst frekar í meðförum nefndarinnar.

Gefið var í skyn, við meðferð málsins, að þarna ætti að hafa hliðsjón af norsku reglunni sem er þannig að bændur þurfa aldrei að borga meira en 30 km af aksturskostnaði sjálfir. Restina greiðir hið opinbera. Í nefndinni kom fram að þeir treysta sér hvorki til að taka þessa reglu upp né heldur aðra reglu sem væri þá mildari. En fram kom að það mun verða fylgst með því hver þessi kostnaður verður næstu tvö árin og þá verða gerðar einhverjar ráðstafanir. Mér finnst þetta mjög ófullnægjandi og hefði kosið að í tengslum við samþykkt þessa frv. lægi mjög skýrt fyrir hve mikið ætti að koma til móts við bændur í aksturskostnaði. Þetta er ekki bara hagsmunamál bænda. Þetta er líka dýraverndarmál vegna þess að það er skelfilegt ef gríðarlegur tilkostnaður við að ná í dýralækni verður þess valdandi að dýralæknir sé ekki sóttur í mörgum tilfellum, að gripum verði lógað ef þeir veikjast. Þetta er annað atriði sem ég hef fyrirvara við.

Seinna atriðið er varðandi það að í frv. er gert ráð fyrir því að sérgreinadýralæknar skuli hafa frumkvæði að framkvæmd nauðsynlegra rannsókna og sýnatöku í samvinnu við héraðsdýralækna, rannsóknarstofnanir og afurðastöðvar og hafa eftirlit með framkvæmd sóttvarnaraðgerða. Í 15. gr. er svo tekið fram að yfirdýralæknir skuli hafa til ráðstöfunar viðunandi aðstöðu, búnað og sérþekkingu til greiningar dýrasjúkdóma vegna sjúkdómavarna og forvarnastarfa.

[11:30]

Mér og mörgum fleirum finnst þessar greinar frv. ganga á snið við lög um Tilraunastöðina á Keldum þar sem gert er ráð fyrir að patológ (líffærameinafræðingur) sem þar starfar framkvæmi alfarið krufningar. Ég vil þess vegna koma með þær brtt. sem ég hef lagt fram á sérstöku skjali við 14. og 15. gr. um að við 14. gr. bætist nýr málsliður, við 3. mgr. en 3. mgr. er svohljóðandi:

,,Sérgreinadýralæknum skal eftir því sem við verður komið gert kleift að taka þátt í krufningum á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum.``

Í framhaldi af þessu legg ég svo til að 15. gr. falli brott. Ég tel hana algerlega óþarfa. Þessi aðstaða er fyrir hendi á Keldum og undir yfirumsjón forstöðumanns þar og hefur það fyrirkomulag reynst ákaflega vel. Það er sama fyrirkomulag og er alls staðar í þeim löndum þar sem við þekkjum til í kringum okkur og engin ástæða til að breyta því hér og veita sérgreinadýralæknum eitthverja sérstaka aðstöðu til að gera krufningar á dýrum jafnvel þó gert sé ráð fyrir að lokagreiningin fari fram á Keldum.

Það er við þessi atriði frv. sem ég gerði athugasemdir og brtt. og þeim fylgdi svohljóðandi greinargerð:

,,Varðandi breytingu á 14. gr. þykir rétt að benda á að í 2. gr. laga um Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum eru ákvæði um hlutverk hennar. Samkvæmt þeim hefur tilraunastöðin þær skyldur að annast sjúkdómsgreiningar og mikilvægur þáttur í því er líffærameinafræði sem samkvæmt hefð felst í krufningum og smásjárskoðun. Það að fela sérgreinadýralæknum að annast krufningar en fela Tilraunastöðinni að Keldum að annast smásjárrannsóknir vefjasýna eins og ákvæði frumvarpsins virðast gera ráð fyrir er ekki þekkt annars staðar og virðist stangast á við lögboðið hlutverk stofnunarinnar. Ekki er gert ráð fyrir að sérgreinadýralæknar hafi neina sérmenntun í líffærameinafræði. Það skal þó tekið fram að æskilegt er að þeir geti tekið þátt í krufningum með líffærameinafræðingi eftir því sem við verður komið.

Ákvæði 15. gr. frumvarpsins og skýringar við hana eru í mótsögn við gildandi lagaákvæði um Tilraunastöðina að Keldum. Ákvæði 15. gr. er ekki til þess fallið að gera veg þeirrar stofnunar meiri í sjúkdómsgreiningu dýra heldur minnka tengsl þjónustu við sjúkdómsgreiningar og grunnrannsóknir á dýrasjúkdómum. Þá orkar einnig mjög tvímælis út frá stjórnsýslulegum sjónarmiðum að sami aðili, í þessu tilviki yfirdýralæknir, sem á að fyrirskipa og sjá um sóttvarnaraðgerðir, hafi einnig með höndum rannsóknaþjónustu sem slíkar aðgerðir byggjast á. Því er lagt til að greinin falli brott.``