Dýralæknar og heilbrigðisþjónusta við dýr

Þriðjudaginn 26. maí 1998, kl. 11:39:23 (6894)

1998-05-26 11:39:23# 122. lþ. 133.6 fundur 436. mál: #A dýralæknar og heilbrigðisþjónusta við dýr# (heildarlög) frv. 66/1998, SJS
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 122. lþ.

[11:39]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég verð að játa að það leita á mig vissar efasemdir um ágæti þessara breytinga að öllu leyti sem eiga í hlut. Mér sýnist einnig að hv. landbn. hafi ekki tekist að ljúka þannig umfjöllun um málið að allir endar séu tryggilega festir. Sérstaklega finnst mér vera mikið misræmi í því að leggja annars vegar til þá stækkun umdæma sem hér er verið að gera, á mannamáli að í vissum tilvikum eru einmenningsdýralæknahéruð slegin af og þau lögð undir stærri svæði og dýralæknum þess vegna fjölgað í leiðinni þar eða þeir eru jafnmargir þegar upp er staðið. Stækkun svæðanna mun óhjákvæmilega leiða til þess að þjónustusvæðið verður mun stærra og þær vegalengdir sem dýralæknarnir þurfa að fara yfir í störfum sínum miklu meiri en áður var. Ekki þarf mikla speki til að sjá að þetta er býsna viðkvæmt atriði varðandi þá þjónustu sem í hlut á og alveg sérstaklega ef ekki er gengið tryggilega frá því að notendurnir á t.d. fjarlægustu endum í stórum umdæmum verði ekki fyrir barðinu á þessum breytingum með auknum kostnaði. Það er ekki gert hér og ég segi alveg eins og er að mér finnst menn vera býsna brattir að afgreiða það mál með því að þetta þurfi að skoða. Það þarf ekkert að skoða þetta. Þetta liggur alveg gersamlega í augum uppi. Ef ekki verða lagðir á móti auknir fjármunir til að halda niðri ferðakostnaðinum veltur hann út í verðlagið og veldur því að þetta verður dýrara fyrir bændur en þó sennilega í miklu fleiri tilvikum hinu að þeir verða af þjónustunni. Það er alveg augljóst mál.

Hvaðan eiga peningarnir að koma í þetta? Af himnum? Ég sé það ekki. Ég sé ekki að það verði mikil uppspretta verðmæta með því að setja málið í athugun. Það verða varla til peningar við það að leggjast í einhverja skýrslugerð í eitt eða tvö ár. Þetta á kannski að koma að ofan, frá himnum, en þá held ég að menn megi verða bænheitir því að það er langt síðan ég heyrði um það að slík kraftaverk gerðust, að menn fengju fjármuni af himnum ofan, manna eða matvæli. Meira að segja hefur mönnum gengið illa á seinni árum að breyta vatni í vín og fjölga fiskum og metta menn með fáum brauðum þannig að ég held að þetta sé afar ótryggt og ekki í hendi.

Staðreyndin er sú, herra forseti, að við erum að sjá hluta af þróun sem hefur allt of víða verið að læðast aftan að mönnum hvað varðar opinbera þjónustu á landsbyggðinni og í hinum afskekktu byggðarlögum. Það er einn biti í einu. Það var gaman að sjá formann stjórnar Byggðastofnunar í gættinni, sem nýlega hefur pródúserað mikla skýrslu, og ég óska eftir því að hv. þm. Egill Jónsson verði viðstaddur umræðuna vegna þess að hér er ágætisdæmi til að taka fyrir og ræða varðandi þróun sem er alls staðar að læðast aftan að mönnum í þessum byggðarlögum að það er hægt og hljóðlega, þvert gegn því sem menn eru gjarnan að tala um, verið að draga úr hinni opinberu þjónustu á landsbyggðinni og í hinum afskekktu byggðarlögum. Það gerist m.a. með svona breytingum að í nafni hagræðingar eða kerfisbreytinga eða vegna þess að hin háu samkeppnisyfirvöld hafa hóstað eða stunið er farið út í breytingar sem í reynd þýða skerta þjónustu og lakari aðstöðu, sérstaklega hinna afskekktu byggðarlaga og það er það sem hér er að gerast.

Maður spyr sig á móti: Hvernig samrýmist það fallegum áætlunum og þykkum skýrslum um að gera hið gagnstæða eða fallegum þáltill. stjórnarþingmanna um að efla byggð og atvinnu um landið sem eru lagðar fram af og til, marklaus plögg gagnvart því að breytingarnar eru hins vegar allar á hinn veginn? --- Nú held ég að hv. þm. ættu að slökkva á farsímum sínum því að þó að það sé gott að þeir séu í nánu sambandi við kjósendur sína er betra að hafa það samband með öðrum hætti en þessum að ræða við þá í síma úr þingsalnum.

Herra forseti. Ég held að það sé stórkostlegt áhyggjuefni og ástæða til þess að staldra við í þessu tilviki eins og mörgum öðrum sambærilegum þegar verið er að nafninu til að endurskipuleggja opinbera þjónustu af hvaða toga sem er að það virðist reglan að þær breytingar eru allar á þá leið að skerða þjónustuna, sérstaklega í afskekktari landshlutum og byggðarlögum, og færa hana saman á færri staði. Það veldur auðvitað því að í raun er verið að gera aðstæður fólksins lakari til þess að búa í þeim byggðarlögum sem fyrir barðinu verða á þessari þjónustu. Það er hægt að nefna dæmi bæði af stórum skala og smáum í þessum efnum. Hér er um að ræða mjög smátt mál í þeim skilningi að þetta eru fáein opinber embætti og nokkur héruð sem verða fyrir barðinu á þessari breytingu en það er stórt fyrir það fólk sem í hlut á. Það mætti t.d. taka hliðstæður varðandi rekstur á heilbrigðissviðinu þar sem dæmin eru víða miklu stærri þegar í hlut eiga heilar sjúkrastofnanir eða sjúkrahús í einstökum byggðarlögum en þróunin af nákvæmlega sama toga; það er verið að færa þjónustuna saman, skerða hana og að lokum virðist hún öll ætla að lenda í Reykjavík. Það er þannig.

[11:45]

Ég held að þetta sé kolvitlaus áhersla vegna þess að ég held að einhver ódýrasta aðgerðin til að snúa vörn í sókn í byggðamálum sé að efla þjónustuna úti í hinum einstöku byggðarlögum, það sé beinlínis ódýrast fyrir hið opinbera að gera það þannig. Í staðinn fyrir að búa til sjóði og útdeila styrkjum og vera með hundruð millj. kr. á ferðinni í einhverjum slíkum aðgerðum sem ganga misvel eins og við vitum, þá held ég að pínulítið meira í dýralæknaþjónustu, svolítið meira í heilbrigðisþjónustu, svolítill stuðningur við skólahald, svolítill stuðningur við félagslega þjónustu í afskekktum og fámennum sveitarfélögum o.s.frv., fáeinar millj. í hverjum málaflokki sem yrðu markvisst settar inn til þess að bæta þjónustuna mundu skila miklu betri árangri og kosta minna.

Ég get tekið dæmi af einu sviði sem mönnum finnst kannski þægilegt en þó ekki. Mér datt það í hug þegar ég sá hv. þm. Hjálmar Jónsson slökkva á farsímanum sínum. Ég held að það væri mjög skynsamleg ráðstöfun t.d. af hálfu hins opinbera að hafa prest þjónandi í Grímsey, að sjá til þess að eitt af prestsembættum landsins, fjármagnað úr opinberum sjóðum, væri í Grímsey. Af hverju? Vegna þess að þá væri opinber starfsmaður í því byggðarlagi sem gæti sinnt fjölþættum verkefnum og stutt búsetuna þar, verið miklu meira en bara sálusorgari og prestur. Hann gæti kennt við skólann. Hann gæti verið með félagsmál á staðnum og auðvitað hlaupið undir bagga þegar vel aflaðist, skroppið í aðgerð o.s.frv. Ég held að við ættum að þora að prófa stundum að hugsa þessa hluti á alveg nýjum forsendum.

Það sama á við um dýralækna í fámennum héruðum. Ég þekki það vel af eigin raun að ef þar er á ferðinni öflugur maður sem hefur áhuga á samfélagi sínu og er tilbúinn til að leggja eitthvað af mörkum, þá getur hann verið einn af máttarstólpunum á fjölmörgum sviðum fyrir utan það að sjá fyrir þessari þjónustu. Ég þekki dæmi um dýralækna sem hafa jafnframt verið oddvitar sveitarstjórna sinna, hafa kennt í skólunum, hafa séð um heilbrigðiseftirlitið og jafnvel gert ýmislegt fleira. (Gripið fram í: Og kennarar.) Já. Þannig á að hugsa þetta að mínu mati.

Ég verð að segja alveg eins og er að þó ég hafi staðið að setningu samkeppnislaganna á sínum tíma og fylgst með framgangi þeirra síðan og þar hafi margt vel tekist þá mega þau heldur ekki verða svo heilög að við í þessu litla landi getum ekki leyst hlutina í afskekktum byggðarlögum praktískt. Ég blæs á það. Það var ekki tilgangurinn og hugsun samkeppnislaganna að koma í veg fyrir slíkt ef það er ekki varhugavert út frá samkeppnissjónarmiðum í neinu tilliti. Auðvitað er ekki svo þó einn opinber embættismaður annist fleiri skyldur en eina þegar ljóst er að hann er ekki að keppa þar við einn eða neinn. Þá þarf að aðlaga þá löggjöf að því að hún passi fyrir aðstæður í landinu.

Herra forseti. Ég harma að menn skulu vera svo kjarklitlir og máttlausir í þessum efnum að þeir þori ekki að hugsa sjálfstæðar hugsanir og velta því fyrir sér hvort ekki sé hægt að leysa hlutina öðruvísi og praktískar en hér er verið að gera. Ég held að mjög mikilvægt sé að þessir embættismenn séu til staðar t.d. í þeim afskekktu byggðarlögum sem ella verða meira og minna án þessarar þjónustu því að það verður þannig. Ég fullyrði að þeir verða ekki margir sauðfjárbændurnir í Þistilfirði eða á Vopnafirði sem senda eftir dýralækni inn á Húsavík þegar t.d. ein sauðkind á í hlut. Af hverju ekki? Af því að það dæmi gengur augljóslega ekki upp. Gripurinn sem í hlut á eða afurðirnar af honum standast ekki mál til þess að bera uppi þann kostnað sem slíkri heimsókn er samfara ef það á að senda mann mörg hundruð kílómetra vegalengd í slíku tilviki. Það þarf þá að vera verðmætur kynbótagripur eða einhver afburðaskepna ef það dæmi á að ganga upp. Niðurstaðan verður sú að menn verða af þjónustunni og það verður í miklu færri tilvikum sem menn velja þann kostinn að leita sér aðstoðar sérfræðings á þessu sviði. Þá er líka komið að þeirri spurningu hvort ekki sé um dýraverndunarmál að ræða að dæma heila landshluta nánast til þess að verða án þjónustu í þessum efnum. Ég held að það sé afturför í þessu tilliti að gera þá breytingu sem hér er verið að leggja til.

Einu rökin sem ég sé fyrir því og eru held, að mínu mati, eru að það kann að reynast auðveldara að manna störfin með þessu skipulagi vegna þess að við vitum að starf einyrkjans í svona tilvikum er erfitt. Þó er þar nokkuð ólíku saman að jafna þegar í hlut á dýralæknaþjónusta eða t.d. læknisþjónusta því að vissulega er sú ábyrgð sem læknar bera enn þá meiri og enn þá erfiðari skyldur eru lagðar á þeirra herðar oft og tíðum, að vera einir í héruðum sínum við þær aðstæður að það er nánast sama hvernig á stendur og hvort er að nóttu eða degi, að þeir á grundvelli læknaeiða sinna verða að gera það sem þeir geta til að bjarga málum og það eru auðvitað aðstæður sem við sjáum í hendi okkar að eru erfiðar. Þar er staða dýralæknanna óneitanlega betri og sjaldan um eins bráð eða alvarleg tilvik að ræða þegar þeirra þjónustu er þörf.

Herra forseti. Ég verð að láta það í ljós án þess að ég hafi kannski haft aðstöðu til þess að fara ítarlega ofan í saumana á þessu máli að við fljóta yfirferð á því og út frá þeirri staðarþekkingu sem ég tel mig hafa sé ég ekki þessa breytingu að öllu leyti sem framför. Það er alveg ljóst mál að sjálfstætt starfandi dýralæknar, sem eiga að byggja afkomu sína eingöngu á þeim tekjum sem þeir fá vegna starfa sinna, munu ekki taka sér bólfestu í fámennum og afskekktum héruðum. Það liggur alveg gjörsamlega í hlutarins eðli. Þeir verða á þéttbýlissvæðinu og í kannski nokkrum stærstu kaupstöðunum þar fyrir utan og allra stærstu landbúnaðarhéruðum en ekki í afskekktu héruðunum þar sem einmenningshéraðsdýralæknarnir hafa haldið uppi þjónustunni hingað til. Þau héruð eru dæmd til að nýta sér þjónustu frá hinum stóru umdæmum, frá héraðsdýralæknum eða starfandi dýralæknum á einum stað í hinum stóru umdæmum og þá er verið að búa til þær aðstæður sem hérna verða augljóslega til.

Að öðru leyti, herra forseti, hef ég ekki miklu við þetta að bæta. Mér er ljóst að þessar athugasemdir falla sjálfsagt dauðar niður og enginn gerir neitt með þær. Svo tökum við umræður um skýrslu Byggðastofnunar eftir nokkra daga og þá stendur eldurinn upp af hverjum manni af einlægum áhuga til þess að bæta aðstæður fólksins í byggðarlögunum og efla búsetu þar. En menn hika ekkert við að afgreiða svona mál hvert á fætur öðru. Menn skera niður heilbrigðisþjónustuna. Menn skera niður dýralæknisþjónustuna með málum af þessu tagi og koma svo og halda heilagar ræður um vilja sinn til þess að efla byggð í landinu og bæta aðstæður fólksins í hinum einstöku byggðarlögum. Svona til þess að friðþægja sálu sinni og þvo hendur sínar er gjarnan búinn til sjóður eða gusað 50 eða 100 millj. í Byggðastofnun sem fara svo eins og gengur hingað og þangað og ekki verður allt of mikil uppskeran eftir. Ég held að við séum á kolrangri braut í þessum efnum. Við erum að draga úr þjónustu sem er lífsnauðsynleg undirstaða byggðanna. Við erum að gera aðstæðurnar lakari með þessum breytingum á fjölmörgum sviðum og það er alveg sama hvort átt er við heilbrigðismál, skólamál, dýralæknaþjónustu, hvort við erum að tala um t.d. aðra opinbera þjónustu á sviði samgöngumála, skattyfirvöld eða annað því um líkt þar sem þróunin er öll á einn veg og ætti hæstv. landbrh. að þekkja t.d. ágætlega hvernig heimastaður hans, Húsavík, hefur verið að fara út úr ýmsum slíkum breytingum á undanförnum árum þar sem svona ,,hægt og hljótt`` eins og segir í textanum, þjónustan bara gufar upp af staðnum. Ágætt dæmi eru örlög skattstofunnar á Húsavík sem var sex eða sjö manna vinnustaður fyrir ekki mörgum árum og svo var byrjað að tappa af henni og það fjaraði undan henni á nokkrum árum. Eftir voru þrír menn, tveir menn, einn maður og síðast þegar ég vissi var þar bréfalúga og kannski maður í hálfu starfi. Það er alveg klassískt dæmi um það hvernig þessir hlutir eru að gerast þvert á það sem menn tala um, hægt og hljótt þannig að nánast enginn tekur eftir því eða a.m.k. vilja menn ekki mikið um það tala.

Við erum mjög stoltir af því þingmenn Norðurl. e. sem sórum það og sárt við lögðum allir á framboðsfundum fyrir bæði tveimur og hálfu ári, eða þremur er það víst að verða, og svo líka fyrir sjö árum að við mundum standa vörð um skattstofuna á Húsavík. Það vantaði ekki viljann og síðan hafa menn meira og minna verið allir í ríkisstjórnum og útkoman er þessi.

Aðeins eitt enn, herra forseti, og það er að mér sýnist í frv. hvað varðar þessa þjónustu vera ákveðinn einkavæðingarblær sem mér finnst ekki geðfelldur. Ég er í sjálfu sér ekkert að amast við því að þar sem meira en nóg verkefni eru fyrir sérhæfða sjálfstætt starfandi dýralækna, t.d. í því að gera við gæludýr Reykvíkinga, að þá sé þjónustan á þeim grunni. Það er allt í lagi af minni hálfu. Ég er ekkert að amast við því. En ég vara við því að menn haldi út á þá braut að einkavæða þessa þjónustu almennt hvað varðar almenna þjónustu í landinu og sitji svo uppi með það að hún verði þar af leiðandi í vaxandi mæli eingöngu bundin við nokkra stærstu þéttbýliskjarna landsins og að sama skapi óhentug, dýr eða ekki fyrir hendi fyrir þá sem búa annars staðar. En í þann farveg gætu þessi mál þróast, sýnist mér, miðað við það sem þetta frv. teiknar til og boðið er upp á samkvæmt því skipulagi. Því fyrirkomulagi er ég andvígur, herra forseti, og get því miður ekki annað en lýst afar takmarkaðri hrifningu með þetta frv. í heild sinni.