Dýralæknar og heilbrigðisþjónusta við dýr

Þriðjudaginn 26. maí 1998, kl. 12:06:15 (6896)

1998-05-26 12:06:15# 122. lþ. 133.6 fundur 436. mál: #A dýralæknar og heilbrigðisþjónusta við dýr# (heildarlög) frv. 66/1998, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 122. lþ.

[12:06]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég viðurkenni það vissulega og tók það fram í ræðu minni að einu rökin sem fyrir þessu gætu staðið að mínu mati og væru held eru þau að hugsanlega kynni að ganga betur að manna embættin ef þau væru færð saman fleiri á færri staði. Ég held þó að það sé hlutur sem menn þurfa ekkert að gefast upp við fyrir fram. Ég nefni þann árangur sem menn hafa náð í því að manna einmenningshéruð, bæði lækna og dýralækna með því að taka upp staðaruppbætur og bæta starfsaðstæður í héruðunum. Ég er alveg sannfærður um að sé það gert myndarlega getur það verið freistandi og ágætisbyrjun fyrir unga dýralækna að hefja starfsferil sinn með nokkurra ára þjónustu í slíkum héruðum og það hefur iðulega verið reyndin.

Í öðru lagi, herra forseti, getur svona endurskipulagning á þjónustunni vissulega komið til greina þegar búið er að bæta samgöngur þannig að forsendur séu fyrir henni. En hér eru menn að byrja á öfugum enda. Hér er t.d. verið að leggja niður héraðslæknisembættið á norðausturhorninu áður en samgöngurnar eru bættar þannig að verið er að gera nákvæmlega það sama og með Ríkisskip að verið er að leggja þetta af 10--12 árum of snemma ef við tökum mark á nýju vegáætluninni. Menn verða líka að hafa aðstæðurnar og vegina í huga. Ekki er nóg með að þetta séu mörg hundruð kílómetrar heldur eru það bráðónýtir vegir sem þessir dýralæknar eiga að aka eftir.

Auðvitað er sjálfsagt að dýralæknarnir starfi saman á ákveðnum svæðum. Það væri hægt að koma á þessu skipulagi hvað varðar vaktir og afleysingar, það er ekkert vandamál, en að þeir sitji á staðnum, t.d. á álagstímum um sauðburð, á haustin þegar verið er að taka líflömb o.s.frv. er úrslitaatriði hvað það varðar að menn geti nýtt sér þjónustuna.

Að öðru leyti, herra forseti, skal ég ekki orðlengja um þetta. Einhverjum kann að finnast að sjónarmið mín eigi betur heima undir umræðum undir liðnum byggðamál en það sem ég er líka að benda á með því að taka upp þessa umræðu er að þetta eru allt byggðamál. Einmitt þetta eru byggðamál en ekki einhverjar umræður um gagnslausa skýrslu.