Dýralæknar og heilbrigðisþjónusta við dýr

Þriðjudaginn 26. maí 1998, kl. 12:22:00 (6900)

1998-05-26 12:22:00# 122. lþ. 133.6 fundur 436. mál: #A dýralæknar og heilbrigðisþjónusta við dýr# (heildarlög) frv. 66/1998, EgJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 122. lþ.

[12:22]

Egill Jónsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kemur náttúrlega fram í þessari umræðu að menn eru meira og minna sammála. Það kemur líka fram, að því er ég hygg, að viss ótti læðist að mörgum okkar í sambandi við þessar breytingar. Það er vert að fallast á að í ýmsu af því sem hv. form. landbn. gat um felast góð rök, en tilefnið að þessari lagagerð er auðvitað þessi staða dýralækna í landinu, þar sem er mikill fjöldi manna. Ekki verður betur séð en hér sé offramleiðsla á dýralæknum og það sem ég kalla ,,frjálsir dýralæknar`` hafa verið að finna sér þarfir til að komast inn á þetta þróunarsvið. Fyrir því hafa menn verið að finna leiðir og finna rök eins og frv. ber með sér. Ég stend nú býsna fastur á því að frv. sem slíkt sé til komið á grundvelli þessara mismunandi sjónarmiða dýralækna. Við heyrðum það reyndar nokkuð skýrlega í viðtölum við dýralækna, eftir því hvar þeir störfuðu, að það er auðvelt að finna rök fyrir þessari fullyrðingu.