Dýralæknar og heilbrigðisþjónusta við dýr

Þriðjudaginn 26. maí 1998, kl. 12:27:38 (6902)

1998-05-26 12:27:38# 122. lþ. 133.6 fundur 436. mál: #A dýralæknar og heilbrigðisþjónusta við dýr# (heildarlög) frv. 66/1998, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 122. lþ.

[12:27]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það skal nú ekki miklu bæta við. Vitanlega, eins og fram hefur komið í umræðunum, hafa menn nokkrar áhyggjur af þessari þjónustu. Ég vil frekar leyfa mér að segja að menn hafi áhyggjur af þjónustunni eins og hún er og þeirri stöðu sem er í þessum málum í dag. Ég held að menn ofgeri í að telja þetta frv. eða þær breytingar sem þar eru gerðar muni leiða til verra ástands. Staðan í dag hefur m.a. leitt til þess að farið var í að endurskoða lögin sem í gildi eru og reyna að leita nýrri leiða. Þar eru m.a. inni ákvæðin í 13. gr., um greiðslu ferðakostnaðar, sem út af fyrir sig má kannski skoða hvort framkvæma megi öðruvísi en hér er gert ráð fyrir. Ég sé þó ekki hvernig tekið verði á því öðruvísi en að heimildin sé þar fyrir hendi. Það kemur fram í frv. og það kemur fram í athugasemdum frá fjmrn. að þetta verði gert og kosti fjármuni. Það liggur í raun allt fyrir. Það er þá aðeins spurningin um að móta reglurnar, sem ekki hefur enn verið gert, og er talað um að það verði skoðað, í nál. frá hv. landbn.

Varðandi hugmyndina um búsetu á Þórshöfn, af því að hv. þm. nefndi það í ræðu sinni áðan, um að annar héraðsdýralæknir skuli búsettur þar, þá segir ekkert í frv. að þeir skuli vera búsettir á einhverjum ákveðnum stað. Það segir ekki að þeir skuli vera búsettir á Húsavík, sem maður getur þó kannski gefið sér sem stærsta byggðarkjarnanum í þessu umdæmi, eða hvort þeir eigi að vera á Vopnafirði. Þeir gætu þess vegna verið, annar á Vopnafirði, hinn á Þórshöfn. Þá væri vesturhlutanum kannski illa þjónað. Ég er ekki að segja að líklegt sé að það verði þannig. Ég vildi aðeins benda á að hvergi er kveðið á um búsetuna, þannig að hún er læknunum auðvitað frjáls.