Dýralæknar og heilbrigðisþjónusta við dýr

Þriðjudaginn 26. maí 1998, kl. 12:32:18 (6904)

1998-05-26 12:32:18# 122. lþ. 133.6 fundur 436. mál: #A dýralæknar og heilbrigðisþjónusta við dýr# (heildarlög) frv. 66/1998, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 122. lþ.

[12:32]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þegar hefur komið fram að hv. landbn. ætlar að líta á einmitt þessa þætti máls milli umræðna. Ekkert hef ég á móti því að það verði skoðað og fleiri þættir. Ég hef hins vegar svolitlar efasemdir um að það leysi málin. Ég hef aðallega áhyggjur af því, ekki því að ég geti ekki deilt þessum viðhorfum og sjónarmiðum með hv. þm. flestum eða öllum sem hér hafa talað um áhyggjur sínar um hvort hægt sé að veita þessa þjónustu á viðunandi hátt. Við höfum bara ekki í dag fundið hina réttu og auðveldu leið til að leysa það en hér er verið að reyna að taka á því. Eitt af því held ég einmitt að sé undirtónninn í því að hafa tvo eða þrjá lækna starfandi í stórum umdæmum er að auðveldara verður að fá þá til búsetu með því að þeir geti búið saman og haft styrk og stuðning hver af öðrum. Ég hef ekkert á móti því að þetta verði skoðað einu sinni enn, óska þó eindregið eftir því að það leiði ekki til þess að málum verði frestað og frv. ekki afgreitt. Þetta er eitthvað sem menn hafa þá alltaf möguleika á að velta fyrir sér eða skoða. Vandamálið er til staðar í dag. Í dag eru héraðslæknisumdæmin eins og við höfum verið að lýsa og það hefur ekki tekist því miður að manna þau þannig að ég óttast að ef við búum til eitt stórt héraðslæknisumdæmi --- hvort sem það er Þingeyjarumdæmi eða eitthvert annað, þau eru fleiri stór samkvæmt frv. --- og segjum síðan að innan þess skuli búsetan vera á þennan veginn eða hinn þá takist okkur ekkert frekar að leysa það en er í dag. Ég vildi láta þessar efasemdir eða fyrirvara koma hér fram, hæstv. forseti.