Búnaðarlög

Þriðjudaginn 26. maí 1998, kl. 12:34:41 (6905)

1998-05-26 12:34:41# 122. lþ. 133.5 fundur 368. mál: #A búnaðarlög# (heildarlög) frv. 70/1998, Frsm. GÁ
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 122. lþ.

[12:34]

Frsm. landbn. (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til búnaðarlaga frá landbn. Í upphafi rekur nefndin hverjir komu á fund hennar og frá hverjum bárust umsagnir um málið en síðar segir, með leyfi forseta:

,,Með frumvarpi þessu er lagt til að sett verði ný lög sem leysi af hólmi jarðræktarlög og lög um búfjárrækt. Ákvæði jarðræktarlaga eru undirstaða þess skipulags sem gilt hefur hér á landi á meginhluta þessarar aldar um stuðning ríkisins við jarða- og húsabætur í sveitum. Á sama hátt eru búfjárræktarlögin undirstaða þeirra framfara í búfjárrækt sem orðið hafa hér á landi síðustu áratugina. Þessi lög eru einnig meginundirstaða þeirrar ráðunautaþjónustu sem rekin hefur verið á vegum landbúnaðarins og er þar að finna ákvæði um stuðning ríkisvaldsins við þá starfsemi. Þessi nýju búnaðarlög verða rammalög sem gera ráð fyrir samningum milli ríkisins og Bændasamtaka Íslands um verkefni á sviði jarðabóta, búfjárræktar, leiðbeininga og hagræðingar sem notið geta fjárstuðnings ríkisvaldsins.

Nefndin ræddi sérstaklega ákvæði 3. gr. frumvarpsins með hliðsjón af ákvæðum 30. gr. laga um fjárreiður ríkisins. Nefndin telur rétt að taka það sérstaklega fram að við gerð samninga skv. 3. gr. frumvarpsins þarf að gæta að ákvæðum 2. mgr. 30. gr. laga um fjárreiður ríkisins, en þar segir meðal annars að einkaaðila verði ekki með samningi skv. 1. mgr. falið opinbert vald til að taka ákvarðanir um réttindi og skyldur manna nema sérstök heimild sé til þess í lögum. Séu slíkir samningar gerðir skulu ákvæði stjórnsýslulaga og upplýsingalaga, sem og almennar meginreglur stjórnsýsluréttar, gilda um þá stjórnsýslu sem verktaki tekur að sér að annast. Af þessu ákvæði leiðir að við framkvæmd valds síns samkvæmt búnaðarlögum eru Bændasamtök Íslands bundin af ákvæðum stjórnsýslulaga og upplýsingalaga, sem og almennum meginreglum stjórnsýsluréttarins að því er varðar þá stjórnsýslu sem Bændasamtökin taka að sér að annast fyrir ríkisvaldið á grundvelli samninga skv. 3. gr. frumvarpsins.``

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali og mun ég ekki hér lesa þær breytingar upp. Þær eru á borðum hv. þingmanna. En ég vil aðeins koma að einu ákvæði, þ.e. bráðabirgðaákvæði frv. og ef ég hleyp yfir um hvað það snýst, þá segir, með leyfi forseta:

,,Landbúnaðarráðherra er heimilt að leita eftir samningum við bændur um greiðslur á sérstökum framlögum vegna framkvæmda á lögbýlum sem teknar voru út og samþykktar af héraðsráðunautum á árunum 1992--97, enda verði fylgt eftirfarandi reglum:

a. Semja skal um greiðslu ákveðins hlutfalls af reiknuðu framlagi samkvæmt reglugerð nr. 417/1991. Heimilt er að greiða mishátt hlutfall eftir eðli framkvæmda, samkvæmt nánari ákvörðun landbúnaðarráðherra.

b. Skýrt verði kveðið á um í samningum þessum að um sé að ræða fullnaðaruppgjör vegna framkvæmda sem gátu notið framlags samkvæmt lögum nr. 56/1987, með síðari breytingum, sbr. einnig reglugerð nr. 417/1991.

Ríkissjóður mun verja 50 millj. kr. hvert ár á fjárlögum áranna 1998, 1999 og 2000 til efnda á samningum landbúnaðarráðherra.``

Eftir að nefndin hafði farið yfir þetta mál kom í ljós að þarna stóðu út af ekki einungis 300--350 millj. eins og talið var þegar hæstv. landbrh. og fjmrh. gerðu með sér samning um þessar skuldir sem hafa legið óuppgerðar á haustdögum heldur var um mun hærri upphæð að ræða. Því mun fyrir 3. umr. koma breyting á þessu bráðabirgðaákvæði sem staðfestir að hæstv. landbrh. og hæstv. fjmrh. hafa náð með sér nýjum samningi sem hljóðar svo að næstu tvö ár þar á eftir, eða 2001 og 2002, komi til viðbótar 35 millj. á hvort ár til að gera upp þessar gömlu skuldir.

Hæstv. forseti. Ég hef þá farið yfir nál. sem hér liggur fyrir og lýk máli mínu.