Búnaðarlög

Þriðjudaginn 26. maí 1998, kl. 12:39:58 (6906)

1998-05-26 12:39:58# 122. lþ. 133.5 fundur 368. mál: #A búnaðarlög# (heildarlög) frv. 70/1998, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 122. lþ.

[12:39]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég kem til að lýsa megnri óánægju minni með það hvernig verið er að ganga frá þessu máli. Ég gerði þetta nokkuð ítarlega að umtalsefni við 1. umr. og get þar af leiðandi stytt mál mitt og vísað til þess sem ég sagði þar. Mér finnst það heldur snautlegt svo ekki sé fastar að orði kveðið að gera ekki upp þessa fortíð á sæmilega myndarlegan hátt þannig að þar séu gerð full skil á þeim stuðningi sem bændur eiga mjög sennilega ótvíræðan rétt á og hefðu getað sótt sér fyrir dómstólum. Og þó ekki væri þá er það líka spurning um pólitík, hvort menn vilja eða vilja ekki standa þannig að málum. Það er ódýrt að skríða bak við það að hugsanlega hefði ríkið getað haft þetta fé af bændum í málaferlum. Spurningin hér snýst um pólitík. Vilja menn gera þetta upp eðlilega eða ekki? Ég kann þeirri aðferð ákaflega illa að stilla bændum upp við vegg og segja við þá: Hirðið helminginn og afsalið ykkur kröfu til þess sem eftir er eða fáið ekki neitt nema með málaferlum og illindum og leiðindum. Þetta er ákaflega óskemmtileg aðferðafræði og ég tala nú ekki um að þegar í ljós kemur að hér eru útistandandi mun meiri fjármunir en áður var gert ráð fyrir því þá á að gaufa við að gera upp þennan helming langt fram á næstu öld. Þetta er léleg frammistaða og ég tel að menn vaxi ekki af þessum verkum sínum, þeir sem bera ábyrgð á að ljúka þessu máli svona.