Framleiðsla og sala á búvörum

Þriðjudaginn 26. maí 1998, kl. 14:21:03 (6913)

1998-05-26 14:21:03# 122. lþ. 133.4 fundur 559. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (mjólkurframleiðsla) frv. 69/1998, HjálmJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 122. lþ.

[14:21]

Hjálmar Jónsson (andsvar):

Herra forseti. Það er sérstakt fagnaðarefni að ákvæði um einn kvótamarkað, uppboðstilboðsmarkað í mjólk skuli vera afnumið í meðförum þingsins og hv. landbn. áður en gengið er frá lagasetningu um þennan búvörusamning í mjólk. Ég er sérstaklega glaður yfir því að það tókst að fella út ákvæði um tilboðsmarkað og að greiðslumark í mjólk skuli ekki fara allt um einn tilboðsmarkað. Ég er því alveg á öndverðum meiði við hv. þm. Sigríði Jóhannesdóttur.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson talaði um það áðan að forræðishyggja væri of mikil í landbúnaði. Með einum tilboðsmarkaði stefndi í að forræðishyggja yrði aukin. Það viljum við ekki og eins og hv. þm. sagði þá stóðu sjálfstæðismenn sérstaklega gegn þessu ákvæði. Ég fagna því að niðurstaða náðist um að tilboðsmarkaðurinn verði ekki tekinn upp heldur verður annarra leiða leitað í eðlilegum viðskiptum með greiðslumark í mjólk.