Framleiðsla og sala á búvörum

Þriðjudaginn 26. maí 1998, kl. 14:23:50 (6915)

1998-05-26 14:23:50# 122. lþ. 133.4 fundur 559. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (mjólkurframleiðsla) frv. 69/1998, HjálmJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 122. lþ.

[14:23]

Hjálmar Jónsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. talar um að sum héruð hafi sankað að sér kvóta meira en önnur. Það hafa verið frjáls viðskipti með greiðslumark í mjólk og engin sérstök undirmál í því. Menn hafa keypt á því verði sem aðilar hafa komið sér saman um. Það hefur auðveldað viðskipti með greiðslumark, auðveldað nýliðun í landbúnaði og mætti þannig lengi telja.

Í ræðu sinni nefndi hv. þm. Sigríður Jóhannesdóttir að um 90% bænda hefðu samþykkt búvörusamninginn eins og hann var lagður fyrir þingið. Það er vissulega rétt en þeir höfðu ekkert val. Þeir urðu að gjöra svo vel og samþykkja eða hafna. Stóri kosturinn við þennan samning er sá að nú er samið til langs tíma. Það er hagur fyrir báða aðila, ríkið og bændur og skapar ákveðið öryggi í greininni. Ég er viss um að mjög margir bændur treystu því að Alþingi mundi lagfæra þetta atriði samningsins enda ekki hægt að ganga frá lögfestingu hans öðruvísi en Alþingi samþykki þau lög sem við erum hér að véla um.