Framleiðsla og sala á búvörum

Þriðjudaginn 26. maí 1998, kl. 14:34:49 (6920)

1998-05-26 14:34:49# 122. lþ. 133.4 fundur 559. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (mjólkurframleiðsla) frv. 69/1998, HjálmJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 122. lþ.

[14:34]

Hjálmar Jónsson (andsvar):

Herra forseti. Hafi það verið sjálfstæðismenn í landbn. sem einir sáu um að gera breytinguna þá er ég stoltur af því, en svo er ekki. Um þetta varð nokkuð almenn sátt í meiri hluta landbn. og vel það þannig að ég get ekki verið annað en glaður yfir þessari breytingu. Frjáls viðskipti með greiðslumark hefðu að öðrum kosti verið afnumin. Einn tilboðsmarkaður hefði lokað á bein tengsl kaupenda og seljenda greiðslumarks í mjólk. Það hefði verið það eina sem breyttist. Í raun og veru hefðu allir ókostirnir sem menn finna núna að viðskiptum með greiðslumark lifað af þennan samning. Eftir sem áður hefðu aðilar getað samræmt og haft samræmd afskipti af kvótamarkaðnum og ráðið verðinu. Ég veit reyndar að mikill hluti kúabænda var mótfallinn þessari fyrirhuguðu miðstýringu og því segi ég enn og aftur að ég hef engar áhyggjur af því að þeim falli ekki vel að lifa við samninginn með þessari breytingu og endurtek að Landssamband kúabænda samþykkti tilboðsmarkaðinn með naumum meiri hluta, með naumasta meiri hluta sem hægt var.