Framleiðsla og sala á búvörum

Þriðjudaginn 26. maí 1998, kl. 14:42:47 (6923)

1998-05-26 14:42:47# 122. lþ. 133.4 fundur 559. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (mjólkurframleiðsla) frv. 69/1998, HjálmJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 122. lþ.

[14:42]

Hjálmar Jónsson (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt sem hv. þm. sagði að framkvæmdarvaldið, þ.e. hæstv. landbrh., gerir samning við samtök bænda sem kemur síðan til löggjafarvaldsins til þess að hann hljóti staðfestingu. Þannig hefur þetta gengið og það er fullkomlega eðlilegt. Alþingi þarf að staðfesta slíka samninga.

Að samið sé til langs tíma, í þessu tilviki til 2005, hefur afgerandi kosti í för með sér. Það tryggir einmitt það sem hv. þm. var að segja, að landbúnaðurinn verði rekinn sem arðbær atvinnuvegur og sem hver annar atvinnuvegur, ef ég man þetta rétt, og tryggir líka að kjör bænda verði ekki léleg heldur fari batnandi og hægt sé að byggja greinina upp til lengri tíma með meiri hagkvæmni að leiðarljósi. Þess vegna er mikilvægt að gera samning til langs tíma.