Framleiðsla og sala á búvörum

Þriðjudaginn 26. maí 1998, kl. 14:57:18 (6928)

1998-05-26 14:57:18# 122. lþ. 133.4 fundur 559. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (mjólkurframleiðsla) frv. 69/1998, HjálmJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 122. lþ.

[14:57]

Hjálmar Jónsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Svavar Gestsson sýndi hér að það er bæði hroki og geðillska sem stendur upp úr honum eftir kosningarnar. Ég veit ekki af hvoru er meira en þetta er í einum og sama manninum. Við erum vissulega glaðir, sjálfstæðismenn úti um land, hvernig til hefur tekist og engin ástæða til að rifja það öllu frekar upp. Ég vil benda hv. þm. á að helmingurinn af Framsfl. í hv. landbn. var algerlega á sama máli og sjálfstæðismennirnir um að afnema þennan kvótamarkað. Við vorum einfaldlega í sambandi við bændur vítt og breitt um landið og heyrðum það á hverjum fundinum með bændum eftir annan að eini þyrnirinn í þeirra augum var þessi uppboðsmarkaður með greiðslumark á mjólk. Það er fyrst og fremst vegna þess að við erum í nánum tengslum við okkar kjósendur sem við gerum þetta og leggjum þetta til, fyrir utan það að þetta á hver heilvita maður að sjá sjálfur sem athugar málið.

Hv. þm. talaði um forræðishyggju í málflutningi sjálfstæðismanna. Það er nú öðru nær. Í þessu máli er forræðishyggjan minnkandi, hún hefði vaxið að mun ef kvótamarkaðurinn hefði verið tekinn upp, það er alveg gefið mál. Ég hef ekki sé meiri forræðishyggju í nokkru máli eða heyrt af, síðan Sovétríkin liðu undir lok. Hugmyndin að reyna að koma þessum kvótamarkaði inn var sprottin af einhverjum slíkum kenndum og það er von að hv. þm. Svavar Gestsson sé á móti slíku.