Framleiðsla og sala á búvörum

Þriðjudaginn 26. maí 1998, kl. 15:00:20 (6930)

1998-05-26 15:00:20# 122. lþ. 133.4 fundur 559. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (mjólkurframleiðsla) frv. 69/1998, HjálmJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 122. lþ.

[15:00]

Hjálmar Jónsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. skipaði sér í virðulegan hóp með þessari ræðu og tilgreindi skoðanabræður sína. Gott og vel. En ég vil segja um þá bændur sem eru með litla framleiðslu í greininni að þeir hafa þó alltaf möguleika á því núna að hætta með þokkalegri reisn með því að selja sinn kvóta á því verði sem aðrir vilja kaupa hann, í stað þess að verða að afhenda hann fyrir ekkert eða lítið og ganga slyppir og snauðir frá ævistarfinu í sveitum.

Ég vil hins vegar einnig taka það fram að það er afleiðing, eins og hv. þm. sagði áðan, af landbúnaðarstefnu sem var rekin. Margt vitlaust hefur verið gert í landbúnaði af stjórnvöldum og af samtökum bænda á undanförnum áratugum. Það veit hins vegar hv. þm. Svavar Getsson miklu betur en ég, hann er búinn að standa hér og stjórna í það langan tíma.

Ég vil hins vegar líka gleðjast yfir því og er alveg sérstaklega ánægður með að landbúnaðurinn stefnir þó rétta leið til betri hags fyrir bændur og neytendur á allra síðustu árum.