Framleiðsla og sala á búvörum

Þriðjudaginn 26. maí 1998, kl. 15:24:46 (6934)

1998-05-26 15:24:46# 122. lþ. 133.4 fundur 559. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (mjólkurframleiðsla) frv. 69/1998, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 122. lþ.

[15:24]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það gerði ég reyndar áðan. Það hefur farið fram hjá hv. þm. Ég tók það fram þegar ég kom inn á spurningu hv. þm. Sighvats Björgvinssonar um það hvernig ráðherra hygðist beita reglugerðarvaldi sem fram kemur í 14. gr. frv., að ég liti svo á að þó að þar sé kveðið á um, eins og seinasti málsliður 14. gr. hljóðar, með leyfi forseta, að: ,,Landbúnaðarráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um markaðsfyrirkomulag og aðilaskipti með greiðslumark og skráningu þess.`` Þá verður ekki með slíkri reglugerðarheimild settur á ný kvótamarkaður með greiðslumark. Það yrði ekki gert öðruvísi en með lagabreytingu. Ef nefndin sem fjallar um efni málsins skv. 5. gr. samningsins kemst að þeirri niðurstöðu að það sé skynsamlegt þá munu menn taka það mál upp aftur af því að þá hafi sú afstaða verið tekin til málsins í heild. Alveg eins þá álít ég að ef nefndin hefði komist að gagnstæðri afstöðu, ef við hefðum ákveðið það með lagasetningu núna að setja kvótamarkað með greiðslumark á og nefndin síðan komist að þeirri niðurstöðu að það væri óskynsamlegt, þá hlyti hún samkvæmt samningnum að beita sér fyrir því að slíkur markaður yrði aftur lagður af.