Framleiðsla og sala á búvörum

Þriðjudaginn 26. maí 1998, kl. 15:36:23 (6936)

1998-05-26 15:36:23# 122. lþ. 133.4 fundur 559. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (mjólkurframleiðsla) frv. 69/1998, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 122. lþ.

[15:36]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að það sé fyllilega ástæða til að hv. þm. minni á þetta ágreiningsatriði í umræðunum um þetta frv. sem verið er að fjalla um og þær breytingar sem gerðar hafa verið á búvörusamningnum og hvernig staðið var að því af hálfu bændastéttarinnar. Ég minni á það í upphafi að þegar greidd voru atkvæði um sauðfjársamninginn, sem samið var um um áramótin 1995--1996, þá fór það mál ekki í neina almenna atkvæðagreiðslu. Þá var það bara forusta Bændasamtakanna sem fjallaði um málið og afgreiddi það. Ég hygg hins vegar að það hafi verið, ef ég man rétt, ég hef það nú ekki fyrir framan mig, hæstv. forseti, en ég held ég muni það rétt að það hafi verið Landssamband kúabænda sem óskaði eindregið eftir því eða ályktaði um að fram færi almenn atkvæðagreiðsla um þessa breytingu, breytinguna sem varðaði framleiðslu og samning um mjólkina. Jafnframt held ég að einnig hafi verið kveðið á um að það væru mjólkurframleiðendur einir sem þar greiddu atkvæði. Mig minnir að það hafi komið fram í ályktun hjá þeim eða hafi verið þeirra ósk í upphafi en segi þetta með fyrirvara samt þar sem ég hef þessa ályktun ekki fyrir framan mig, hæstv. forseti. Ég er líka sammála því sem ég held að hafi komið fram hjá hv. 8. þm. Reykn. í máli hennar áðan að mér fyndist í raun óeðlilegt að loðdýrabóndi eða svínabóndi væri að fjalla um samninginn um mjólkina en ég er sammála hv. þm. um að þessi saga, reynsla og þau ágreiningsefni sem komu upp eigi að leiða eða leiði til þess að taka þurfi á þessu, hvernig að þessu máli skuli staðið í framtíðinni og setja um það skýrari ákvæði. Svar mitt við spurningu hv. þm. er þess eðlis að ég tel að það þurfi að gera. Hins vegar var ekki tekið á því nú í þessum samningum eða þessu frv. því ágreiningsefni koma kannski upp að einhverju leyti eftir á. Fyrst og fremst var verið að fjalla um breytingar sem tilheyrðu mjólkursamningnum en vafalaust þarf á einhverju stigi að taka lögin í heild sinni til endurskoðunar og þá gæti þetta atriði komið sérstaklega til athugunar.