Framleiðsla og sala á búvörum

Þriðjudaginn 26. maí 1998, kl. 15:39:56 (6938)

1998-05-26 15:39:56# 122. lþ. 133.4 fundur 559. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (mjólkurframleiðsla) frv. 69/1998, Frsm. meiri hluta GÁ
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 122. lþ.

[15:39]

Frsm. meiri hluta landbn. (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Örfá orð vegna þeirrar umræðu sem hér hefur farið fram og um margt verið bæði málefnaleg og skemmtileg. Fyrir það vil ég þakka. Það var hv. 4. þm. Vestf., Sighvatur Björgvinsson, sem fyrstur talaði og sannleikurinn er nú sá að það er eins og Alþfl. sé heldur að mildast í garð landbúnaðarins og fagna ég því. Þetta kemur kannski til af því að þessir flokkar verða svolítið að breyta um klæðaburð og haga sér öðruvísi á þeim tíma sem formaður Alþb. er að gefa honum undir fótinn og kyssa hann í laumi og stíga við hann eitt og eitt dansspor og tala um sameiningu, sem ég hef auðvitað enga trú á að geti orðið. Ég skil vin minn, hv. 8. þm. Reykv., Svavar Gestsson, vel þótt hann sé svolítið skapvondur um þessar mundir. Auðvitað er hann eins og gamli klárinn að hann kvíðir vetrinum þegar hann verður að klæðast nýjum búningi og verða kallaður krati um allt land. Það verða þung spor og erfið ef svo fer.

En það var svo með hv. þm. Sighvat Björgvinsson að hann hélt um margt málefnalega ræðu. Hann fagnaði því að markaðurinn færi út en hann sagði að það kerfi sem hefði verið við lýði hefði hvorki skilað bændum né neytendum betri kjörum á síðustu árum. Það er rétt hjá hv. þm. að því miður hafa kjör bænda versnað fram undir þetta en eru þó heldur að batna á nýjan leik, vissulega með þeim hætti sem er öfugt við marga aðra þjóðfélagsþegna að bændur hafa verið að bæta á sig vinnu, stækka búin og bæta á sig vinnu. Þeir hafa orðið að fara þá leið og auðvitað að hagræða á búum sínum og draga úr öllum tilkostnaði þannig að þeirra hagur hefur ekki batnað. En er það rétt hjá hv. þm. að halda því fram að hagur neytenda hafi ekki batnað á þessum tíma? Ég er með tölur um þróun vöruverðs frá því ... (Gripið fram í.) Ég er hér, hv. þm., að ræða um það sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sagði í ræðu sinni, ég minntist á hv. þm. örlítið áðan og kem aftur að máli hans síðar. Ég fagna því að Svavar Gestsson skuli genginn í salinn og ekki enn kominn í kratafötin.

Ég er hér með töflu um þróun smásöluverðs mjólkur, rjóma og osta frá 1991 til 1997. Hvað hefur verið að gerast í landinu á þeim tíma? Það er sá tími sem búvörusamningarnir hafa staðið og það er sá tími sem ekki hefur bara dregið úr niðurgreiðslum heldur útflutningsuppbætur felldar með einu pennastriki og Bændasamtökin tekið á sig mikla kjaraskerðingu í frjálsum samningum sem mér finnst því miður að ýmsir ábyrgir aðilar í þjóðfélaginu virði ekki og minnist ekki á og ætli aftur og aftur að sækja kjarabætur til launþega eftir þessari leið. Því miður. Það eru kannski fyrst og fremst hagfræðingar sem þar ganga fyrir liði. En hér eru þessar upplýsingar og ef ég aðeins, með leyfi forseta, rýni í tölur þá hafa matvörur hækkað í verði frá 1991 til 1997 um 9,3%. Þetta er almenn hækkun en ef ég sérgreini nokkrar tegundir, við skulum taka mjöl, grjón og bakaðar vörur. Þær hafa hækkað um 14,6%. Kjöt og kjötvörur hafa hækkað um 5,7%. Fiskur og fiskvörur um 4,1%. Mjólk, rjómi og ostar um 0,7%. Það hefur sem sé engin hækkun orðið á slíkum vörum á þessu tímabili og auðvitað er ekki hægt að segja annað en að það sé mikill hagur fyrir neytendur að svo hafi verið. Við getum tekið grænmeti, ávexti og ber sem hafa hækkað um 23%, kartöflur og vörur úr þeim, sem eru nú innfluttar í stórum stíl, 26%, sykurinn hefur hækkað um 159% á þessu tímabili, kaffi, te, kakó og súkkulaði hefur hækkað um 32% og aðrar matvörur um 7,3%.

[15:45]

Þessar upplýsingar liggja kristalstærar fyrir, að það sem Bændasamtökin og bændurnir í landinu hafa gefið eftir hefur komið í lækkuðu vöruverði inn á hvert einasta heimili á Íslandi. Auðvitað hefur þetta kallað á það að margir bændur búa því miður um þessar mundir við léleg kjör.

Það leikur enginn vafi á því að menn hafa stigið skref til frelsis og ég er sannfærður um að nú, með batnandi hag meðal bændastéttarinnar, þá er það ungt, stórhuga fólk sem ætlar að duga í þessari atvinnugrein á næstu öld. Það verður að hugsa um gæðastjórnun og gæðastjórnun aftur og vera í sátt við þjóð sína og land. Þannig vinnur landbúnaðurinn í dag og hefur snúið umræðunni á betri veg. Ég hygg að enn séu flestir Íslendingar þeirrar skoðunar að þeir vilji sjá hér sterkan og öflugan landbúnað, enda ræddi hv. þm. um vöruvöndun og gæði afurðanna, sem eru einstakar og á heimsmælikvarða í kjöti og ekki síður í mjólk og mjólkurafurðum. Það ber enginn ost heim með sér frá útlöndum lengur, slík eru gæðin. Um þetta er nú samstaða og meira að segja Alþfl. vitnar um þetta.

En ég vil segja við þá sem þrá nú ganga inn í Evrópusambandið, eins og hv. þm. Sighvatur Björgvinsson: Hvaða kerfi er þar í gangi? Þar er það bótakerfið. Það heldur enn uppi útflutningsbótum til sinna bænda. Þær voru klipptar af íslenskum bændum sem eru einu bændurnir í Evrópu sem ekki hafa útflutningsbætur. Ef við skoðum fjárlög Evrópusambandsins þá renna yfir 50% af fjárlögum þeirra til landbúnaðarins. Það er því mikið styrkjakerfi sem íslenskir bændur eru þegar farnir að keppa við í Evrópu og er sjaldan minnst á. Eigi að síður vil ég þakka hv. þm. fyrir mildari tón en oft hefur verið hjá Alþfl.

Hér hafa bæði hv. 8. þm. Reykn., Sigríður Jóhannesdóttir, sem situr í landbn., og fleiri alþýðubandalagsmenn, gagnrýnt það mjög hart að markaðurinn fór út úr frv. og það fyrirkomulag um sölu á greiðslumarki sem verið hefur, verði áfram a.m.k. um sinn. Það var ljóst --- ég veit ekki hvort einhver þrýstingur hefur náð þessu fram --- þegar í upphafi í báðum stjórnarflokkum að það var ekki samstaða um þetta mál. Það var ágreiningsatriði. Það lá líka fyrir að á meðal bænda var talsverður ágreiningur um þetta.

Ég segi fyrir mig að ég gat vel fallist á þetta kerfi, miðað við þá hugsun að framleiðslurétturinn er ekki eign eins og bíllinn eða húsið. Hann er réttur til að framleiða. Þess vegna gat ég fallist á annað kerfi til að minna menn á að þeir ættu þetta ekki, og kannski yrði það skoðað hvort þessi leið mundi ná því fram að verð á kvóta lækkaði.

Ég hef mestar áhyggjur af því í íslenskum landbúnaði að það fólk sem ég minntist á áðan og ætlar að duga fyrir þessa atvinnugrein á næstu öld, er að skuldsetja sig. Það verður að kaupa sér framleiðsluréttinn dýrum dómum og af því hef ég áhyggjur. Um hitt má svo segja að það er kannski ekki rökrétt að hafa svona framkvæmdaratriði inni í samningi sem fer í almenna atkvæðagreiðslu á meðal bænda. Ég er ekkert viss um hvernig sú atkvæðagreiðsla hefði farið á meðal bænda varðandi þetta atriði eitt og sér. Bændur greinir á um þetta atriði. Þess vegna tek ég undir orð hæstv. landbrh., að það er sjálfsagður hlutur að fara enn og aftur yfir þetta kerfi og reyna að grandskoða hvað hentar best í þeim efnum.

Hv. 19. þm. Reykv., annar af tveimur fulltrúum Kvennalistans hér í þinginu, Guðný Guðbjörnsdóttir, hélt nokkuð merkilega ræðu sem mér fannst ekki vera beint í anda Kvennalistans. Það er nú svo varðandi atvinnuvegina að fyrst og fremst þurfa menn á því að halda að vita hvað framtíðin ber í skauti sér. Þess vegna eru langtímasamningar, ekki síst við atvinnugrein eins og landbúnaðinn, sem er að þróa sig og byggja sig upp til sóknar á nýjan leik, mjög mikilvægir og eitt besta atriðið í þessum samningi er að hann skuli ná til 2005. Ég skildi að vísu ekki hugmyndafræði hv. þm. Mér fannst eins og hún væri að boða það að þjóðin öll ætti að koma saman, bændurnir í einni fylkingu, verkalýðurinn í annarri, svo við stjórnmálamennirnir og síðan yrði bara glímt um þetta atriði. Ég skildi ekki alveg málflutninginn hjá hv. þm. en það skiptir nú ekki máli. Hitt finnst mér aðalatriðið að menn hafa náð fram langtímasamningi sem skiptir landbúnaðinn mjög miklu máli.

Hv. þm. Svavar Gestsson gagnrýndi hart þetta með markaðinn. Ég skil Alþb., það er enn þessarar skoðunar. Ég hef farið yfir það atriði og vil segja til viðbótar um það að auðvitað er engin fullvissa um að miðstýring af þessu tagi, markaður í Reykjavík sem eftir á að þróa, hefði náð að lækka verðið. Ég ætla ekkert að fullyrða um það. En það sem hv. þm. sagði, að þingið væri smátt í sniðum og bændum væri ekki sýnd virðing með því að breyta samningnum, ég er ekki sammála þessum orðum.

Ég hef margsagt að landbn. er ekki ljósritunarvél og þar verða menn auðvitað að fylgja nokkuð sinni sannfæringu. Þetta er framkvæmdaratriði sem þarna er breytt. Ég minni á sauðfjársamninginn. Ég tel að það hafi verið til heilla fyrir sauðfjárræktina og landbúnaðinn í heild að landbn. breytti þar tveimur ákvæðum fyrir tveimur, þremur árum, þegar það mál var hér í þinginu. Ég hygg að flestir viðurkenni það nú. Menn verða að búa við að ýmis mál geta tekið breytingum.

Ég held að ég fjalli þá ekki frekar um þetta, hæstv. forseti. Ég get tekið undir með hv. 4. þm. Norðurl. v. um að þegar mál fara í atkvæðagreiðslu þá þarf náttúrlega að vera alveg skýrt hver kjörskráin er og hverjir megi koma að slíkri atkvæðagreiðslu. Ég held að það sé mjög mikilvægt að skýra það vel.

Ég vona að sá langtímasamningur sem hér er að fara í gegnum þingið verði til að styrkja bændur í þeirri trú að menn standi með landbúnaðinum, að Íslendingar vilji eiga hér öflugan landbúnað, og þeir setji sig í þá stöðu að undirbúa sig undir þá samkeppni sem er. Ég vona að bændur nái að halda innanlandsmarkaðinum sem mest og ekki síður hitt að samningurinn færi þeim þau sóknarfæri sem mér finnst að íslenskir bændur eigi í gegnum vörugæðin, bæði í mjólkinni og kjötinu, miðað við þær kröfur sem neytendur gera um hollustu afurðanna um víða veröld. Ég trúi því að landbúnaðurinn sé að rétta við eftir þá sáru kreppu sem hann hefur gengið gegnum á þessum áratug.