Framleiðsla og sala á búvörum

Þriðjudaginn 26. maí 1998, kl. 15:58:46 (6941)

1998-05-26 15:58:46# 122. lþ. 133.4 fundur 559. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (mjólkurframleiðsla) frv. 69/1998, GGuðbj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 122. lþ.

[15:58]

Guðný Guðbjörnsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er mjög gott að heyra það að hv. þm. er fæddur af konu og á konu og elskar konur. Það er mikil upplýsing fyrir mig sem aðra væntanlega. Mér finnst hins vegar óásættanlegt að heyra --- mér skilst eiginlega helst á þingmanninum að ég sé ekki nógu mild --- að það sé það sem hann á við. Það eina sem ég fer fram á er að kjósendur fái að koma að landbúnaðarstefnunni í kosningum eins og öðrum stefnumálum. Hvers vegna er aldrei kosið um landbúnaðarmál? Af því að þau hafa alltaf verið fest með svona samningum fleiri, fleiri ár fram í tímann.

Auðvitað þarf að vera festa í þessari atvinnugrein eins og öðrum en margir bændur eru ekkert sáttir við þessa leið. Það fullyrði ég. Ég þekki marga bændur sem ekki eru sáttir við þetta ástand. Það er algjörlega óviðunandi finnst mér að þjóðin fái aldrei að kjósa um þessi mál. Hún fær ekkert að kjósa um þessi mál þegar búið er að lögfesta allt sjö ár fram í tímann.