Framleiðsla og sala á búvörum

Þriðjudaginn 26. maí 1998, kl. 16:04:09 (6945)

1998-05-26 16:04:09# 122. lþ. 133.4 fundur 559. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (mjólkurframleiðsla) frv. 69/1998, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 122. lþ.

[16:04]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Að mér er mikill harmur kveðinn að hv. þm. skuli láta það um sig spyrjast að hann skuli hafa gengið í björgin með íhaldinu í þessu máli. Ég hélt satt að segja að það væri öðruvísi og ég harma það. Þessi eyðibýlastefna sem hér er verið að gera tillögu um byggist fyrst og fremst á því, eins og hv. þm. Hjálmar Jónsson sagði, að með þessu móti er verið að auðvelda bændum að hætta, litlum bændum að hætta, til að þeir stóru geti þrifist. Ég hélt að Framsfl. hefði þann skilning á stöðu landbúnaðarins að hann stæði ekki að þeirri eyðibýlastefnu sem hér er verið að innleiða, a.m.k. hv. þm. Guðni Ágústsson. Ég endurtek því, herra forseti, að mér þykir leitt til þess að vita að hann skuli hafa gengið í hendurnar á þessum tröllum eins og fleiri framsóknarmenn. En við ræðum það kannski síðar hvernig mætti hugsa sér að frelsa þingmanninn úr þeim ánauðarklóm sem hann finnur sig í.

Það er leitt til þess að vita að hann skuli ekki beita styrkri stöðu sinni sem formaður landbn. til að standa sjálfstætt og í lappirnar í þessu máli.