Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Þriðjudaginn 26. maí 1998, kl. 16:14:36 (6948)

1998-05-26 16:14:36# 122. lþ. 133.7 fundur 359. mál: #A rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu# frv. 57/1998, Frsm. minni hluta SvG
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 122. lþ.

[16:14]

Frsm. minni hluta iðnn. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Varðandi það frv. sem hér liggur nú til 3. umr. þá er það skoðun okkar í þingflokki Alþb. og óháðra að þetta sé stærsta mál þingsins. Það er stundum talað um það af stjórnarandstöðu eða stjórn eftir atvikum að einstök mál séu stærstu mál þingsins og um það eru oft deilur hvað er stærst í þessum efnum og ég átta mig út af fyrir sig á því, herra forseti, að um hvort þetta sé stærsta mál þingsins eða einhver önnur er kannski ekki endilega samstaða. En af okkar hálfu lítum við þannig á að þetta sé langsamlega alvarlegasta mál þessa þings. Það er vegna þess, herra forseti, að við teljum að með þessu móti sé verið að flytja landeigendum milljarða verðmæti. Með öðrum orðum að öll þau verðmæti sem eru neðan jarðar, inn að miðju jarðarinnar séu eign landeigandans hver sem hann er og hver sem verðmætin kunna að vera.

[16:15]

Í öðrum löndum OECD eru alls staðar reglur sem takmarka þessa möguleika landeigendanna í þágu viðkomandi þjóða. Jafnvel í því landi, Nýja-Sjálandi, sem talið er lengst til hægri flestra ríkja í efnahgsmálum, eru gamlar reglur í gildi um að það sé almenningur sem eigi verðmætin í jörðu, þar á meðal jarðhita. Hér er í sjálfu sér um að ræða tillögu sem gengur ótrúlega langt í þá veru að breyta í grundvallaratriðum eignasamsetningu og efnahagslegri samsetningu íslenska þjóðfélagsins.

Þess vegna var það sem við þingmenn Alþb. og óháðra héldum sérstakan blaðamannafund í Elliðaárdal í dag við eina af borholum Hitaveitu Reykjavíkur. Þar lögðum við fram eftirfarandi fréttatilkynningu, herra forseti:

,,Alþýðubandalagið hefur um árabil barist fyrir því að auðlindir í jörðu neðan 100 metra yrðu lýstar sameign þjóðarinnar. Nú er hins vegar verið að afgreiða stjórnarfrv. um eignarhald á auðlindum í jörðu sem gengur í allt aðra átt þannig að landeigendur eignist öll auðæfi í jörðu undir löndum þeirra inn að jarðarmiðju ef ekki vill betur til. Hér er um að ræða milljarða tilflutning eigna frá þjóðinni í heild til einstakra landeigenda.

Fulltrúar stjórnarandstöðunnar í iðnn. Alþingis hafa lagt fram á Alþingi brtt. við stjórnarfrv. um eignarhald og nýtingu á auðlindum í jörðu. Mikilvægustu brtt. felast í því að gert er ráð fyrir að takmarka eignarréttindi á auðlindum í jörðu við nýtingu sem þekkt er til þessa. Þannig er í raun farin sama leið og í hinum nýju þjóðlendulögum sem við studdum. Þá er gert ráð fyrir því að málið verði endurskoðað í sumar í sérstakri nefnd svo unnt verði að skýra takmörkunarákvæðin enn frekar í löggjöf á næsta þingi.

Annar aðalgalli stjórnarfrv.,`` segir í fréttatilkynningunni, ,,er sá að þar er ekki gert ráð fyrir samráði við umhverfismálastofnanir sem skyldi. Flytur stjórnarandstaðan tillögur um róttækar breytingar á umhverfisþætti frv. Ljóst er að verðmæti lands þar sem auðlindir er að finna getur verið umtalsvert, einkum ef auðlindirnar eru skilgreindar sem eign landeigenda. Sem dæmi má nefna að árið 1976 féll gerðardómur í svokölluð Svartsengismáli þar sem landeigendum voru úrskurðaðar bætur vegna Hitaveitu Suðurnesja. Þá fengust um 90 millj. kr. fyrir land- og jarðhitaréttindi en það jafngildir um 600 millj. kr. á verðlagi dagsins í dag. Þessi gerðardómsúrskurður hefur síðan verið notaður sem fyrirmynd í öðrum sambærilegum málum.

Meginástæður fyrir því að okkar mati að takmarka eignarréttinn ofan í jörðina eins og gerð er tillaga um eru þessar:

1. Þeim mun dýpra sem kemur ofan í jörðina er fráleitara að miða auðlindanýtingu við eignarhald á yfirborði landsins. Ástæðan er m.a. sú að þá er komið ofan í sameiginlega uppsprettur grunnvatns, hvort sem um er að ræða heitt vatn eða kalt.

2. Tekin hefur verið ákvörðun um það með lögum að öll auðæfi undir hafsbotninum inn að netlögum séu eign þjóðarinnar. Það er því óeðlilegt að byrja við netlagamörk nýja eignarviðmiðun á auðlindum í jörðu.

3. Þrátt fyrir ákvæði stjórnarskrárinnar er unnt að takmarka eignaréttinn enda séu fyrir því almenn og málefnaleg rök.

Þetta hafa sérfræðingar sem komið hafa á fund iðnn. Alþingis staðfest, eins og Sigurður Líndal og Allan V. Magnússon, og er því vísað á bug málflutningi iðnrh., sem telur slíkar takmarkanir fara í bága við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar.

Alþb. getur ekki tekið þátt í því að flytja ómæld auðæfi úr þjóðareign í einkaeign og telur áform ríkisstjórnarinnar fara í bága við hagsmuni þjóðarinnar. Það mun freista þess strax og tækifæri er til að breyta þeim ákvæðum frv. sem fela í sér eignatilfærslu en þar með væri ekki um að ræða varanlegt afsal eigna frá þjóðinni til einstakra landeigenda.``

Hér er um að ræða pólitíska yfirlýsingu, herra forseti, í lok þessarar fréttatilkynningar um það að við munum beita okkur fyrir því að breyta þessari eignatilfærslu strax og við fáum möguleika til. Við lýsum því hér með yfir að við munum ekki una þessum tillögum eins og þær liggja fyrir í afstöðu ríkisstjórnarinnar og í frv. hennar.

Á þessum blaðamannafundi, herra forseti, sem við héldum í Elliðaárdal í dag vorum við stödd við eina af minnstu borholunum í dalnum. Þar koma upp 19,7 lítrar á sekúndu af heitu vatni, 86° heitu vatni. Ef það er skoðað aðeins nánar kemur í ljós að verðmæti það sem hér er um að ræða upp úr þessari einu holu á ári, lítilli holu í raun og veru, minnstu holunni í Elliðaárdal, sennilega þeirri minnstu af sex eða sjö, mundi samkvæmt því verðlagi í dag sem Hitaveita Reykjavíkur mundi vera tilbúin til að kaupa þetta vatn á og framselja síðan notendum gefa eiganda holunnar 567.648.000 kr. fyrir 621.259.200 lítra af 86° stiga heitu vatni. Þetta dæmi er auðvitað svo sláandi að það þarf ekki að ræða málið í rauninni neitt frekar vegna þess að það sýnir hvað hér er um að ræða hrikalegan hlut: að tekjurnar af þessari einu litlu holu gætu verið í kringum hálfur milljarður kr. á ári --- af þessari einu litlu borholu.

Núna væri það náttúrlega þannig að ef við ættum þessa holu þyrftum við sjálf að bora og sjálf að leggja lagnir frá henni. Engu að síður væri hér um að ræða ótrúlega fjárfestingu, ótrúlegar tekjur, sem við værum og erum með þessu frv. að færa landeigendum. Það er alveg sama hvað kæmi upp úr jörðinni samkvæmt þessu frv., hvort um er að ræða heitt vatn á háhitasvæðum, hvort um er að ræða olíu, hvort um er að ræða málma, allt er eign landeigandans. Síðan eru engin ákvæði um það með hvaða hætti landeigandinn skilgreinir það hvað það er að bora beint niður í jörðina. Hann getur auðvitað sótt sér verðmæti á ská og alla vega undir landareign annarra þannig að af þessu sjá menn auðvitað líka hvað það er mikil vitleysa og heimskulegt að ætla sér að afhenda landeigandanum allar auðlindir langt ofan í jörðina eins og gerð er tillaga um í frv. hæstv. ríkisstjórnar.

Minni hluti iðnn. hefur gefið út nál. um þetta mál og þar segir svo, með leyfi forseta:

,,Minni hluti iðnaðarnefndar flytur fjölmargar breytingartillögur við 3. umræðu um frumvarpið. Flestar tillögurnar lúta að því að tengja rannsóknir og nýtingu auðlinda í jörðu við stofnanir umhverfisráðuneytisins. Minni hlutinn telur breytingartillögur meiri hlutans að þessu leyti ófullnægjandi þar sem ekki er gert ráð fyrir samstarfi við stofnanirnar heldur við ráðuneytið sjálft sem er óeðlilegt. Það er þó vissulega betra en ekki. Þó er fráleitt að tengja stofnun eins ráðuneytis við annað ráðuneyti eins og gert er ráð fyrir í breytingartillögum meiri hlutans.

Mikilvægustu breytingartillögur minni hlutans felast í því að lagt er til að takmarka eignarrétt á auðlindum í jörðu við nýtingu sem þekkt er til þessa. Þannig er í raun farin sama leið og í frumvarpi til laga um þjóðlendur.``

Og þannig er farin sama leið og farin var í lögum í Noregi áður en olíuboranir hófust þar á sínum tíma.

,,Þá er lagt til í ákvæði til bráðabirgða að farið verði yfir málið í sérstakri nefnd í sumar svo að unnt verði að skýra takmörkunarákvæði enn frekar í löggjöf á næsta þingi.

Rökin fyrir tillögum um takmörkun á eignarrétti í jörðu eru þessi:

1. Þeim mun dýpra sem kemur ofan í jörðina er fráleitara að miða auðlindanýtingu við eignarhald á yfirborði lands. Ástæðan er meðal annars sú að þá er komið ofan í sameiginlegar uppsprettur grunnvatns hvort sem það er heitt eða kalt. Sá sem borar ofan í jörðina gæti þar með verið að ganga á eign granna sinna. Takmörkun á eignarrétti í jörðu er því sjálfsögð tillitsemi við rétt nágrannans.

2. Tekin hefur verið ákvörðun um það með lögum frá Alþingi að öll auðæfi undir hafsbotninum inn að netlögum séu eign þjóðarinnar. Það er því óeðlilegt að byrja við netlagamörk nýja eignarviðmiðun á auðlindum í jörðu.

3. Þrátt fyrir ákvæði stjórnarskrárinnar er unnt að takmarka eignarréttinn, enda séu fyrir því almenn og málefnaleg rök. Þetta kom skýrt fram á fundi iðnaðarnefndar þar sem mættir voru Sigurður Líndal prófessor og Allan Vagn Magnússon dómari. Þar með er að mati minni hlutans hafnað þeim sjónarmiðum sem iðnaðarráðherra hefur byggt málflutning sinn á, þ.e. að frumvörp stjórnarandstöðunnar séu andstæð stjórnarskrárákvæðunum um verndun einkaeignarréttarins. Slíkt er fjarri öllu lagi.

Minni hlutinn lagði til við 2. umr. að málinu yrði frestað og það unnið betur. Sú tillaga var því miður felld, en það væri eðlilegasta málsmeðferðin. Erfitt er að flytja breytingartillögur við frumvarp sem er í grundvallarmótsögn við afstöðu stjórnarandstöðuflokkanna en engu að síður reynt. Minni hlutinn tekur fram að þeir þingflokkar sem standa að minni hlutanum munu freista þess strax og þeir fá tækifæri til að breyta þeim ákvæðum frumvarpsins sem fela í sér mesta eignatilfærslu; þar með væri ekki um varanlegt afsal eigna að ræða frá þjóðinni til einstakra landeigenda.

Guðný Guðbjörnsdóttir hefur tekið þátt í umfjöllun nefndarinnar um málið sem áheyrnarfulltrúi og er hún samþykk nefndaráliti þessu.``

Undir nál. rita Svavar Gestsson, Gísli S. Einarsson og Jóhanna Sigurðardóttir.

Eins og fram kom í áliti minni hlutans, herra forseti, þá flytjum við allmargar tillögur um breytingar á frv. eins og það lítur út eftir 2. umr. Ég mun nú, herra forseti, fara yfir þessar brtt. eins og þær líta út. Vík ég þá að fyrstu brtt. en hún er við 3. gr. frv. og orðast svo:

,,Eignarlandi fylgir eignarréttur á auðlindum í jörðu, enda séu auðlindirnar þekktar og vinnanlegar þegar lög þessi eru samþykkt. Í þjóðlendum eru auðlindir í jörðu eign íslenska ríkisins, nema aðrir geti sannað eignarrétt sinn til þeirra þegar lög þessi eru sett.``

Við gerum sem sagt ráð fyrir því að þessi setning bætist við til skýringar á greininni en greinin orðast svo í frv. eftir 2. umr. frá hæstv. ríkisstjórn:

,,Eignarlandi fylgir eignarréttur að auðlindum í jörðu, en í þjóðlendum eru auðlindir í jörðu eign íslenska ríkisins, nema aðrir geti sannað eignarrétt sinn til þeirra.``

Í rauninni er aðalatriðið í þessu máli, herra forseti, að við hverfum frá þeirri hugmynd, m.a. vegna þess að margir hafa talið hana ónákvæma að takmarka eignarrétt á auðlindum í jörðu við tiltekinn metrafjölda, t.d. 100 metra eða 200 metra eða eitthvað því um líkt. En við gerum tillögu um að eignarrétturinn verði takmarkaður við það að auðlindirnar séu þekktar og vinnanlegar þegar lög þessi eru samþykkt. Það má segja að annars vegar gangi þessi tillaga lengra en tillögur um 100 metra takmörkun ofan í jörðu, vegna þess að þess væru dæmi og það er hugsanlegt að auðlindirnar fyndust innan við 100 metra og eignarrétturinn á þeim yrði þannig í rauninni í höndum ríkisins þó svo væri, samkvæmt þessu orðalagi.

En hér er hins vegar verið að fara leið sem hefur verið reynd annars staðar og við teljum að sé að mörgu leyti eðlileg og við teljum að hún sé í samræmi við þjóðlendufrv. En til þess hins vegar að fjalla um þessi mál áfram, og má segja að það sé framhald af og gæti út af fyrir sig átt við jafnvel þótt ekki yrði fallist á tillögur okkar, þá gerum við tillögu um að við bætist ákvæði til bráðabirgða sem hljóðar svo:

,,Alþingi kýs fimm manna nefnd sem skili fyrir haustið 1998 tillögum um breytingar á lögum þessum um takmarkanir á auðlindarétti í jörðu skv. 3. gr. þessara laga. Ríkisstjórnin ákveður þá hvort og í hvaða formi málið verður lagt fyrir Alþingi á næsta löggjafarþingi.``

Hér er með öðrum orðum um að ræða samhangandi tillögur, þ.e. fyrstu tillöguna og síðustu tillöguna, en engu að síður tel ég að málið sé þannig að ef svo illa færi, sem mér býður reyndar í grun, að fyrsta tillagan yrði felld, þá tel ég að síðasta tillagan gæti eftir sem áður staðist, jafnvel miðað við frv. eins og það lítur út að öðru leyti því að það þarf auðvitað að vinna í þessum takmörkunarmálum miklu betur en ríkisstjórnin hefur þegar gert. Ég tel að hún hafi kastað höndunum til þessa máls og það þurfi að vinna það miklu betur.

[16:30]

Í öðru lagi, herra forseti, flytjum við brtt. á þskj. 1427 um að ákveðin breyting verði á 4. gr. frv. Við gerum ráð fyrir því að 1. málsliður 1. mgr. orðist svo, með leyfi forseta:

,,Iðnaðarráðherra er heimilt að höfðu samráði við stjórnvöld umhverfismála að hafa frumkvæði að og láta rannsaka og leita að auðlindum í jörðu enda sé ekki með því gengið gegn staðfestu skipulagi eða ráðstöfun lands samkvæmt náttúruverndarlögum og skiptir þá ekki máli þó að landeigandi hafi sjálfur hafið slíka rannsókn eða leit eða heimilað það öðrum, nema viðkomandi aðili hafi gilt rannsóknarleyfi samkvæmt lögum þessum.``

Það sem breytist með þessari tillögu okkar er að við bætum hér inn stjórnvöldum umhverfismála sem iðnrh. eigi að hafa samráð við um þessi mál og við bætum hér inn líka skipulags- og byggingaryfirvöldum og við skírskotum líka til náttúruverndarlaga. Við teljum að hér sé tekið miklu betur af skarið en í tillögu hæstv. ríkisstjórnar á þskj. 1405 þar sem segir svo í 1. brtt. frá meiri hlutanum, með leyfi forseta:

,,Um rannsóknir og nýtingu samkvæmt þessum lögum gilda einnig náttúruverndarlög, skipulags- og byggingarlög og önnur lög sem varða rannsóknir og nýtingu lands og landsgæða.``

Ég tel að þessi brtt. sé til bóta. Hins vegar tel ég skýrara að mæla fyrir um þetta samstarf í hverri grein fyrir sig og á því byggist þessi a-liður 2. brtt. okkar.

Í öðru lagi gerum við þá brtt. við 2. málslið 2. mgr. að á eftir orðinu ,,Orkustofnun`` komi: og Náttúruvernd ríkisins. Og þá hljóðar liðurinn þannig, með leyfi forseta:

,,Þó ber landeiganda að senda Orkustofnun og Náttúruvernd ríkisins áætlun og lýsingu á fyrirhuguðum borunum, sprengingum, gerð námuganga eða öðrum verulegum framkvæmdum í þessu skyni.``

Síðan gerum við ráð fyrir því að við þessa grein bætist í þriðja lagi tvær nýjar málsgreinar sem orðist svo, með leyfi forseta:

,,Þá skal iðnaðarráðuneytið tryggja að Náttúruvernd ríkisins fái nauðsynlegar upp lýsingar um áætlanir samkvæmt þessari grein og að stofnunin geti komið athugasemdum á framfæri og sett skilyrði sem iðnaðarráðuneytið tryggir að farið verði eftir á sama hátt og þau skilyrði sem Orkustofnun kann að setja.

Náttúrufræðistofnun ríkisins þarf ekki rannsóknarleyfi samkvæmt þessari grein.``

Þessi brtt. kann að virðast sérkennileg en rökin fyrir henni eru þau að ef þessi ákvæði væru ekki í lögunum þá mætti ætla að Náttúrufræðistofnun ríkisins þyrfti rannsóknarleyfi samkvæmt þessari grein. Þess vegna er nauðsynlegt að mati okkar að undanþiggja hana með sérstöku jákvæðu ákvæði.

Í þriðja lagi gerum við, herra forseti, brtt. við 5. gr. frv. um að á eftir orðinu ,,Orkustofnunar`` í 3. mgr. komi: Náttúruverndar ríkisins og Náttúrufræðistofnunar.

Þá orðaðist málsgreinin þannig svo breytt:

,,Áður en leyfi er veitt skal leita umsagnar Orkustofnunar, Náttúruverndar ríkisins og Náttúrufræðistofnunar.``

Í fjórða lagi gerum við brtt. við 6. gr. um að fyrri málsliður 1. mgr. orðist svo, með leyfi forseta:

,,Nýting auðlinda úr jörðu er háð því að hún sé heimil samkvæmt lögum um skipulags- og byggingamál og að fyrir liggi leyfi iðnaðarráðherra hvort sem það er til nýtingar auðlinda í eignarlöndum eða í þjóðlendum með þeim undantekningum sem greinir í lögum þessum.``

Það nýja í þessari brtt. frá því sem er í tillögu ríkisstjórnarinnar er að við gerum ráð fyrir því að sérstaklega verði skírskotað til skipulags- og byggingarlaga um leið og fjallað er um málin eins og greint er frá í greininni að öðru leyti.

Síðan gerum við ráð fyrir því, herra forseti, að við 8. gr. bætist ný málsgrein sem hljóðar svo:

,,Áður en efnistaka hefst samkvæmt þessari grein skal landeigandi eða sá sem hann hefur fengið til verksins tilkynna áform sín til Náttúrufræðistofnunar og Náttúruverndarráðs og hefjist framkvæmdir ekki fyrr en þessar stofnanir hafa gefið samþykki sitt.``

Þetta kann að virðast nokkuð bratt ákvæði af hálfu okkar. En svo er ekki ef menn skoða samhengið því að í greininni eins og hún lítur út núna segir svo, með leyfi forseta:

,,Þrátt fyrir ákvæði III. og IV. kafla er heimilt án leyfis að rannsaka og hagnýta á eignarlandi berg, grjót, möl, leir, sand, vikur, gjall og önnur slík gos- og steinefni, svo og mold, mó og surtarbrand.``

Og punktur. Það er auðvitað algjörlega fráleitt að ganga svona frá greininni eins og gert er í tillögu ríkisstjórnarinnar enda greiddum við stjórnarandstæðingar atkvæði gegn henni við 2. umr. En þar sem greinilegt er að ríkisstjórnin ætlar að reyna að knýja þessa grein í gegn þá flytjum við hér tillögu um breytingu um sérstaka viðbót við greinina, þ.e. þá sem ég las upp áðan.

Í sjötta lagi gerum við brtt. við 10. gr. en 10. gr. er fyrsta greinin í kaflanum um jarðhita. Þeirri grein hefur þegar verið breytt nokkuð en við gerum ráð fyrir því að við greinina bætist ný málsgrein sem orðist svo, með leyfi forseta:

,,Landeigandi eða Orkustofnun tilkynni Náttúruvernd ríkisins um fyrirhugaðar jarðboranir og aðrar meiri háttar framkvæmdir með hliðsjón af eftirlitshlutverki Náttúruverndarráðs, sbr. lög nr. 93/1996, um Náttúruvernd ríkisins.``

Við teljum sem sagt að það eigi að kalla Náttúruverndarráð til áður en tekin er ákvörðun um hagnýtingu jarðhita í eignarlandi sínu til heimilis- og búsþarfa, þar með talið til ylræktar, iðnaðar og iðju, allt að 3,5 mw. miðað við vermi sem tekið er úr jörðu alls innan eignarlands.

Þetta teljum við að sé eðlilegt að hafa þó um jarðhita til eigin nota sé að ræða.

Í 7. lagi gerum við brtt., herra forseti, við 14. gr. frv. Þar gerum við ráð fyrir því að við bætist ný málsgrein svohljóðandi, en þetta er greinin sem fjallar um grunnvatn, með leyfi forseta:

,,Landeigandi eða Orkustofnun tilkynni Náttúruvernd ríkisins um fyrirhugaðar jarðboranir og aðrar meiri háttar framkvæmdir með hliðsjón af eftirlitshlutverki Náttúruverndarráðs, sbr. lög nr. 93/1996, um Náttúruvernd ríkisins.``

Þessi grein er í raun og veru samhljóða þeirri sem áður var getið og flutt er í tengslum við breytingar á greininni sem fjallar um hagnýtingu jarðhita.

Í áttunda lagi, herra forseti, flytjum við brtt. við 17. gr. frv. um að þar verði kveðið svo á að við veitingu nýtingarleyfa sé þess gætt að nýting auðlinda í jörðu sé í samræmi við staðfest skipulag og umhverfissjónarmið o.s.frv., þannig að hér er gert ráð fyrir því að staðfestu skipulagi viðkomandi svæði sé komið inn í lögin.

Í níunda lagi, herra forseti, gerum við tillögur um breytingar á 21. gr. en kaflinn fjallar um vernd og eftirlit með vinnslusvæðum, upplýsingagjöf, meðferð upplýsinga o.fl. Þar gerum við ráð fyrir því að við 2. málsl. bætist: sbr. lög nr. 93/1996, um Náttúruvernd ríkisins. Þá mundi málsliðurinn hljóða svo, með leyfi forseta:

,,Orkustofnun gefur iðnaðarráðherra skýrslu um framkvæmd leitar, rannsókna og vinnslu samkvæmt nánari fyrirmælum sem ráðherra setur með reglugerð, sbr. lög nr. 93/1996, um Náttúruvernd ríkisins.``

Í tíunda lagi flytjum við brtt. við 23. gr. frv. og leggjum til að þar bætist við ný málsgrein sem orðist svo, með leyfi forseta:

,,Náttúrufræðistofnun getur fengið aðgang að þeim rannsóknargögnum sem Orkustofnun hefur með höndum samkvæmt þessum kafla laganna.``

Það er alveg óhjákvæmilegt að kveða á um að Náttúrufræðistofnun geti fengið aðgang að þessum gögnum þannig að þessar tvær rannsóknar- og ríkisstofnanir geti haft og tryggt eðlilega samvinnu og komið verði í veg fyrir tvíverknað eins og mögulegt er.

Í ellefta lagi leggjum við til að 2. málsliður 28. gr. falli brott. Þetta er kaflinn um eignarnáms- og bótaákvæði og 28. gr. hljóðar svo í heild, herra forseti:

,,Nú veitir iðnaðarráðherra öðrum en landeiganda leyfi til að leita að og rannsaka auðlind innan eignarlands, og getur landeigandi þá krafist bóta vegna tjóns sem hann verður sannanlega fyrir af þeim sökum vegna röskunar eða skemmda á landi og mannvirkjum. Náist ekki samkomulag um bætur skal ákveða þær með eignarnámsmati.``

Ástæða þess að við leggjum til að þessi málsliður verði felldur niður er fyrst og fremst sú að við teljum að þær forsendur sem byggt er á í greinargerð frv. í þessu efni mundu knýja ríkið eða aðra aðila til þess að greiða landeiganda óhóflegar bætur og þess vegna leggjum við til að þetta ákvæði verði fellt niður.

Þá gerum við tillögu um það í tólfta lagi, herra forseti, að breyting verði á 30. gr. og hún breytist í heild, og greinin orðist svo samkvæmt tillögu okkar. Þessi breyting er í beinu framhaldi af brtt. við 28. gr.

,,Við ákvörðun bóta skv. 28. gr. skal aðeins tekið tillit til tjóns vegna verðrýrnunar á landareign og spjalla á henni, afnotamissis af landgæðum eða hlunnindum og umferðar eða átroðnings á landareign. Valdi aðgerðir leyfishafa því að landeigandi geti ekki nýtt auðlindir sem fylgja landareign eða þær spillist á landeigandi einnig rétt til bóta vegna tjóns síns af því.``

Hér gerum við ráð fyrir mjög veigamikilli breytingu en ég ætla að leyfa mér, herra forseti, að lesa upp greinina eins og hún hljóðar nú samkvæmt tillögum ríkisstjórnarinnar:

,,Þegar ákvörðun um eignarnám skv. 29. gr. liggur fyrir skal landeigandi segja til um það innan 45 daga hvort hann óskar eftir að endurgjald fyrir auðlindirnar verði metið sem bætur sem greiðast í einu lagi eða sem árleg greiðsla meðan vinnsla auðlindar samkvæmt nýtingarleyfi stendur yfir. Meta skal sérstaklega bætur vegna annars en endurgjalds fyrir auðlindina.

Óski landeigandi eftir því að fá bætur greiddar sem árlega greiðslu skal sú greiðsla ákveðin með eignarnámsmati og vera ákveðinn hundraðshluti eða önnur fast ákveðin eining miðað við verðmæti á tilteknu vinnslustigi. Heimilt er að tengja endurgjald að nokkru eða öllu leyti við afkomu viðkomandi vinnslu. Ákveða skal í matinu gjalddaga greiðslunnar, hvort og þá hvernig hún skuli breytast eða endurskoðuð. Landeigandi getur krafist þess að sett sé trygging fyrir hinni árlegu greiðslu og skal úrskurða um þá kröfu í matinu og form tryggingar.

Framkvæmd eignarnáms á grundvelli þessara laga fer eftir almennum reglum. Við ákvörðun eignarnámsbóta skal taka sérstakt tillit til óvissu um auðlindina og kostnaðar af leit og vinnslu.``

Með þessu ákvæði eins og það er í tillögu hæstv. ríkisstjórnar er gengið ótrúlega langt í því að tryggja landeigandanum bætur við þær aðstæður sem hér er um að ræða og þess vegna flytjum við þá brtt. sem er nr. 12 á þskj. okkar og er orðrétt, ef ég man rétt, upp úr frv. hv. þm. Sighvats Björgvinssonar og fleiri, sem hér hefur verið til meðferðar í vetur líka um sama efni.

Í þrettánda lagi flytjum við brtt. við 34. gr. frv. þar sem við gerum ráð fyrir því að í stað orðanna ,,fenginni umsögn`` í 3. málsl. 1. mgr. komi: fengnu samþykki. Hér er verið að undirstrika vald umhvrn. þegar kemur að nýtingu á örverum, sérstaklega erfðaefnum úr hitakærum örverum. Þessi grein er ein sú skrýtnasta í frv. og á auðvitað ekkert heima hérna. En úr því að búið er að setja hana hér inn þá gerum við þessa tilraun um breytingu á henni. Greinin hljóðar nú svo, með leyfi forseta:

,,Lög þessi taka eftir því sem við á til rannsókna og nýtingar á örverum sem vinna má á jarðhitasvæðum. Rannsóknir og nýting örvera á jarðhitasvæðum er óheimil án leyfis iðnaðarráðherra samkvæmt lögum þessum. Leyfi samkvæmt þessari grein skal veitt að fenginni umsögn umhverfisráðherra. Náttúruvernd ríkisins fer með eftirlit með rannsókn og nýtingu samkvæmt þessari grein.

Iðnaðarráðherra setur nánari reglur um framkvæmd þessarar greinar í samráði við umhverfisráðherra.

Með örverum er átt við örverufræðilega einingu, myndaða af frumum eður ei, sem fær er um eftirmyndun eða yfirfærslu erfðaefnis.``

Það má segja að það eina góða við þessa grein séu orðin ,,eður ei`` sem eru ekki algeng í lagatextum. En að öllu gamni slepptu þá leggjum við til að samþykki umhvrh. þurfi fyrir því að flytja úr landinu eða nýta örverur og erfðaefni úr hitakærum örverum.

Herra forseti. Í fjórtánda lagi flytjum við þá brtt. að í staðinn fyrir síðustu grein frv. sem er núna svona, með leyfi forseta: ,,Endurskoða skal ákvæði 34. gr. laganna`` --- þ.e. um örverurnar --- ,,fyrir 1. janúar 2001`` --- komi að greinin falli úr gildi 31. des. árið 2000. Það þýðir að hún falli úr gildi og stjórnvöld, bæði Alþingi og ríkisstjórn, verða þá að tryggja að komin verði ný lög sem fjalli um hina lifandi náttúru og þar með verði þessi grein komin í eðlilegt lagasamhengi í stað þess sem hér er sem við í stjórnarandstöðuflokkunum teljum óeðlilegt eins og það liggur fyrir.

[16:45]

Loks leggjum við svo til, herra forseti, að:

,,Alþingi kýs fimm manna nefnd sem skili fyrir haustið 1998 tillögum um breytingar á lögum þessum um takmarkanir á auðlindarétti í jörðu skv. 3. gr. þessara laga. Ríkisstjórnin ákveður þá hvort og í hvaða formi málið verður lagt fyrir Alþingi á næsta löggjafarþingi.``

Hér er sem sagt um að ræða tillögu um að nefnd verði sett til að fara yfir þessi deilumál í sumar og geri tillögu um lagfæringar á lögunum fyrir haustið þannig að Alþingi geti tekið afstöðu til þess þá á nýjan leik hvernig með þessi mál verði farið. Með öðrum orðum erum við að undirstrika, herra forseti, að í raun og veru séu þær ákvarðanir sem hér er verið að taka, til bráðabirgða. Þær eru tæknilega til bráðabirgða vegna þess að þær standast ekki. Þær standast ekki tæknilega, ég fullyrði það, herra forseti. Í öðru lagi segjum við að pólitískt séu þessar ákvarðanir um eignarhald á auðlindum í jörðu til bráðabirgða.

Ég vil að lokum, herra forseti, nota tækifærið og fara nokkrum orðum um brtt. meiri hlutans og segja að þær eru algerlega fráleitar. Þar er gert ráð fyrir því að stofnanir iðnrn., eins og Orkustofnun, hafi samráð við umhvrn. Það kemur fram í 2. og 3. brtt. Ég tel að þessar tillögur sýni ekkert annað en vantraust umhvrn. á sínum eigin stofnunum. Þarna hefði auðvitað átt að standa Náttúruvernd ríkisins og Náttúrufræðistofnun Íslands og jafnvel Skipulag ríkisins, en ekki umhverfisráðuneyti. Ég fullyrði að þessi búnaður um lagatexta, í lögum þeim er hér er gert ráð fyrir, er algerlega einsdæmi og felur að mínu mati í sér mikið og alvarlegt vantraust á stofnunum umhvrn. Í rauninni er fráleitt að gera ráð fyrir því að stofnun eins ráðuneytis hafi samráð eða samvinnu við annað ráðuneyti en ekki stofnun annars ráðuneytis. Það er algerlega fráleit uppsetning sem hér er gert ráð fyrir, herra forseti, og ég tel hana út í hött eins og hún lítur út.

Eins og ég sagði áðan, herra forseti, þá er það okkar skoðun í þingflokki Alþb. og óháðra að þetta sé stærsta mál þessa þings. Hér er verið að afhenda landeigendum milljarða- og aftur milljarðatuga verðmæti. Við mótmælum því og lýsum því jafnframt yfir, herra forseti, að við munum strax og við fáum tækifæri til að beita okkur fyrir breytingum á þessu frv., ef það verður að lögum. Við teljum að það sé tæknilega illframkvæmanlegt og að pólitískt sé það ranglátt.