Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Þriðjudaginn 26. maí 1998, kl. 16:57:02 (6953)

1998-05-26 16:57:02# 122. lþ. 133.7 fundur 359. mál: #A rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu# frv. 57/1998, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 122. lþ.

[16:57]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Hér erum við komin að 3. umr. um umdeilt frv., um eignarhald og nýtingu á auðlindum í jörðu, eitt af þeim þremur frv. þessarar ríkisstjórnar sem mest hefur verið deilt um á þessu þingi, bæði innan þings og utan. Það er athyglisvert að þessi umdeildu frv., um eignarhald og nýtingu á auðlindum í jörðu, hálendisfrv. eða breyting á sveitarstjórnarlögunum og húsnæðisfrv., eru öll flutt undir forustu ráðherra Framsfl. Það er athyglisvert út af fyrir sig, herra forseti.

Það er einnig athyglisvert að skoða þetta frv. til laga um eignarhald og nýtingu á auðlindum í jörðu, en með því geta landeigendur rakað til sín stórkostlegum fjármunum ef þjóðin þarf að nýta auðlindir sem finnast í jarðeign þeirra, og bera saman við hitt frv. sem framsóknarráðherrarnir bera hér fram, um húsnæðismálin, þar sem verið er að draga niður lífskjör þeirra sem verst standa í þjóðfélaginu. Þær fjölskyldur eru settar í algjört öryggisleysi að því er varðar húsnæðismálin og raunverulega úthýst frá húsnæðiskerfinu svo hundruðum skiptir. Þannig að þetta er út af fyrir sig athyglisverður kafli í sögu Framsfl.

Við 2. umr. þessa máls lagði minni hlutinn til að frv. yrði vísað til ríkisstjórnarinnar en sú tillaga náði ekki fram að ganga. Því hefur minni hlutinn lagt fram frhnál. og brtt. sem síðasti ræðumaður, hv. þm. Svavar Gestsson, hefur hér gert grein fyrir.

Herra forseti. Svo virðist sem allar auðlindir þjóðarinnar séu smátt og smátt, fyrir forgöngu þessarar ríkisstjórnar, ríkisstjórnar Framsfl. og Sjálfstfl., að komast í hendur fárra, þar sem hyglað er að sérhagsmunum á kostnað almannahagsmuna. Við í stjórnarandstöðunni höfum reynt, eins og við höfum getað, að hindra það en það er komið að 3. umr. þessa máls. Það er auðvitað rétt sem meiri hlutinn heldur hér fram að hann hefur sinn rétt til þess að koma fram þeim frv. sem hann hefur meiri hluta fyrir. Ég er hins vegar sannfærð um að fyrir þeim þremur umdeildu málum sem ég nefndi áðan er ekki meiri hluti hjá þjóðinni.

[17:00]

Minni hlutinn kom inn á það við 2. umr. sem ég ætla ekki að gera mikið að umtalsefni að það væru nokkur grundvallaratriði í frv. sem við í minni hlutanum gagnrýndum sérstaklega. Við gagnrýndum mjög hve metnaðarlausar áherslur væru lagðar í umhverfismálin, herra forseti, og virðist svo vera sem meiri hlutinn hafi í brtt. sínum við 3. umr. og að einhverju leyti við 2. umr. tekið tillit til þess.

Eitt ágreiningsefnið varðaði útleigu og gjaldtöku fyrir afnot einkaaðila af sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar og við vildum setja skýrari málsmeðferðarreglur um leigu afnotaréttar þar sem m.a. fulls jafnræðis væri gætt og skýrar reglur um afnotagjald samkvæmt lögum um aukatekjur ríkissjóðs eða lögum um útboð. Auk þess bentum við á ýmislegt sem vantaði í frv. og nefndum þar að ekki væri fjallað nægilega um eignar- og hagnýtingarrétt ríkisins á auðlindum í jörðu utan afmarkaðra eignarlanda, að ekki er kveðið á um eignarrétt ríkisins að jarðefnum sem hafa ekki verið hagnýtt hér á landi þar sem þau hafa ekki fundist í nýtanlegu magni og óljóst sé kveðið á um eignarrétt ríkisins á orku háhitasvæða og ekki væru settar skýrar reglur um hvernig bætur skuli metnar fyrir tjón sem landeigendur telja sig verða fyrir vegna leyfisveitinga eða eignarnáms. Í frv. vantar enn skýrar reglur um leyfisveitingar til leitar, rannsóknar og nýtingar á þeim auðlindum sem frv. tekur til, svo og ákvæða um gjaldtöku fyrir réttinn til þess að leita að, rannsaka og nýta þær auðlindir og ekki væru í frv. nægjanleg ákvæði um umhverfismat umfram það sem er í gildandi lögum.

Við 3. umr., herra forseti, úr því að því var hafnað að vísa tillögunni til ríkisstjórnarinnar þá reynum við að bæta nokkuð úr miðað við þau gagnrýnisatriði sem við settum fram við 2. umr. þessa máls. Við höfnum þessu máli fyrst og fremst af því að hér er um gífurlega eignatilfærslu að ræða í hendur fárra á kostnað almannahagsmuna eins og ég hef getið í máli mínu, herra forseti. En auðvitað er það kjarnaatriðið sem við erum að hafna, eins og ég sagði, þ.e. þessi eignatilfærsla og sá ótakmarkaði réttur sem landeigendur eiga að fá með þessu frv. ef að lögum verður, t.d. varðandi jarðhita og hversu djúpt í jörðu sem jarðhitinn er, varðandi olíu sem kann að finnast á landareign þeirra og fleira mætti nefna. Það er alveg ljóst að einkaréttarsjónarmiðin hafa allan forgang hjá þessari ríkisstjórn en ekki almannahagsmunir og það er það sem við mótmælum mjög harðlega.

Ég þarf út af fyrir sig, herra forseti, ekki að fara yfir brtt. Þeim voru gerð góð skil af hv. þm. Svavari Gestssyni. En það er mjög mikilvægt að benda á það sem mér fannst hæstv. ráðherra koma inn á áðan og mótmæla eða a.m.k. gera athugasemdir við varðandi tillögur okkar. Það er um takmarkanir á eignarréttinum. Við fórum ítarlega yfir það við 2. umr. að við teljum það ekki brjóta gegn stjórnarskránni og vísum líka til dóma í því sambandi að setja takmarkanir á eignarréttinn þegar verið er að gera það til þess að verja almannahagsmuni. Í frhnál. minni hlutans, herra forseti, þar sem vísað er til þess segir, með leyfi forseta: ,,Þrátt fyrir ákvæði stjórnarskrárinnar er unnt að takmarka eignarréttinn, enda séu fyrir því almenn og málefnaleg rök. Þetta kom skýrt fram á fundi iðnaðarnefndar þar sem mættir voru Sigurður Líndal prófessor og Allan Vagn Magnússon dómari. Þar með er að mati minni hlutans hafnað þeim sjónarmiðum sem iðnaðarráðherra hefur byggt málflutning sinn á, þ.e. að frumvörp stjórnarandstöðunnar séu andstæð stjórnarskrárákvæðunum um verndun einkaeignarréttarins. Slíkt er fjarri öllu lagi.``

Við 2. umr. málsins var ítarlega farið yfir þetta af ýmsum stjórnarandstæðingum að það stæðist að takmarka einkaeignarréttinn með þeim hætti sem við viljum gera. Við nefndum þar til og fór ég m.a. yfir skjal sem kom fram á sameiginlegum fundi allsherjar-, félags-, iðnaðar- og umhverfisnefndar sem Tryggvi Gunnarsson hæstaréttarlögmaður hefur get um hálendið og auðlindir í jörðu innan eignarlanda þar sem var m.a. vísað til frv. sem Bjarni Benediktsson flutti árið 1945, en þá var lagt til að leyfi ráðherra þurfi til jarðborana dýpra en 10 metra og tekið fram að þetta væri lagt til vegna þess að hætta gæti verið á því að jarðboranir spilltu hagnýtingu jarðhitans. Ekki síst vitnuðum við til frv. um rétt ríkisins til jarðhita neðan við 100 metra, en í þeirri nefnd sem lagði það til --- en þetta frv. var flutt á Alþingi 1956 --- var m.a. Ólafur Jóhannesson. Það var einmitt í þeirri nefnd og greinargerð hennar sem það var hrakið sem ráðherrann og stjórnarmeirihlutinn er að halda fram. Nægir þar að vitna til örfárra setninga, herra forseti, þar sem segir að ,,löggjafarvaldið gæti þrátt fyrir ákvæði stjórnarskrár um friðhelgi eignarréttar sett almenn takmörk fyrir því hversu djúpt niður í jörðu eða hátt upp í loft eignarráð landeigenda skuli ná, enda væri gengið óeðlilega nærri rétti landeigenda. Hér væri ekki hægt að segja að gengið væri nærri rétti landeigenda þar sem hann geti eftir sem áður haft öll venjuleg not fasteigna sinna bæði þau er hann þegar hefur og þau sem menn almennt reikna með.``

Samkvæmt frv. áttu landeigendur sem þegar höfðu sótt jarðhita dýpra en 100 metra og virkjað hann eða tekið í notkun að halda eignarráðum á þeim jarðhita.

Þessu til viðbótar má vitna í erindi sem Sigurður Líndal flutti 1983 og heitir Eignarréttur á landi og orkulindum. Þar segir hann, með leyfi forseta:

,,Ef rétt þætti að setja reglu um að landareign hverri í einkaeign fylgdi réttur til umráða og hagnýtingar á jarðhita eða undir yfirborði jarðar á allt að 100 metra dýpi er álitamál hvort hún samrýmdist 67. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignarréttar. Miðað við dómavenju má þó ætla að slíkt ákvæði stæðist.`` Ég tel þetta því alveg nægjanlegt til að vísa til þess að mér finnst ekki að orð ráðherrans standist í þessu efni eða það sem meiri hlutinn heldur fram um það mál. Ég tel ekki ástæðu til þess, herra forseti, svo ítarlega fór ég yfir það við 2. umr. þessa máls, að rekja þann þáttinn eitthvað frekar.

Ég vil þó aðeins koma inn á tvær brtt. sem minni hlutinn flytur en mikilvægustu brtt. minni hlutans felast í því að lagt er til að takmarka eignarrétt á auðlindum í jörðu við nýtingu sem þekkt er til þessa. Í raun er því farin sama leið og í frv. til laga um þjóðlendur og við viljum, herra forseti, svo ég fari aðeins inn á það atriði sem ég tel hvað veigamest í þessum brtt., geta tveggja þeirra. Það er við 3. gr. en samkvæmt tillögum okkar í minni hlutanum á greinin að orðast svo:

,,Eignarlandi fylgir eignarréttur á auðlindum í jörðu, enda séu auðlindirnar þekktar og vinnanlegar þegar lög þessi eru samþykkt. Í þjóðlendum eru auðlindir í jörðu eign íslenska ríkisins, nema aðrir geti sannað eignarrétt sinn til þeirra þegar lög þessi eru sett.``

Ég vil í þessu sambandi, herra forseti, vekja athygli á hvernig þingflokkur jafnaðarmanna tók á þessu atriði í frv. til laga um eignarhald á auðlindum í jörðu og gjald fyrir nýtingu þeirra sem er 425. mál þessa þings en þar segjum við í 3. gr. og er það reyndar fyllra ákvæði en hér er lagt til en engu að síður er markmiðið það sama, en þar segir:

,,Landareign hverri sem háð er einkaeignarrétti fylgir réttur yfir grjóti, möl, leir, sandi, vikri, gjalli og öðrum slíkum gos- og steinefnum, svo og mold, mó og surtarbrandi.

Hafi önnur jarðefni en getið er í 1. mgr. sannanlega verið hagnýtt innan landareignar sem er háð einkaeignarrétti áður en lög þessi tóku gildi fylgir réttur yfir þeim landareigninni áfram. Gildir þetta jafnt hvort sem þau efni eru á yfirborði jarðar eða í jörðu.

Önnur jarðefni sem kunna að finnast á yfirborði lands eða í jörðu, þar á meðal málmar, málmblendingar, kol önnur en surtarbrandur, jarðolía og jarðgas, eru eign ríkisins nema það viðurkenni að réttur yfir þeim fylgi landareign.``

Þetta vildi ég láta koma fram og draga fram það ákvæði sem er einmitt að finna um þennan þátt í frv. sem þingflokkur jafnaðarmanna flytur.

Hitt ákvæðið sem ég nefni sem er við 30. gr. og ég tel mjög mikilvægt er hvernig standa eigi að ákvörðun bóta til landeigenda ef nýta þarf að einhverju leyti landareign þeirra eða auðlind sem þar finnst í þágu almannahagsmuna. Þar er auðvitað um að ræða gerólíkt ákvæði sem við leggjum til í minni hlutanum á móti því ákvæði sem er að finna í stjfrv. ríkisstjórnarinnar og sem sýnir raunverulega fram á þann grundvallarágreining sem er milli ríkisstjórnarinnar og stjórnarandstöðunnar í þessu efni. Við leggjum til breytingu við 30. gr. þar sem við viljum að greinin orðist svo:

,,Við ákvörðun bóta skv. 28. gr. skal aðeins tekið tillit til tjóns vegna verðrýrnunar á landareign og spjalla á henni, afnotamissis af landgæðum eða hlunnindum og umferðar eða átroðnings á landareign. Valdi aðgerðir leyfishafa því að landeigandi geti ekki nýtt auðlindir sem fylgja landareign eða þær spillist á landeigandi einnig rétt til bóta vegna tjóns síns af því.``

Hér er því um það að ræða að fyrst og fremst, herra forseti, er við ákvörðun bóta tekið tillit til tjóns vegna verðrýrnunar á landareign og spjalla á henni og afnotamissis af landgæðum eða hlunnindum og umferðar eða átroðnings á landareign. En skv. 30. gr. í frv. ríkisstjórnarflokkanna á að fara með ákvörðun um bætur þannig að þegar ákvörðun um eignarnám ,,liggur fyrir skal landeigandi segja til um það innan 45 daga hvort hann óskar eftir að endurgjald fyrir auðlindirnar verði metið sem bætur sem greiðast í einu lagi eða sem árleg greiðsla meðan vinnsla auðlindar samkvæmt nýtingarleyfi stendur yfir. Meta skal sérstaklega bætur vegna annars en endurgjalds fyrir auðlindina.

Óski landeigandi eftir því að fá bætur greiddar sem árlega greiðslu skal sú greiðsla ákveðin með eignarnámsmati og vera ákveðinn hundraðshluti eða önnur fastákveðin eining miðað við verðmæti á tilteknu vinnslustigi. Heimilt er að tengja endurgjald að nokkru eða öllu leyti við afkomu viðkomandi vinnslu. ... Landeigandi getur krafist þess að sett sé trygging fyrir hinni árlegu greiðslu og skal úrskurða um þá kröfu í matinu og form tryggingar.

Framkvæmd eignarnáms á grundvelli þessara laga fer eftir almennum reglum. Við ákvörðun eignarnámsbóta skal taka sérstakt tillit til óvissu um auðlindina og kostnaðar af leit og vinnslu.``

[17:15]

Herra forseti. Hér er um algerlega opinn tékka að ræða á skattgreiðendur. Enginn veit hvað þetta kemur til með að kosta skattgreiðendur þegar þarf að fara að greiða landeigendum eignarnámsbætur ef almannahagsmunir krefjast þess að nýta þurfi auðlind sem finnst á landareign þeirra. Það væri því fróðlegt að vita hvað það ákvæði, sem ég nefndi í 30. gr., muni kosta skattgreiðendur að nokkrum árum eða áratugum liðnum ef það fær að standa sem slíkt. Mér finnst nauðsynlegt að draga fram hvernig við teljum rétt að standa að málum, þ.e. að takmarka ákvörðun bóta eins og ég lýsti áðan, þannig að aðeins sé tekið tillit til tjóns vegna verðrýrnunar á landareign og spjalla á henni, afnotamissis af landgæðum eða hlunnindum og umferðar eða átroðnings á landareign. Það sést alveg greinilega að hér er um verulegan mun að ræða. Við leggjum til sanngjarnar og eðlilegar bætur. En í 30. gr. virðist vera opinn tékki á ríkissjóð ef tillögu ríkisstjórnarinnar verður framfylgt.

Þessa tvo meginþætti vildi ég draga fram í brtt. okkar í minni hlutanum og tel út af fyrir sig ekki ástæðu til þess að fara yfir aðrar brtt. Þær tengjast mikið áherslum okkar sem við viljum að fram komi í þessu frv. varðandi umhverfismálin og umhverfisþáttinn. Þar höfum við mikið horft til þess sem fram hefur komið m.a. frá Náttúrufræðistofnun Íslands sem mikla þekkingu hefur á þessum umhverfismálum, og því sem fram hefur komið hjá ýmsum öðrum sem fjalla um umhverfismál eins og Náttúruvernd ríkisins. Ég fór ítarlega yfir þær umsagnir við 2. umr. þessa máls, herra forseti, og sé ekki ástæðu til að fara yfir þær frekar. Sjónarmið okkar koma fram í þessum brtt. og út af fyrir sig er ástæða til þess að fagna því að þau rök okkar hafa að einhverju leyti náð eyrum meiri hlutans vegna þess að þeirra má sjá stað í brtt. sem meiri hlutinn flytur við þessa lokaumræðu um málið.

Ég sé ekki ástæðu, herra forseti, til að lengja mál mitt. Ég tel að það hafi lítil áhrif á þessa ríkisstjórn þótt reynt sé að leiða henni fyrir sjónir skynsamlegri leiðir í þessu máli hvort sem það er gert innan þings eða utan. Hún er ákveðin í því að skella skollaeyrum við öllum skynsamlegum tillögum sem koma fram. Ég vil þó í lok míns máls lesa nokkuð sem mér finnst mjög athyglisvert og fram kom hjá Félagi landfræðinga í umsögn um þetta mál um eignarhald og nýtingu á auðlindum í jörðu. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Brýnt er að vanda vel til hvers konar lagasetningar um meðferð á auðlindum landsins, og á það jafnt við um eignarhald og nýtingu. Spurningar um eignarhald verða ekki leiddar til lykta nema með ítarlegri umræðu í samfélaginu, enda skoðanir skiptar. Félag landfræðinga telur orka tvímælis að skilgreina allar auðlindir í jörðu sem einkaeign með jafnfortakslausum hætti og gert er í 3. gr. frumvarpsins, þ.e. á landi sem ekki er skilgreint sem þjóðlendur. Þetta á einkum við um jarðhita djúpt í jörðu, sem og auðlindir sem ekki hafa fundist í neinu magni hérlendis og engin hefð er fyrir nýtingu á, hvað sem framtíðin kann að bera í skauti sér. Þar má nefna olíu og gas. Um þetta hefur of lítil umræða farið fram til að verjandi sé að fara þá leið sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu.``

Ég vil einnig, herra forseti, vitna til umsagnar Alþýðusambands Íslands um þetta mál. Það eru örfáar setningar og þar segir, með leyfi forseta:

,,Alþýðusambandið leggur áherslu á að einkaeignarrétti eða afnotarétti, hvort heldur er að landi eða landsnytjum eða náttúruauðlindum, verður að setja eðlileg mörk. Óeðlilegt er að slíkum rétti fylgi ótakmarkaðar heimildir til nýtingar eða afnota.

Þetta viðhorf hefur raunar ævinlega verið viðurkennt almennt viðmið í íslensku samfélagi. Þannig eru eignarráðum einstaklinga ýmis takmörk sett sem byggja að nokkru leyti á náttúruverndarsjónarmiðum, að nokkru á tilliti til almannahagsmuna og varða skipulega og skynsamlega nýtingu landgæða. Um takmörkun eignarráða á forsendum sem þessum hefur ekki verið deilt í grundvallaratriðum á liðnum áratugum. Í ljósi þessa telur ASÍ sæta furðu sú fyrirætlan sem fram kemur í frumvarpinu að áskilja landeigendum svo ríkan og ótakmarkaðan eignarrétt að auðlindum í jörðu sem raun ber vitni.``

Það er auðvitað meginatriðið og kjarnaatriðið sem við höfum verið að gagnrýna að landeigendum skuli áskilinn í þessu frv., sem nú á að gera að lögum, svo ríkur og ótakmarkaður eignarréttur á auðlindum í jörðu sem raun ber vitni. Það er alveg ljóst, herra forseti, að með frv. er fyrst og fremst gætt sérhagsmuna sem eru ær og kýr þessarar ríkisstjórnar, en ekki almannahagsmuna.

Það skulu verða mín lokaorð að þetta verður eitt þeirra mála sem stjórnarandstaðan, komist hún í meiri hluta eftir næstu kosningar að ári liðnu, mun taka sérstaklega fyrir og beita sér fyrir breytingum á.