Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Þriðjudaginn 26. maí 1998, kl. 17:21:44 (6954)

1998-05-26 17:21:44# 122. lþ. 133.7 fundur 359. mál: #A rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu# frv. 57/1998, GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 122. lþ.

[17:21]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Það er svo sannarlega ástæða til að hafa hér langa tölu miðað við mikilvægi þessa máls og þá andstöðu sem ég og við kvennalistakonur viljum sýna því. Við erum algerlega andvígar lögfestingu þess eins og það liggur hér fyrir.

Þetta er eitt af þessum umdeildu hálendisfrv. sem ríkisstjórnin hefur komið með inn í þingið og því miður er búið að semja um að það eigi að verða að lögum einhvern næstu daga og því er ekki til mikils að standa hér eins og hrópandinn í eyðimörkinni því að ljóst er að ekki er ætlunin að breyta því þrátt fyrir mjög mikilvægar upplýsingar sem fram komu á milli 2. og 3. umr. í hv. iðnn. sem hv. þm. Svavar Gestsson og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir gerðu grein fyrir áðan í máli sínu. Tilgangur minn hér er því fyrst og fremst að mótmæla enn einu sinni þessu frv. og taka undir fyrri málflutning minn og málflutning áðurnefndra þingmanna.

Þó verð ég að segja, herra forseti, að það gladdi mig mjög að heyra undirtektir hæstv. iðnrh. við þær brtt. sem hér hafa verið lagðar fram af minni hluta iðnn. og ég styð að sjálfsögðu. Ég tel að yfirlýsing hans sé mikilvæg í ljósi framtíðar.

Eins og fram kom áðan hjá hv. þm. Svavari Gestssyni þá fundaði iðnn. á milli 2. og 3. umr. m.a. vegna þess að við 2. umr. kom ýmislegt fram sem sýndi að skýra þurfti betur ýmis lögfræðileg atriði málsins, m.a. vegna hæstaréttardóms sem féll árið 1996. Á fundi iðnn. mættu eins og hér hefur komið fram Allan V. Magnússon héraðsdómari og prófessor Sigurður Líndal sem skýrðu að mínu mati ágætlega þau deilumál sem til umræðu voru. Í fyrsta lagi var útskýrt hvers vegna Hæstiréttur breytti dómi árið 1996. Þar var sá sem dæmdur hafði verið í undirrétti sýknaður í Hæstarétti. Hann var látinn njóta vafans. Hér var um refsimál að ræða. Upp kom ágreiningur um skilgreiningu á netlögum, þ.e. hvort rétt væri að miða við 60 faðma frá stórstraumsfjöru eða 115 metra eins og er miðað við í þessu frv. og kom í ljós að munur er á þessum skilgreiningum um einn til þrjá metra og þar sem um refsimál var að ræða þá var viðkomandi látinn njóta vafans. En það er ekki víst að það hefði orðið niðurstaðan ef um eignarréttarmál hefði verið að ræða.

Í öðru lagi, sem er meginmál fyrir umræðuna og þetta frv., kom það skýrt fram hjá prófessor Sigurði Líndal og þeim báðum að ekki bryti í bága við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar að miða við t.d. ákveðna dýpt ef það væri vilji löggjafans. Bent var á að þannig væri þetta t.d. í Noregi og á Nýja-Sjálandi. Þar eru verulegar takmarkanir settar á heimildir eignaraðila til þess að nýta auðlindir í jörðu.

Reyndar kom fram hjá prófessor Sigurði Líndal að oft væri miðað við ,,allt frá hel til himins``, svo notuð séu hans orð, ,,en löggjafanum væri fullkomlega heimilt að takmarka það``, eins og lagt er til í tillögum minni hluta iðnn.

Ég benti á það, herra forseti, við 2. umr. að alls staðar í þessu frv. eru landeigendur látnir njóta vafans, t.d. er réttlætt í frv. að landeigendur eigi að eiga land allt niður að jarðarmiðju með því að tæknilega sé það mun auðveldara nú en áður fyrir einstaklinga að ráðast í þann kostnað sem það hefður í för með sér að nýta auðlindir djúpt í jörðu. Það er réttlætingin fyrir því að eigendum er núna færðar þessar auðlindir á silfurfati. Ég vil því ítreka þau sjónarmið sem komu fram í iðnn. Í fyrsta lagi að jafnvel þó þetta frv. verði lögfest nú þá verði hægt að breyta lögunum aftur til þess horfs sem fram kemur í brtt. minni hlutans, þ.e. að eignarrétturinn verði takmarkaður við að auðlindir séu þekktar og vinnanlegar þegar lögin eru samþykkt. Ég vil fagna þeim undirtektum sem hæstv. iðnrh. í raun sýndi þessari framsetningu. Það er rétt að hér er ekki miðað við ákveðna dýpt. Hér er miðað við annað orðalag og þetta er orðalag sem er nær því sem er hugsunin í þjóðlendufrv. og í frv. sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hefur lagt fram ásamt þingflokki jafnaðarmanna og þingflokki okkar kvennalistakvenna.

Í öðru lagi brýtur ofannefnd leið ekki í bága við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og hægt er að breyta þessu bótalaust. Þetta sjónarmið kom mjög skýrt fram hjá þeim Sigurði Líndal og Allani V. Magnússyni, einkum hjá hinum fyrrnefnda.

Ég vil ítreka hér stuðning minn við brtt. minni hluta iðnn. en þar hef ég áheyrnaraðild eins og fram kemur í frhnál. minni hlutans sem ég styð.

[17:30]

Þá vil ég láta í ljós ánægju mína með þær brtt. meiri hlutans sem styrkja stöðu umhvrn. og eftirlit út frá sjónarmiðum umhverfis- og náttúruverndar. Ég tel að þarna hafi meiri hlutinn komið að nokkru til móts við þá gífurlegu gagnrýni sem kom fram á þetta frv. frá sjónarmiði náttúruverndar og umhverfisverndar og er það vel. Ég styð mikið af þeim brtt. Hins vegar tel ég að þær gangi ekki nægjanlega langt og að brtt. minni hlutans séu verulega til bóta.

Herra forseti. Umræðan um þetta mál minnir um margt á umræðuna um auðlindir sjávar. Það er notað sem svipa á þá sem vilja breyta kerfinu að erfitt sé að gera það bótalaust vegna eignarréttarákvæða stjórnarskrárinnar. Sú umræða kom upp þegar frv. hv. þm. Sighvats Björgvinssonar, sem ég nefndi áðan, var til umræðu, þ.e. þingmenn sáu því allt til foráttu. Ekki var hægt að gera þetta svona vegna þess að það stríddi gegn eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Nú tel ég alveg ljóst að það frv. er fyllilega í samræmi við íslensku stjórnarskrána og reyndar var ég viss um það sjálf þar sem ég er meðflutningsmaður að því frv. en nú hafa þær efasemdir sem ég heyrði við umræðu um það mál fyllilega horfið úr huga mínum. Ég vil taka undir þá skoðun hv. þm. Svavars Gestssonar að fyrir næstu kosningar erum við kvennalistakonur sem og aðrir í stjórnarandstöðunni tilbúnar til að beita okkur fyrir því að þessum ákvæðum verði breytt eins og að framan greinir, þ.e. með almannahag í huga gegn sérhagsmunum.

Ekki er alveg ljóst, herra forseti, að mínu mati hve mikil verðmæti eru í húfi en það litla dæmi sem tekið var áðan af hv. þm. Svavari Gestssyni vegna einnar borholu segir nokkuð um þá stærðargráðu sem um ræðir. Hér er við völd ríkisstjórn sérhagsmuna og landeigenda, stjórn sem í þessu máli sem og fleirum vinnur gegn almannahagsmunum. Þetta frv. eins og hin hálendisfrumvörpin hefur yfirbragð þess að nú sé verið að vinna að sameign þjóðarinnar en í raun er verið að hygla sérhagsmunum. Þó að þjóðlendufrv. geri ráð fyrir að ríkið eigi þjóðlendurnar er valdið til skipulagningar og stjórnsýslu fært til sveitarfélaga með frv. til sveitarstjórnarlaga. Þó að þjóðlendufrv. geri ráð fyrir að ríkið eigi þjóðlendurnar er eingöngu gert ráð fyrir því að ríkið eigi auðlindirnar þar í jörðu ef aðrir geta ekki sannað að þeir eigi þær auðlindir.

Í þriðja lagi birtast sérhagsmunasjónarmiðin í því að á eignarlandi á landeigandi að eiga auðinn í jörðu allt niður að jarðarmiðju og mér skilst að þeir geti allt að því krafist lofthelgi allt upp í 33 km samkvæmt strangasta skilningi á þessum eignarrétti þó að það sé t.d. ekki í Noregi og víðar þar sem eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar eru mjög sambærileg við það sem tíðkast hér. Hér er því í raun einn allsherjarblekkingarvefur í gangi eins og gerist með fiskimiðin. Fyrst er sagt: Íslenska ríkið á auðlindirnar en síðar koma önnur ákvæði sem heimila öðrum að nýta þær, þ.e. í þessu tilviki sveitarstjórnum eða landeigendum. Þetta er skýr pólitísk stefna hjá núverandi ríkisstjórn sérhagsmunanna, stefna sem ég er mótfallin og við kvennalistakonur þar sem ég vil styrkja almannahagsmuni og líta á hálendið hvort sem er hin ósnortnu víðerni þar eða auðlindirnar í jörðu sem sameign þjóðarinnar og það eiga að vera þjóðarhagsmunir sem ráða bæði vernd þeirra og nýtingu í þágu almannaheilla.

Að lokum, herra forseti, ítreka ég að ég fagna þeim undirtektum sem hæstv. iðnrh. sýndi áðan við þá leið sem hér er lögð til við að takmarka eignarréttinn til einkaaðila. Ég er viss um að minnt verður á þau orð hans fyrir næstu kosningar þegar þeir flokkar sem eru nú í stjórnarandstöðu munu svo sannarlega taka þessi mál upp aftur og breyta þeim til þess horfs að þessar auðlindir verði í raun almannaeign.