Ummæli viðskiptaráðherra á blaðamannafundi

Miðvikudaginn 27. maí 1998, kl. 10:44:25 (6962)

1998-05-27 10:44:25# 122. lþ. 134.93 fundur 412#B ummæli viðskiptaráðherra á blaðamannafundi# (aths. um störf þingsins), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 122. lþ.

[10:44]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Þegar hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir spurði um málefni Lindar vorið 1996, þá spurði hún ekki einungis um þá fjármuni sem ráðherrann forðast að ræða um og fer undan með í flæmingi. Nei, hún spurði einnig, með leyfi forseta:

,,Telur hæstv. ráðherra ástæðu til þess að láta utanaðkomandi aðila skoða eða kanna hina ýmsu þætti þessa \mbox{máls ...?``}

Hún spurði líka þessarar spurningar. Við henni kom ekkert svar á þeim tíma en þar hefði verið kjörið tækifæri fyrir hæstv. ráðherra að segja þingheimi að einmitt það væri verið að gera. Hann hefði getað tilkynnt að einmitt þá lægi fyrir skýrsla Ríkisendurskoðunar þar sem segði m.a., herra forseti:

,,Í ljósi þeirra hagsmuna sem glatast hafa og hvernig haldið var á málum sýnist tilefni til að kanna ýmsa þætti nánar og hvort rétt er að draga menn til ábyrgðar með einhverjum hætti. Ríkisendurskoðun telur því brýnt að bankaráð Landsbankans láti rannsaka nánar þá þætti sem minnst hefur verið á hér að framan.``

Þetta liggur fyrir, herra forseti, og samt gerir hæstv. ráðherra sér leik að því að varpa ábyrgð á Alþingi. Hann varpar ábyrgðinni á Alþingi þegar hann sjálfur var sá eini sem vissi að þessar upplýsingar lágu fyrir. Hann svaraði ekki fyrirspurn hv. þm. en kemur fram núna og varpar ábyrgð á Alþingi.

Herra forseti. Það er auðvitað fullkomlega óþolandi fyrir Alþingi að þurfa að sitja undir þessu og það er rétt sem hér hefur komið fram. Þetta hlýtur að þýða fullkominn trúnaðarbrest á milli löggjafarsamkomunnar og hæstv. ráðherra.