Ummæli viðskiptaráðherra á blaðamannafundi

Miðvikudaginn 27. maí 1998, kl. 10:51:13 (6965)

1998-05-27 10:51:13# 122. lþ. 134.93 fundur 412#B ummæli viðskiptaráðherra á blaðamannafundi# (aths. um störf þingsins), viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 122. lþ.

[10:51]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég vil ekki skjóta mér undan því að ræða um hver ábyrgð hvers og eins sé í þessum efnum og ég held að ekki sé ágreiningur um það milli mín og stjórnarandstöðunnar að bankaráðið sem sat árið 1996 var bankaráð sem kjörið var af Alþingi og þar af leiðandi starfi það bankaráð á ábyrgð Alþingis. Þessi viðhorf mín eru rækilega undirstrikuð í þeirri greinargerð sem kemur frá bankaeftirliti Seðlabankans dags. 25. maí sl. eða sl. mánudag og ég fékk gerða í ljósi þeirrar umræðu sem hefur verið um ábyrgð annars vegar bankaráðsins og hins vegar viðskrh.

Þegar þetta er haft í huga og sú greinargerð skoðuð er ljóst hvar ábyrgðin liggur. Um leið og ábyrgðin er skýr, þ.e. bankaráðið sem þá starfaði á vegum ríkisviðskiptabankans heyrði undir Alþingi, þá var það líka alveg klárt að upplýsingaskylda bankaráðsins er sú sama gagnvart Alþingi.

Ég held að þá væri rétt að skoða hvernig bankaráðið var skipað á þessum tíma þegar þessi deila öllsömul stendur. Stjórnarandstaðan á meiri hluta í bankaráðinu á þessum tíma. Stjórnarandstaðan á Alþingi á meiri hlutann í bankaráði Landsbanka Íslands á þessum tíma. Ef þær fullyrðingar standast sem haldið er fram af hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að menn hafi ætlað að reyna að leyna einhverjum hlutum fyrir stjórnarandstöðunni, (SJS: Ráðherrann?) af hverju ráðherrann? --- stjórnarandstaðan átti meiri hlutann í bankaráðinu, bankaráðið var með þessa upplýsingaskýrslu Ríkisendurskoðunar í höndum og í bréfi mínu 14. júní vísa ég þessu máli til ákvörðunar og ábyrgðar bankaráðs Landsbankans. (Forseti hringir.) Í bankaráðinu sitja þá þrír fulltrúar stjórnarandstöðunnar, Anna Margrét Guðmundsdóttir alþýðuflokksmanneskja, Hafsteinn Friðjónsson, kjörinn sem fulltrúi Alþfl. og Jóhann Ársælsson kjörinn sem fulltrúi Alþb. Þrír fulltrúar, meiri hlutinn í bankaráði Landsbankans á þessum tíma, var á ábyrgð stjórnarandstöðunnar. (Gripið fram í.)