Fyrirkomulag umræðu um störf þingsins

Miðvikudaginn 27. maí 1998, kl. 10:55:06 (6967)

1998-05-27 10:55:06# 122. lþ. 134.94 fundur 413#B fyrirkomulag umræðu um störf þingsins# (um fundarstjórn), SighB
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 122. lþ.

[10:55]

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Eins og við vitum allir er vaninn á Alþingi að frummælandinn í máli eins og þessu taki aftur til máls undir lok umræðunnar. Ég sá það ásamt fleiri þingmönnum að frummælandinn í þessu máli, hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, bað um orðið og bað um orðið á undan ráðherranum og átti að sjálfsögðu von á því að fá að ljúka umræðunni með hefðbundnum hætti þannig að sá sem vakti umræðuna fengi að komast að undir lokin.

Ég ítreka þá ósk, virðulegi forseti, og þá er ég að tala um fundarstjórn forseta, að hann taki tillit til þess að frummælandinn hafði beðið um orðið áður en ráðherrann kvaddi sér hljóðs.