Stofnun hlutafélags um síldarútvegsnefnd

Miðvikudaginn 27. maí 1998, kl. 11:14:13 (6972)

1998-05-27 11:14:13# 122. lþ. 134.2 fundur 558. mál: #A stofnun hlutafélags um síldarútvegsnefnd# frv. 43/1998, Frsm. SJS
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 122. lþ.

[11:14]

Frsm. sjútvn. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti sjútvn. í máli 558, þ.e. frv. til laga um stofnun hlutafélags um síldarútvegsnefnd og stofnun sjóða í þágu síldarútvegsins. Nefndarálitið er á þskj. 1277.

Nefndin fjallaði um mál og fékk á sinn fund Árna Kolbeinsson og Kristínu Haraldsdóttur frá sjútvrn. og Gunnar Jóakimsson frá síldarútvegsnefnd. Umsagnir bárust nefndinni frá Félagi síldarsaltenda á Norður- og Austurlandi, Félagi síldarsaltenda á Suður- og Vesturlandi, Íslenskum sjávarafurðum hf., Landssambandi íslenskra útvegsmanna og Samtökum fiskvinnslustöðva.

Með frumvarpinu er lagt til að stofnað verði hlutafélag, Íslandssíld hf., sem taki við öllum eignum, skuldum og skuldbindingum síldarútvegsnefndar auk þess sem stofnaðir verði tveir sjóðir, annar með síldarrannsóknir að markmiði og hinn í þeim tilgangi að efla vöruþróun síldarafurða og afla markaða fyrir síldarafurðir.

[11:15]

Sjútvn. leggur til tvær breytingar á frv. Í fyrra lagi er það mat nefndarinnar að ákvæði um gildistöku og brottfall laga eigi að vera skýr og það eigi að vera í öllum tilvikum í höndum Alþingis að ákveða hvenær og hvort lög falli úr gildi. Þetta vísar til 11. gr. frv. en þar er þannig gengið frá málum að lögin eigi að öðlast þegar gildi en frá og með stofnun Íslandssíldar hf. skuli síldarútvegsnefnd lögð niður og þá falli úr gildi lög nr. 62/1962, um síldarútvegsnefnd. Gildistakan er sem sagt seld í hendur þeirra sem mundu standa að eða standa fyrir stofnun Íslandssíldar hf. og gæti því orðið eftir atvikum innan eins, tveggja mánaða eða þess vegna eftir eitt ár eða svo lengi sem það drægist að stofna fyrirtækið. Þetta finnst okkur ekki góður frágangur, herra forseti, á málinu og við leggjum því til að tekið verði af skarið og ákveðið að lög nr. 62/1962, um síldarútvegsnefnd og útflutning saltsíldar, falli úr gildi 1. júlí 1998. Það gefur þann tíma frá og með gildistöku laganna, sem vonandi verður á næstu sólarhringum og fram að 1. júlí, til að ljúka því verkefni sem þarna þarf að vinna, setur mönnum þá ákveðnar skorður og ákveðinn tímaramma í þeim efnum.

Í öðru lagi leggur nefndin til að eignarhlutur Íslandssíldar hf. í sjálfri sér, sem kveðið er á um í 5. gr. frv., verði lækkaður úr 15% hlutafjár í 10% hlutafjár og þau 5% sem þarna verða færð til verði eign lífeyrissjóða sjómanna í hlutfalli við fjölda sjómanna í hverjum sjóði við gildistöku laganna. Um þetta atriði komu fram eindregnar kröfur af hálfu forustumanna sjómannasamtakanna og eftir allmiklar umræður og skoðun í nefndinni var ákveðið að koma nokkuð til móts við þau sjónarmið með þessu móti. Í þessu sambandi er verið að vísa til margra fordæma frá umliðnum árum að þegar skipt hefur verið upp verðmætum sem til hafa orðið með einum eða öðrum hætti í skjóli opinbers valds, ef svo má að orði komast, vegna lögbundinnar innheimtu á tekjum til verðjöfnunar í sjávarútvegi eða með öðrum slíkum hætti og þegar síðan hefur komið til uppskipta á slíkum verðmætum hefur Lífeyrissjóður sjómanna gjarnan verið látinn njóta góðs af í einhverjum mæli á móti öðrum aðilum. Það er ekki endilega um það að ræða að reiknanlegur sé með beinum hætti sá hlutur sem sjómenn gætu talist hafa lagt af mörkum í þessu sambandi. Ég vil taka það skýrt fram að það er í raun og veru ekki á slíkum grundvelli fyrst og fremst eða eingöngu sem við leggjum þetta til, heldur einnig vegna þess að mörg fordæmi eru fyrir því á umliðnum árum að hið opinbera hafi styrkt Lífeyrissjóð sjómanna enda var það svo að sérstök lög um þann sjóð og sérstakar reglur um lífeyrisréttindi sjómanna lögðu kvaðir á þann sjóð sem ljóst var að hann átti erfitt með að standa undir og hefur í raun og veru ekki getað gert og hefur neyðst til að skerða réttindi. Um það var talað á sínum tíma að ríkissjóður mundi leggja af mörkum til að standa undir lífeyrisréttindum sjómanna, og það er einnig með vísan til þess og með hliðsjón af þeim fordæmum sem áður eru orðin sem við leggjum þetta til. Það má því allt eins líta á þetta sem ákvörðun ríkisins sem að sjálfsögðu hefur með því að veita einkarétt á þessari starfsemi átt aðild að eða stuðlað að því að þau verðmæti yrðu til í skjóli opinbers valds eða einkaréttar frá hinu opinbera sem þarna er að koma til skipta. Það er einnig okkar skoðun að Lífeyrissjóður sjómanna eigi að geta orðið góður samstarfsaðili þeirra sem þarna koma til með að standa að rekstri hins nýja fyrirtækis, þó að sjálfsögðu verði það í höndum eigenda að ráðstafa sínum eignarhlut án nokkurra skilyrða.

Þessar tvær breytingar, herra forseti, leggjum við til og flytjum um það tillögur á sérstöku þingskjali sem eru á þá leið að 1. mgr. 5. gr. orðist svo:

,,Þeir síldarsaltendur sem greitt hafa lögmælta söluþóknun af útfluttri síld skv. 2. gr. laga nr. 62/1962 á tímabilinu 1. janúar 1975 til 31. desember 1997 eru eigendur 85% hlutafjár félagsins við stofnun þess, [þetta er óbreytt] Íslandssíld hf. skal eiga 10% hlutafjár félagsins og lífeyrissjóðir sjómanna, í hlutfalli við fjölda sjómanna í hverjum sjóði við gildistöku laganna, skulu eiga 5% hlutafjár félagsins.``

Og í öðru lagi, að 2. málsl. 11. gr. orðist svo:

,,Lög nr. 62/1962, um síldarútvegsnefnd og útflutning saltaðrar síldar, falla úr gildi 1. júlí 1998.``

Með þessum breytingum, herra forseti, leggjum við til að frv. verði afgreitt.