Stjórn fiskveiða og Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Miðvikudaginn 27. maí 1998, kl. 11:22:26 (6973)

1998-05-27 11:22:26# 122. lþ. 134.3 fundur 639. mál: #A stjórn fiskveiða og Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (krókaveiðar) frv. 49/1998, Frsm. SJS
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 122. lþ.

[11:22]

Frsm. sjútvn. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. frá sjútvn. í 639. máli. Nefndarálitið er á þskj. 1280. Þetta er nál. við frv. til laga um breytingu á lögum nr. 38 frá 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, og lög nr. 92 frá 24. maí 1994, um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, með síðari breytingum.

Hér er sem sagt á ferðinni bandormur, herra forseti, en eitt nál., sem eðlilegt er þótt um tvö lagafrv. sé að ræða.

Nefndin fjallaði um þetta frv. og fékk á sinn fund Ara Edwald, aðstoðarmann sjútvrh., sem farið hefur sérstaklega með þessi mál er varða málefni smábáta og hér eiga í hlut.

Frumvarpinu er ætlað að sníða ákveðinn agnúa af lagaákvæðum um veiðar smábáta eins og nánar er rakið í grg. með frv. og varðar möguleika til tilfærslu milli flokka sem ekki var ætlunin að væri möguleg en ástæða sýnist til að taka betur af skarið um með tiltekinni breytingu. Einnig felst í frv., þ.e. þeim hluta þess sem lýtur að breytingu á lögum um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, að framlengja heimild Þróunarsjóðs til úreldingar á sóknardagabátum um hálft ár eða til 1. nóvember næstkomandi í stað þess að sú heimild rann í raun og veru út 1. apríl sl.

Það er rétt að fram komi, herra forseti, að undir nál. skrifa þrír nefndarmenn með fyrirvara, fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna í sjútvn., Steingrímur J. Sigfússon, Svanfríður Jónasdóttir og Lúðvík Bergvinsson. Þau taka undir það markmið frv. að sníða agnúa af lagaákvæðum um veiðar smábáta en vísa að öðru leyti í afstöðu sína til þessara mála í heild og til nefndarálita minni hluta sjútvn. vegna þeirra breytinga sem gerðar hafa verið á fiskveiðistjórnun krókabáta á þessu kjörtímabili og fyrir liggur að stjórnarandstaðan hefur ekki stutt. En sjútvn. er sammála um að leggja til að þetta frv. verði samþykkt með svofelldri breytingu og þar er eingöngu um tilvísunarlagfæringu að ræða, að í stað orðanna ,,5. málsl. 5. mgr.`` í 2. gr. í a-lið komi: 6. málsl. 5. mgr. Því miður er það orðið svo, herra forseti, að hin margfræga 2. gr. þessa frv., sem lýtur að breytingum á 6. gr. laganna um stjórn fiskveiða, er orðin svo löng og í henni svo margar málsgreinar að mönnum verður fótaskortur af og til við að telja út úr þeim öllum og hér hafa greinilega orðið þau mistök að menn hafa ætlað að vísa í 6. málsl. en óvart lent í 5. málsl. Það er alveg hárrétt sem hér kemur fram úti í salnum að mikil þörf er á því að endurskoða uppsetningu þeirra laga og skipta lagagreinum upp og koma í veg fyrir að þær verði óhóflega langar en sú tíska ríður nú mjög húsum að heilu lagafrv. upp á margar blaðsíður eru gjarnan sett upp í einni lagagrein og er nú ekki allt komið enn í þeim efnum, því síðar hér á fundinum er á dagskrá mál sem einmitt --- nei, það er reyndar ekki rétt, herra forseti, sennilega er búið að afgreiða það mál, en sjútvn. fékk til meðferðar í vetur frv. sem var nánast aðeins ein lagagrein á mörgum blaðsíðum og lagfærði það að sjálfsögðu. Þeirri góðfúslegu ábendingu er því hér með komið á framfæri að ástæða gæti verið til að endurskoða uppbyggingu þessara laga og framsetningu og síðan væri auðvitað full þörf á að endurútgefa þau eins og málum er háttað og mætti þá m.a. hreinsa út nokkurn veginn óteljandi bráðabirgðaákvæði sem lengi hafa fylgt í þeim pakka.

Með þessari breytingu, herra forseti, leggur sjútvn. til að frv. þetta um breytingar á tvennum lögum um málefni sjávarútvegsins verði afgreitt.