Umgengni um nytjastofna sjávar

Miðvikudaginn 27. maí 1998, kl. 11:28:03 (6974)

1998-05-27 11:28:03# 122. lþ. 134.4 fundur 27. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# þál., Frsm. SJS
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 122. lþ.

[11:28]

Frsm. sjútvn. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. um till. til þál. um endurskoðun á ákvæðum laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar. Þetta er 27. mál þessa þings og á þskj. 27.

Flutningsmenn tillögunnar eru hv. þm. Pétur H. Blöndal og Árni R. Árnason.

Nefndin hefur fjallað um málið og umsagnir hafa borist frá Fiskistofu, Hafrannsóknastofnuninni, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Samtökum fiskvinnslustöðva, Sjómannasambandi Íslands og Vélstjórafélagi Íslands.

Með þingsályktunartillögunni er lagt til að skipuð verði nefnd til að endurskoða ákvæði laga nr. 57/1996. Sérstaklega verði skoðað ákvæði 3. gr. með það í huga hvort ekki sé rétt að skipstjóri geti ákveðið við löndun hve mikinn hluta afla skips skuli telja til kvóta þess og að allur annar afli skipsins teljist eign rannsóknarstofnana sjávarútvegsins.

Nefndin tekur undir það markmið tillögunnar að leitað sé allra leiða til að freista þess að draga úr brottkasti afla og auka þar með nýtingu á verðmætum auðlindarinnar. Að öðru leyti vísar nefndin til greinargerðar sem fylgdi tillögunni.

Nú er það svo, herra forseti, að lög nr. 57/1996 eru næsta ný af nálinni eins og ártalið bendir til og það var lögð mikil vinna í það á sínum tíma að setja þessa löggjöf. Deildar meiningar voru að vísu uppi um það hversu miklar úrbætur hún mundi fela í sér hvað varðar umgengni um auðlindina og þá ekki síst þetta tiltekna atriði, hvort hún sem slík gæti orðið einhver liður í að draga úr hættunni á brottkasti afla, en óþarft er að rekja fyrir hv. þm. þá miklu umræðu sem uppi er um það af og til að allt of algengt sé að afla sé hent og hann berist ekki að landi. Ljóst er með vísan til þess að þessi löggjöf er jafnný af nálinni og raun ber vitni og einnig hins að upplýst var í nefndinni að allmikið starf væri í gangi á vegum ráðuneytis og ýmissa stofnana, svo sem Fiskistofu og Hafrannsóknarstofnunarinnar og fleiri aðila, sem lýtur að þessu máli eða tengist því, þá væri rétt að leggja til að þáltill. væri vísað til ríkisstjórnarinnar en það er gert undir þeim formerkjum að sjútvn. tekur undir markmið tillögunnar og er þess auðvitað mjög fýsandi að allt sé gert sem hægt er til að draga úr hættunni á brottkasti afla. En tillaga nefndarinnar er sem sagt sú, herra forseti, að þáltill. verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Undir þetta rita allir nefndarmenn í sjútvn. að Lúðvíki Bergvinssyni frátöldum sem var fjarverandi við afgreiðslu málsins.