Áhrif veiðarfæra á vistkerfi hafsbotnsins

Miðvikudaginn 27. maí 1998, kl. 11:32:13 (6975)

1998-05-27 11:32:13# 122. lþ. 134.5 fundur 269. mál: #A áhrif veiðarfæra á vistkerfi hafsbotnsins# þál. 11/122, Frsm. SJS
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 122. lþ.

[11:32]

Frsm. sjútvn. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Þá er það nefndarálit um tillögu til þingsályktunar um rannsóknir á áhrifum veiðarfæra á vistkerfi hafsbotnsins, nefndarálit frá sjútvn. í máli 269 á þskj. 1219. Sjútvn. hefur fjallað um þetta mál og tekur undir efni þess, telur nauðsynlegt að gera átak í rannsóknum á áhrifum veiða og veiðarfæra á vistkerfi hafsbotnsins á Íslandsmiðum. Sérstaklega hafa verið til umræðu áhrif þeirra veiðarfæra sem dregin eru eftir botni hafsins, dragnótar og botnvörpu o.fl., t.d. mætti nefna plóga og annað slíkt. Telja verður líklegt að dragnót og botnvarpa hafi töluverð áhrif á hafsbotninn og lífríkið þar. Til að afmarka frekar rannsóknina er lögð til breyting á orðalagi tillögugreinarinnar og jafnframt ákvað sjútvn. að sameina þessa tillögu þeirri tillögu til þingsályktunar sem lögð er til á þskj. 383 í 308. máli. Nefndin mun ekki skila sérstöku áliti um þá tillögu en lítur svo á að tekið sé undir efni hennar með samþykkt þessarar tillögu. Nefndin mælir með samþykkt tillögunnar með svofelldri breytingu:

,,Tillögugreinin orðist svo:

Alþingi ályktar að beina því til ríkisstjórnarinnar að gera átak í rannsóknum á áhrifum veiða og mismunandi veiðarfæra á vistkerfi hafsbotnsins á Íslandsmiðum. Sérstaklega verði kannað hver áhrif veiðanna eru á botnfiskstofna, viðkomu þeirra og afrakstursgetu, sem og áhrif veiða með dragnót, botnvörpu og öðrum dregnum veiðarfærum á botnlagið.

Til verkefnisins verði veitt sérstök fjárveiting næstu þrjú ár í samræmi við kostnaðaráætlun Hafrannsóknastofnunarinnar.``

Það er eindregin afstaða sjútvn. að ekki sé svigrúm fyrir hendi innan núgildandi fjárlaga eða fjárveitingaramma Hafrannsóknastofnunar til að bæta þessu verkefni við og því verði að koma til viðbótarfjármagn. Sjútvn. hefur þvert á móti mörg undanfarin ár lagt til nokkra aukningu á fjárveitingum til Hafrannsóknastofnunar til sérstakra og skilgreindra verkefna. Þar má t.d. nefna fjölstofnarannsóknir, haustrall, netarall og rannsóknir á djúpslóðinni suður og suðvestur af landinu. Nú hillir undir að Hafrannsóknastofnun fái nýtt rannsóknaskip og geti færst aukið í fang í sambandi við rannsóknir, ekki síst á djúpmiðum með stærra og öflugra skipi. Það mun væntanlega kalla á aukningu í fjárveitingum ef eitthvað er, þannig að ljóst má vera að eigi jafnframt að verða mögulegt að bæta við brýnum verkefnum af því tagi sem þessi tillaga felur í sér, þá þurfa að koma til auknar fjárveitingar.

Um þetta mál, herra forseti, hafa verið og eru miklar umræður meðal starfandi sjómanna og ýmsar kenningar á lofti, allt frá því að því sé haldið fram að upprót á botninum með hreyfanlegum veiðarfærum sé af hinu góða, róti upp næringarefnum og plægi jafnvel akurinn þannig að hann sé frjórri eftir, yfir í hitt að menn segja tröllasögur af því að verið sé að slétta út allar ójöfnur á hafsbotninum og hann verði smátt og smátt eins og hefluð fjöl eftir að öflug skip hafa dregið veiðarfæri sín þar yfir, fram og til baka og þannig versni lífsskilyrðin stórlega. Í því sambandi er sérstaklega ástæða til að athuga uppvaxtarskilyrði ungviðis, að svo miklu leyti sem það er botnlægt, og almenn áhrif þeirrar röskunar, sem þarna er óneitanlega á ferðinni, á vistkerfi hafsbotnsins og lífríki við hafsbotninn á miðunum.

Þær tillögur, herra forseti, sem hér er verið að sameina í eina og leggja til afgreiðslu á eru í fyrsta lagi fluttar af hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni, tillaga til þingsályktunar um rannsókn á áhrifum veiðarfæra á vistkerfi hafsbotnsins. Sjútvn. hefur valið að ljúka málinu með afgreiðslu þeirrar tillögu en jafnframt felur breytingin í sér að tekið er undir efni tillögu til þingsályktunar, um rannsókn á áhrifum dragnótaveiða, sem var afmarkaðri tillaga, flutt af hv. þm. Gísla S. Einarssyni, Magnúsi Stefánssyni og Guðjóni Guðmundssyni.

Með þeirri tillögu sem sjútvn. leggur til að verði samþykkt og ég hef gert grein fyrir lítur sjútvn. svo á að báðar tillögurnar hljóti jákvæða afgreiðslu. Undir þetta nefndarálit rita allir þingmenn í sjútvn. Þetta var gjört á Alþingi 21. apríl 1998, herra forseti.