Samstarf Íslands, Færeyja, Grænlands og Noregs í fiskveiðimálum

Miðvikudaginn 27. maí 1998, kl. 11:40:49 (6977)

1998-05-27 11:40:49# 122. lþ. 134.6 fundur 402. mál: #A samstarf Íslands, Færeyja, Grænlands og Noregs í fiskveiðimálum# þál., SJS
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 122. lþ.

[11:40]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég get fyrir mitt leyti tekið undir tillögu utanrmn. um afgreiðslu á þessu máli. Ég tel rétt að upplýsa að í sjútvn. urðu nokkrar umræður sem umsögn okkar til utanrmn. endurspeglar vissulega, þó þar sé ekki allt sagt sem rætt var í nefndinni af vissum ástæðum. Að hluta til er hér um viðkvæm mál að ræða sem lúta að utanríkispólitískum hagsmunum þjóðarinnar og er ekki endilega rétt að fjalla mikið um á opinberum vettvangi. Um það þarf ekki að hafa frekari orð. Það skilja hv. þm. Samstarf okkar við nágrannaríkin, ekki síst ef um deilumál er að ræða og viðkvæma samninga, er oft vandmeðfarið og þarf að skoða af yfirvegun.

Ég tel þó rétt að láta koma fram að í sjútvn. komu fram þau sjónarmið að ekki væri endilega rétt að leggja að jöfnu samskipti Íslands við vestnorrænu þjóðirnar tvær og svo önnur nágrannaríki, þótt vissulega væru þau jafnframt mikilvæg. Þá væri einnig vandasamt að velja í þeim efnum og hvort skynsamlegt væri að tilgreina eitt slíkt ríki frekar en önnur. Þess vegna er það nú að í umsögn sjútvn. eru nefnd lönd eins og Noregur, Rússland, Kanada og aðildarríki Evrópusambandsins. Í raun má færa fyrir því gild rök að það sé jafngilt og mikilvægt að efla samskiptin við allar þessar þjóðir og bæta þau þótt Noregur skipti þar vissulega miklu máli og sé kannski sú þjóð, fyrir utan vestnorrænu þjóðirnar tvær, sem að ýmsu leyti tengist hagsmunum Íslands mest.

Ég vil einnig láta það koma fram, herra forseti, við þetta tækifæri að sjútvn. hefur fyrir sitt leyti reynt að vinna að þessu máli, þ.e. að efla samskiptin við okkar næstu nágranna í sjávarútvegsmálum. Sjútvn. heimsótti Færeyjar á síðasta ári og fyrirhugar heimsókn til Grænlands á þessu ári. Það er liður í því að auka samskipti og bæta tengsl á þessu sviði. Ég leyfi mér að fullyrða að þau fari batnandi, séu vaxandi og að það sé mjög af hinu góða. Það er enginn vafi á því að eitt af mikilvægustu verkefnunum sem fram undan eru í þessum efnum er t.d. að ná betur utan um óleyst mál í samskiptum Íslands og Grænlands varðandi nýtingu sameiginlegra stofna og sameiginlega hagsmunagæslu þessara landa út á við.