Tryggingasjóður sjálfstætt starfandi einstaklinga

Miðvikudaginn 27. maí 1998, kl. 11:53:45 (6982)

1998-05-27 11:53:45# 122. lþ. 134.8 fundur 655. mál: #A Tryggingasjóður sjálfstætt starfandi einstaklinga# (geymsla áunnins réttar o.fl.) frv. 48/1998, RG
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 122. lþ.

[11:53]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Ég vel að koma í ræðustól út af síðara málinu af þessum tveimur, um atvinnuleysistryggingar og Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga, vegna þeirra fyrirvara sem ég er með í báðum þessum frv. og til að skýra það.

Ég tek undir það með félmrh. að félmn. vann mjög vel í þeim málum sem hún var með til umfjöllunar hjá sér, sérstaklega miðað við þær aðstæður sem voru í nefndinni, að hún var með mjög erfið mál til umfjöllunar, stór pólitísk deilumál sem mjög mikil óbilgirni var í að taka nokkurt tillit til sjónarmiða stjórnarandstöðunnar. Mikilvægt er að það komi fram að þrátt fyrir að þau fylltu að mestu tíma nefndarinnar og þrátt fyrir það að það var þungur pólitískur róður að leita réttar síns í þeim málum vann félmn. með öll málin sem hún var með af fullri einlægni og meira að segja það mál sem félmrh. setti á engan hátt í forgang, framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna sem var mjög naumur tími til að vinna að. Meira að segja það mál tókst félmn. að vinna og skila af sér til 2. umr. í þinginu. Þetta er afar mikilvægt og ég lít svo á að það hafi fyrst og fremst verið vegna þess að þetta er trúnaður þeirra einstaklinga sem þarna starfa við þau mál sem þeir leggja áherslu á að fái umfjöllun í þinginu og fái þann forgang sem ráðherra málaflokksins setur ekki á málin.

Þetta vildi ég segja sem inngang að umfjöllun um mál félmn. en mun náttúrlega koma nánar inn á þessa tímaþröng okkar í umfjöllun um framkvæmdaáætlunina síðar.

En það sem lýtur að þessum málum, um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga, þá er verið að lagfæra mál sem eru til bóta fyrir fólkið sem þarf á þessum tryggingum að halda. Það að þessi frv. koma inn núna og eru afgreidd frá Alþingi og úrbætur eru gerðar á lögunum er vegna þess að á sínum tíma fyrir tveimur árum var komið með inn í þingið breytingar á atvinnuleysistryggingalögunum sem voru mjög umdeildar og það var vont frv., herra forseti, með miklum breytingum og skerðingum varðandi launafólk og við gagnrýndum það mjög harkalega. Það var þó þannig að nokkur breyting náðist á því frv. þannig að verstu breytingum laganna til verri vegar var afstýrt. Engu að síður spáðum við því þá að það mundi þurfa að gera breytingar á þessum lögum vegna þess að þarna hefði verið allt of hart fram gengið. Þess vegna var það líka jákvætt að geta breytt þessum lögum á betri veg og að því stóð félmn. alveg fullskipuð.

Samt eru ákvæði í 4. gr. atvinnuleysistryggingafrv. og 3. gr. laganna um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga þar sem segir:

,,Ef samanlagðar tekjur af hlutastarfi og atvinnuleysisbótum umsækjanda, sbr. 1. mgr., eru hærri en fullar bætur samkvæmt bótarétti hans að viðbættu frítekjumarki, sbr. 4. mgr. 11. gr., skal skerða atvinnuleysisbætur hans um það sem umfram er.``

Ástæða er til að benda á að þarna er verið að draga úr og skerða rétt sem hingað til hefur verið, þ.e. að lögin hafa verið framkvæmd þannig að þeir sem hafa verið í hlutastarfi og fengið atvinnuleysisbætur samhliða hafa ekki orðið fyrir skerðingum. Það sem mun gerast þegar þetta frv. verður að lögum er að skerðing verður hjá ákveðnum hópi sem hefur ekki getað fengið nema hlutastarf þó að hann hafi sótt um annað og leiti eftir að fá fullt starf í fagi sínu.

Þrátt fyrir það stóðum við öll að afgreiðslu frv. af því að við vildum tryggja þær úrbætur sem er að finna í frv. en ástæða er til að vekja athygli á því að nokkur hópur einstaklinga mun lenda í skerðingum þegar um það er að ræða að fólk missir starf, fær ekki annað en hlutastarf og samanlagðar bætur eru með þessum hætti.

Hins vegar er líka litið til þess að þeir sem eru atvinnulausir fá ekki nema ákveðnar bætur, þeir fá þær bætur sem eru í boði, og því miður er það svo að þær eru í allflestum tilfellum nokkuð lægri en þau laun sem fólk er á meðan það hefur störf. Þrátt fyrir að félmrh., og ef ég man rétt fjmrh. fyrrv., hafi haldið því fram að atvinnuleysisbætur séu svo háar að það sé kannski vísbending um að það séu fleiri á atvinnuleysisbótum en þyrftu að vera, þá er það skoðun sem ég hafna fullkomlega vegna þess að hver sá sem skoðar þessa upphæð sem er í boði fyrir atvinnulausa gerir sér grein fyrir að afar erfitt er að lifa af þeirri fjárhæð. Það hvarflar því ekki að mér að nokkur velji það.

Ég vildi koma þessari ábendingu á framfæri, herra forseti, vegna þess að þetta er það atriði sem er umdeilt fyrir marga en ég stend að afgreiðslu frv. og finnst mikilvægt að þær úrbætur sem er að finna í þessum frv. báðum nái fram.