Tryggingasjóður sjálfstætt starfandi einstaklinga

Miðvikudaginn 27. maí 1998, kl. 12:00:53 (6983)

1998-05-27 12:00:53# 122. lþ. 134.8 fundur 655. mál: #A Tryggingasjóður sjálfstætt starfandi einstaklinga# (geymsla áunnins réttar o.fl.) frv. 48/1998, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 122. lþ.

[12:00]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Hér eru til umræðu lagabreytingar sem áður hafa verið til umræðu og ég hef gert grein fyrir mínum sjónarmiðum og ætla ekki að hafa mörg orð um þau núna. En almennt horfa þessar breytingar til bóta og er mikilvægt að fá þær lögfestar fyrir sumarið. Ég vil sérstaklega fagna því að hæstv. félmrh. skuli hafa beitt sér fyrir því að frv. sem hv. þm. Guðrún Helgadóttir flutti ásamt öðrum þingmönnum, fyrr á þessu ári mun það hafa verið, þess efnis að makabætur skerðist ekki hjá fólki sem fer á atvinnuleysisbætur. Það kom fram í máli hæstv. félmrh. þegar hann ræddi þessi mál við fyrri umræðu, að þar hefðu átt sér stað mistök við lagasmíð, og ég fagna því sérstaklega að hann skuli hafa fellt þessar tillögur hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur inn í þetta frv.

Að öðru leyti er að finna ýmis nýmæli sem horfa til bóta og þá fyrst og fremst varðandi geymdan rétt. Fólk sem er í fæðingarorlofi eða situr í fangelsi gat ekki geymt sinn ... (KÁ: Nema hvort tveggja sé.) Nema hvort tveggja sé, segir hv. formaður félmn. Þetta fólk gat ekki geymt rétt sinn til atvinnuleysisbóta og hér er ráðin bót á því með þessu frv.

Ég skrifaði undir álit félmn. með fyrirvara og fyrirvari minn lýtur að 3. gr. lagafrv. þar sem gert er ráð fyrir því að unnt sé að skerða atvinnuleysisbætur hjá því fólki sem er í hlutavinnustarfi. Er þar um óásættanlegan hlut að ræða frá mínum sjónarhóli og er þar á ferðinni lagagrein sem ég mun að sjálfsögðu ekki samþykkja. Fólk er iðulega í hlutavinnustarfi vegna þess að því er þröngvað til að draga úr vinnu sinni. Ég þekki þess mörg dæmi, t.d. hjá sjúkrastofnunum þegar skorið hefur verið niður við þær eða þrengt að þeim fjárhagslega, þá hefur starfsfólkið iðulega staðið frammi fyrir tveimur valkostum. Annaðhvort fellst fólk á það sameiginlega að skera niður vinnuna eða horfir upp á að einhverjum hluta starfsfólksins verði sagt upp störfum. Þetta eru hlutir sem ég þekki úr starfi á vettvangi samtaka launafólks. Samkvæmt þessu frv. er gert ráð fyrir að séu tekjur umfram tiltekið mark, sem mun vera í kringum 78 þúsund kr. ef ég man rétt, þá skerðast atvinnuleysisbæturnar. Að þessu lýtur fyrirvari minn en að öðru leyti tel ég þetta frv. og tengt frv. sem mælt var fyrir hér áðan vera til bóta og mæli mjög eindregið með því að þingið samþykki það fyrir sumarið.