Framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

Miðvikudaginn 27. maí 1998, kl. 12:39:39 (6993)

1998-05-27 12:39:39# 122. lþ. 134.12 fundur 376. mál: #A framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna# þál. 13/122, RG
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 122. lþ.

[12:39]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Við erum að ræða till. til þál. um framkvæmdaáætlun til fjögurra ára um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna. Það fer ekki svo að þegar maður enn á ný fjallar um þessa tillögu, sem er líklega númer fimm frá því við fórum að setja slíkar framkvæmdaáætlanir, að hverju sinni höfum við, áhugafólk um jafnrétti kynjanna, verið bjartsýn á að með þessari framkvæmdaáætlun næðist árangur og að innan næstu ára mundum við sjá í hendi okkar úrbætur í framhaldi af hinum góðu orðum.

En því miður í þessu eins og svo oft stöndum við frammi fyrir að orðin eru annars vegar og athafnirnar hins vegar. Og þegar farið er í gegnum framkvæmdaáætlunina, áður en ég vík að störfum nefndarinnar, eru hér afskaplega góð áform, flest kunnugleg, þó hverju sinni bætist einhver ný við og í raun og veru er umfjöllun okkar meira eða minna sú að benda á að þrátt fyrir hin góðu áform í framkvæmdaáætlunum liðinna ára, þá er allt of lítið gert, allt of hægt miðar. Það stóð upp úr hjá þeim sem ræddu framkvæmdaáætlunina við 1. umr. að ekki bara miðaði of hægt heldur væri það svo að á mörgum sviðum hefði orðið bakslag í jafnréttisbaráttunni. Það má minna á að í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna var verið að ræða hvort fækkun yrði meðal kvenna í sveitarstjórnum og hvort niðurstaðan yrði sú að ekki yrði fækkun, en að það sé bullandi framgangur og aukin þátttaka kvenna í stjórnmálum á sveitarstjórnarvæng eða í landsmálunum er eitthvað sem enn þá er langt í land með.

En, herra forseti, af því að ég tala um orð annars vegar og athafnir hins vegar ætla ég að minna á tillögu sem samþykkt var á Alþingi fyrir tveimur árum. Það var tillaga um opinbera fjölskyldustefnu sem sú er hér stendur og ráðherrann höfðu átt talsvert orðaskipti um áður en hann að lokum lagði fram tillögu sem sú er hér stendur var eðlilega fullkomlega sátt við og tók þess vegna mjög góðan þátt í afgreiðslunni og umfjöllun um tillöguna bæði í þinginu og í félmn.

En það kom líka mjög vel fram þá, bæði þegar tillagan var lögð fram fyrst af undirritaðri og þegar hún var lögð fram aftur af núv. félmrh., að þáltill. um opinbera fjölskyldustefnu er skilaboð Alþingis og fyrirmæli til ríkisvaldsins að setja í gang vinnu og framkvæmd á áformunum sem er að finna í slíkri tillögu að opinberri fjölskyldustefnu. Og því nefni ég að þar hafa orð og athafnir ekki farið saman. Orðin voru hin góða tillaga sem við á Alþingi samþykktum og beindum þar með máli okkar til ríkisvaldsins og ráðherrans. En framkvæmdina skortir. Framkvæmdina skortir, á henni bólar ekkert og nú fer að styttast í þeim tíma sem ráðherrann hefur til umráða því nú er innan við eitt ár eftir af setu hans á stóli félmrh.

[12:45]

Ég nefni þetta hér vegna þess að það er bjargföst trú mín að öflug fjölskyldustefna sé einhver ríkasti þáttur jafnréttismála, þ.e. framkvæmd öflugrar jafnréttisstefnu þar sem gengið er til framkvæmda á öllum þeim liðum sem tilteknir voru í þáltill. um opinbera fjölskyldustefnu. Lagasetningar í framhaldi af þeirri tillögu munu skapa það umhverfi ungrar fjölskyldu sem gerir henni kleift að blómstra og ungu pari að njóta fullkomins jafnréttis bæði í sinni sambúð og eins á vinnumarkaði. Til þess að svo megi verða þarf, eins og ég hef svo oft sagt, umhverfi fjölskyldunnar að vera í lagi, bæði tilboðin og úrræðin fyrir ungu börnin, úrræði og framkvæmd skólastefnu þarf að vera á þann veg að vinnutími skólabarnanna sé í einhverjum takt við vinnutíma foreldra, að völ sé á máltíðum í skólanum og völ sé á aðstöðu til heimanáms, sé um það að ræða að vinnutími barnanna sé í lengra lagi, að atvinnumál séu í lagi og einnig umönnunarþáttur þeirra sem orðnir eru aldraðir, þreyttir eða sjúkir og aðbúnaður fatlaðra, að fjölskylda þar sem um er að ræða lítil börn, skólabörn, börn á framhaldsskólaaldri, fötluð börn, fatlaðir fullorðnir einstaklingar, aldraðir, hraustir eða sjúkir, í öllum tilfellum sé umhverfi þessarar stórfjölskyldu á þann veg að þó eitthvað sé í ólagi einhvers staðar þá séu úrræðin slík að það falli aldrei á annan aðilann að sjá til þess að fjölskyldan virki. Þannig er það enn þá í dag að það er fyrst og fremst annar aðilinn í sambúð sem ber þungann af því að sjá til þess að allt rekist saman þannig að fólk geti sinnt skyldum sínum, verið á vinnumarkaði. Ef það gengur ekki upp þá er það fyrst og fremst annar aðilinn sem fer heim til að sinna skyldunum, hvort sem það er vegna sjúkdóms, erfiðleika, áfalla eða barnaómegðar. Þannig er það í dag. Við vitum að það er fyrst og fremst konan sem fer heim, hennar möguleikar á vinnumarkaði stöðvast um sinn og sjálfsöryggi hennar á vinnumarkaði skerðist einnig jafnvel á þeim tíma sem hún velur að vera heima til þess að sjá um lítil börn eða gera það sem í hjarta hennar er hið eina rétta val þegar hún stendur frammi fyrir því.

Þannig er það og þess vegna nota ég tækifærið að rifja það upp að orð og athafnir verða að fara saman. Orð og athafnir hafa ekki farið saman í opinberri fjölskyldustefnu. Ég kalla eftir aðgerðum. Ég kalla eftir framkvæmdum á þessari stefnu. En ég lofa því líka að þegar stjórnarskipti verða og það fólk sem nú er að hefja samstarf á vinstri væng stjórnmála kemst hér til áhrifa þá verður tekið á þessum málum. Þá verða þessi mál sett í forgang, fjölskyldumálin og jafnréttismálin. Því lofa ég hér. (Gripið fram í: Það gæti orðið dálítið langt að bíða eftir því samt.) Það verður ekki langt að bíða. Það er aðeins ár eftir af þessu kjörtímabili og við skulum sjá til.

Herra forseti. Ég ætla að víkja örlítið að stöðu okkar í félmn. í þessu máli sem hér er til umræðu. Þetta stóra mál sem lýtur að jafnrétti kynjanna og er annar hluti þess sem ég hef hér nefnt, þ.e. jafnréttismála og fjölskyldumála. Hvort tveggja er samtvinnað, hvort tveggja þarf að vera í góðu lagi og hvort tveggja þarf að vera í fullkomnu jafnvægi til þess að bæði kynin blómstri.

En hvernig fórst félmrh. þegar hann bar þetta mál hingað inn á þing og lagði þá áherslu á góða umfjöllun og afgreiðslu þessa máls? Það var þá. Seinna komu önnur mál sem ráðherranum voru hugstæðari. Þess vegna gerðist það að þegar félmn. hafði fengið inn á sitt borð stór og þung mál þannig að þrátt fyrir góð áform formanns félmn. og góðan vilja nefndarmanna til að mæta á ólíkum og öllum mögulegum tímum til starfa og reyna að gera það sem nefndarmenn gætu í þessum þungu verkefnum þá stóð eitt upp úr sem við munum halda til haga, minnast og koma að aftur og aftur á því ári sem eftir lifir af starfstíma félmrh. Og það er að þessi mál voru ekki sett í forgang.

Þessi mál eru ekki í forgangi hjá þessum félmrh. Þess vegna hefur hann ekki framkvæmt stefnu í fjölskyldumálum. Þegar honum lá á að afgreiða sveitarstjórnarmál, þegar hann kaus að nú skyldi hálendinu skipt upp á milli aðliggjandi sveitarfélaga, ekki að geyma það, ekki að fresta því, þó að sótt væri eftir því að nú skyldi það afgreitt hvað sem á gengi og þegar hann ákvað að nú skyldi leggja af félagslega íbúðakerfið þannig að engu yrði eirt og sama hversu þungt málið væri og tæki mikinn tíma, þá skyldu þessi mál hafa forgang í félmn. og ef nefndin hefði ekki tíma til að fara í minni háttar mál eins og framkvæmdaáætlun um jafnrétti kynjanna, þá yrði svo að vera.

Herra forseti. Þetta hagsmunamál ýttist aftar og aftar í forgangsröðuninni við pressuna á þessi stóru mál og úrbótamál eins og atvinnuleysistryggingarnar sem við fjölluðum um í morgun og önnur sem hafa verið á vettvangi nefndarinnar. Og þetta mál, herra forseti, hefði ýst út af borðinu og ekki komið hingað inn til Alþingis nema vegna þess að í félmn. eru konur sem leggja ofurkapp á að þessi mál séu virt, að þetta séu stóru málin í okkar pólitík og að þessi mál eigi rétt á að vera sett í forgang. Þessar konur ákváðu það að þetta mál yrði ekki látið liggja til haustsins þó full ástæða hefði verið til miðað við forgang félmrh. og miðað við þá stöðu sem nefndin var í þegar komið var að lokum nefndarstarfs. (ÖJ: Við karlarnir létum nú okkar ekki eftir liggja.)

Og ég verð að segja það körlunum í félmn. til hróss að þeir fylgdu okkur í þessu máli. Ég þori ekki að fullyrða það fyrir þeirra hönd að þeir hefðu sett þetta mál jafnkröftuglega á oddinn og við konurnar en þeir fylgdu okkur fast eftir. Og sá litli tími sem við höfðum til umræðu var nýttur á sérstaklega áhugaverðan hátt og öflugan og tillögurnar sem koma hingað inn bera þess vott þó fáar séu.

Herra forseti. Af því að við höfðum svo nauman tíma til að skoða þetta mál þá er ég sannfærð um að ef sá tími hefði verið lengri og við getað kallað fólk á fund nefndarinnar þá hefðu komið fleiri ábendingar og fleiri tillögur frá nefndinni inn í þessa framkvæmdaáætlun. Það er slæm tilfinning sem situr í mér að vita að ef við hefðum unnið eðlilega með þetta mál á þeim forsendum sem ég tel að eigi að vinna svona áætlun þá hefðu komið fleiri góðar ábendingar og fleiri sterkar, öflugar og mikilvægar tillögur. Þess vegna áskil ég mér allan rétt til þess og hvet til þess að við hvert um sig skoðum í framhaldi af afgreiðslunni hér á þinginu hvaða mál við hefðum viljað sjá meiri umfjöllun um í þessari áætlun og að við munum flytja slík mál í haust í jafnréttismálum og minnast þess þegar við flytjum þau að við eigum inni hjá félmrh. Við eigum inni hjá félmrh. vegna þess að við gengum langt yfir þau mörk sem hægt var að ætlast til í vinnu nefndarinnar og vinnu nefndarmanna í félmn. til þess að tryggja að þetta mál kæmist hér á dagskrá og yrði afgreitt í vor. Ég kalla eftir því að við hvert um sig skoðum málin sem við viljum sjá hér inni.

Herra forseti. Ég nefndi að við hefðum komið með sérstakar tillögur út frá góðri umræðu og þar ætla ég sérstaklega að benda á fyrstu tillöguna í b-lið brtt. sem er um stöðu kvenna á landsbyggðinni. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Ráðuneytið mun kanna sérstaklega hvaða áhrif atvinnu- og þjóðfélagsbreytingar á undanförnum árum hafi haft á stöðu kvenna á landsbyggðinni og þar með á möguleika þeirra til náms og atvinnu. Könnuninni ljúki fyrir árslok 1998. Á grundvelli niðurstaðna verði lagðar fram tillögur til úrbóta sem miði að því að styrkja sérstaklega stöðu kvenna á landsbyggðinni.``

Auðvitað flytjum við svona tillögu þegar við erum búin að taka umræðu um það hversu alvarleg staðan er á landsbyggðinni og hversu vonlaus staðan er fyrir konur á landsbyggðinni sem hafa menntað sig til sérstakra starfa þegar störf þar fara þverrandi. En það er auðvitað umhugsunaratriði af hverju félmn. flytur slíka tillögu við framkvæmdaáætlun um jafnrétti kynjanna. Ég spyr, herra forseti: Hvers vegna í ósköpunum er Byggðastofnun ekki fyrir löngu síðan búin að láta gera slíka könnun þannig að hún lægi fyrir? Herra forseti. Ég hlýt að endurtaka þessa spurningu þegar formaður stjórnar Byggðastofnunar kemur aftur í salinn vegna þess að ég hlýt að kalla eftir þessu úr því við erum með þessa dýru stofnun sem fær svo mikla fjármuni til að reyna að gera það besta úr veikri stöðu úti á landi.

Ég ætla líka að nefna það hér að við höfum oft rætt skýrslu Byggðastofnunar og þá er það ,,rapport`` um það hvað menn gera. Aldrei nokkurn tíma er gerð tilraun til þess að leggja mat á hvort aðgerðir og fjármagn veitt til hinna ýmsu ólíku aðgerða hafi borið árangur. Ég hef kallað eftir því og spurt um slíkt en ekki fengið svör. Ég mun koma að þessu örlítið síðar, herra forseti.

Annað sem ég vil nefna er að við ákváðum að gerð yrði úttekt á áhrifum nýs launakerfis á launamun karla og kvenna og það er d-liður brtt. um nýjan lið 4.2. í þáltill. undir fjmrn. Ég hlýt að nefna það hér, herra forseti, að á kvennadaginn 8. mars árið 1995, var sérstök nefnd sett á laggirnar --- einmitt á þeim degi, 8. mars --- til að skoða hvort starfsmat gæti verið leiðin til að breyta launamun kynjanna. Sem betur fer bar núv. félmrh. gæfu til þess að fylgja þessu starfi eftir. Við fengum skýrslu um starfsmat og sett voru í gang tilraunaverkefni um starfsmat. Síðan eru liðin rúm þrjú ár og þegar við spyrjum: Hvað líður aðgerðum vegna launamunar karla og kvenna? Þá er svarið að tekin hafi verið nokkur tilraunverkefni í tengslum við starfsmatið. Hvenær munum við ná landi í þessum málum? Ekki einu sinni verkefnið varðandi starfsmat er að verða komið á enda eftir rúm þrjú ár, þrjú ár, tvo mánuði og einhverja daga. Hvað þá heldur þegar eftir á að vinna úr verkefninu til að komast að því hvort þetta sé leiðin til að ná jafnrétti í launum hjá öllum. Hvað ætli við megum reikna með að það taki mörg ár? Og hvað ef niðurstaðan verður: ,,Nei, þetta var ekki nógu gott. Starfsmatið er sennilega ekki leiðin.`` Setjum við þá nýja nefnd og förum í nýtt verkefni til að kanna og skoða?

Það er mjög gott að við ákváðum að það gera úttekt á áhrifum nýs launakerfis á launamun karla og kvenna. Það liggur þá fyrir samhliða niðurstöðum úr tilraunaverkefnum um starfsmat vegna þess, herra forseti, að okkur liggur á. Okkur liggur á í þessu máli. Það er nógu langur tími liðinn og jafnréttisstaðan versnar, launamunur eykst og staða kvenna er verri en staða karla, bæði í launamálum og almennt á vinnumarkaði.

Ég ætla líka að benda á lið 4.5. í d-lið brtt. okkar.

(Forseti: Forseti vildi spyrja hv. þm. hvort hann ætti mikið eftir af ræðu sinni. Ástæðan er sú að gert var ráð fyrir því að gera hálftíma matarhlé núna klukkan eitt.)

Ég á ekkert mjög mikið eftir af ræðu minni. Ég gæti ímyndað mér að ég ætti svona kortér eftir og þess vegna kýs ég að gera hlé á ræðu minni og fá að ljúka henni að loknu matarhléi.

(Forseti (StB): Já, forseti getur fallist á að gera nú hlé en hv. þm. haldi þá áfram að loknu matarhléi. Þakkar forseti þingmanninum fyrir það.)

Ég geri þá hlé á ræðu minni.

(Forseti (StB): Þingmaðurinn hefur gert hlé á ræðu sinni og er fundinum frestað til klukkan 13:30.)