Framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

Miðvikudaginn 27. maí 1998, kl. 13:58:45 (6995)

1998-05-27 13:58:45# 122. lþ. 134.12 fundur 376. mál: #A framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna# þál. 13/122, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 122. lþ.

[13:58]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu framkvæmdaáætlun um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna. Þessi framkvæmdaáætlun er um margt mjög jákvæð. Hún byggir á einni grundvallarhugsun sem er mjög mikilvæg og jákvæð og hún er sú að jafnréttismál séu mannréttindamál, þau sé ekki afmarkaður málaflokkur sem eigi að skoða afmarkað og þröngt heldur séum við að fjalla um mannréttindi sem snerta allt okkar líf. Í framkvæmdaáætluninni segir, hvað þetta snertir, með leyfi forseta:

,,Ríkisstjórnin mun vinna að því að jafnréttissjónarmið verði samþætt allri opinberri stefnumótun og ákvarðanatöku. Samþætting krefst þess að jafnrétti kynjanna sé meðvitað haft í huga við alla áætlanagerð. Allir sem koma að stefnumótun og ákvarðanatöku þurfa því að hafa þekkingu á jafnréttismálum.``

[14:00]

Ég vil sérstaklega fagna þessu ákvæði og þeirri hugsun sem fram kemur í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar vegna þess að ég tel hana mjög mikilvæga. Hitt er svo annað mál að plaggið er um margt óljóst og byggir fremur á ásetningi, að mörgu leyti góðum ásetningi, fremur en raunhæfum aðgerðum. Það sem gert hefur verið í félmn. við úrvinnslu og vinnu við þetta mál er að reyna að skerpa á orðalagi og koma með tillögur sem tryggi að gripið verði til raunhæfra aðgerða.

Staðreyndin er sú að allt of oft fara ekki saman orð og athafnir og það á svo sannarlega við í þessum efnum. Ríkisstjórnin er staðráðin í að gera ítarlegar kannanir á gjörðum sínum og ýmsum lagabreytingum í stað þess að hafa hinn háttinn á, að kanna og íhuga málin áður en gripið er til aðgerða eða ráðist í breytingar.

Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir sagði í ræðu sinni að það hefði verið fyrir tilstilli kvennanna í félmn. að málið fékk þann framgang og unnið var að því eins og gert var en karlarnir hafi síðan fylgt á eftir. Ég held að mikið sé til í því, að það eigi við um starf félmn. sem annarra nefnda að það séu fremur konurnar sem hafa frumkvæði í þessum málum þótt karlarnir hafi góðan vilja og góðan ásetning. Alla vega þykist ég sem þingmaður í félmn. hafa þann ásetning. En hitt er staðreynd. Við eigum það að þakka góðri framgöngu formanns nefndarinnar, hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur, að málið fékk þá vinnu og forgangsröðun í okkar starfi sem raun ber vitni.

Einmitt vegna þess að sjónarmiðin eru iðulega ólík eftir því hvort karlar eða konur eiga í hlut þarf að tryggja jafnræði með kynjum í nefndum og allri ákvarðanatöku á vegum hins opinbera og í atvinnulífinu almennt. Okkar tillögur lúta mjög að þessu, að tryggja jafnræði með kynjunum í allri ákvarðanatöku og öllu starfi á vegum ráðuneyta.

Ég sakna að vísu þeirrar áherslu sem kvennahreyfingin hafði uppi fyrir fáeinum árum, sérstaklega þegar hún var að hefja sig til flugs. Þá lagði kvennahreyfingin áherslu á mjög róttæk sjónarmið. Kvennahreyfingin sagði: Veltum valdastólunum. Búum til ný viðhorf í þjóðfélaginu, þau munu gagnast öllum þegnum samfélagsins, ekki síst konum og kannski fyrst og fremst konum vegna þess að konur eru í láglaunastörfum. Þær eru ekki í stjórnunarstörfum í sama mæli og karlar.

Síðan breyttust áherslurnar og kvótakerfið hélt innreið sína í kvennabaráttuna sem víðar. Áherslan varð fremur á að tryggja að jafnmargar konur sætu á þessum sömu valdastólum og karlar, sem menn hirtu svo síður um að velta. Þannig gerðist þessi barátta að mínum dómi íhaldssamari.

Ég legg áherslu á að hitt skiptir líka máli að við ákvarðanatöku á þeim valdastólum, í nefndum og stefnumótandi starfi sé þess gætt að jafnræði sé með kynjunum.

Hitt langar mig til að fara fáeinum orðum um sem ég nefndi hér áðan að það væri óskandi að meira samræmi væri á milli orða og athafna. Hér er t.d. í tillögum okkar kveðið á um að gerðar verði kannanir á launakerfinu, hinu nýja launakerfi hins opinbera og hvaða áhrif það muni hafa á jafnrétti kynjanna. Þetta nýja launakerfi, sem mjög hefur verið til umræðu, á rætur í hugmyndabanka OECD. Það byggir á þeim ásetningi að reyna að ná niður launakostnaði hjá hinu opinbera og innleiða ný viðmið og gera markaðssjónarmiðum hærra undir höfði en verið hefur. Hvað á ég við með því? Jú, dregið skuli úr ýmsum sjálfkrafa breytingum sem eru byggðar inn í launakerfið en láta markaðsþætti vega þyngra. Þannig er gert ráð fyrir því að starfsaldurs- og lífaldurshækkanir, nokkuð sem allir starfsmenn njóta góðs af, vegi minna en verið hefur en aðrir þættir vegi meira, hafi meira og aukið vægi. Starfsaldurs- og lífaldurshækkanir hafa hjá hinu opinbera gefið launahækkun frá því að fólk byrjar í starfi þar til það er komið á enda í sinni starfsævi, á bilinu 15--25%. Nú er hugsunin sú að draga úr þessu og færa það á annan hátt inn í launakerfið.

Það er búið svo um hnúta fyrir tilstilli samtaka launafólks sem hafa lagt mjög ríka áherslu á þetta að enginn komi til með að lækka beinlínis í launum við þessa breytingu. Menn munu því ekki finna fyrir henni, einstaklingarnir munu ekki finna fyrir henni. Kerfið byggir hins vegar á þessari grundvallarbreytingu. Staðreyndin er sú, og hefur fylgt öllum þeim viðræðum sem fram hafa farið um hið nýja launakerfi alveg frá upphafi vega, að ekki stæði til að meira fjármagni, meira fé verði varið til launa en nú er heldur verður því ráðstafað á annan veg. Ef stofnanir gætu hins vegar aflað peninga með sjálfsaflafé eða einhvers konar gjaldtöku, þá er það byggt inn í þessa hugsun að það geti gagnast mönnum í launum.

Þeir fyrirvarar sem við, efasemdarmenn um þessar breytingar höfðum voru þeir að þetta gæti reynst skaðlegt og varasamt fyrir stofnanir sem hafa mjög takmarkaða fjármuni og þetta mundi líka geta reynst varasamt fyrir mjög stóra, breiða starfshópa. Þetta mundi hugsanlega gagnast betur þeim sem sinntu stjórnunarstörfum eða heyrðu til fámennari hópa.

Við sögðum sem svo að þær stofnanir sem búa við góðan hag, eins og t.d. stofnanir sem tengjast raforkumálum eða slíkri starfsemi, mundu að öllum líkindum fara betur út úr þessum breytingum en hinar sem sinna heilbrigðismálum eða uppeldismálum. Þar er tvennt í senn á að líta. Þær hafa takmarkaða fjármuni, hafa verið fjársveltar og þar eru stórir, breiðir hópar. Og hvaða hópar skyldu það einkum vera? Það eru kvennastéttirnar.

Þess vegna lögðum við mjög ríka áherslu á það, sem höfum komið að málum hjá samtökum launafólks, að ekki yrði farið í slíkar breytingar nema rækilega yrði tryggt að hagur þessara hópa yrði ekki fyrir borð borinn. Þetta var okkar hugsun. Við vildum heldur ekki sjá kerfi þar sem það yrði ekki einvörðungu Verslunarráðið eða Vinnuveitendasambandið sem krefðist aukinnar gjaldtöku, að við byggjum ekki til kerfi þar sem starfsfólkið sjálft ætti persónulegan hag sinn undir því kominn að fé aflaðist með sértekjum. Það er byggt inn í þetta kerfi sem verið er að búa til núna.

Við vildum tryggja það að við samningsgerð yrði búið svo um hnútana að samið yrði um öll kjör á félagslegum grunni. Til hvers? Til þess að tryggja að ekki yrði óhóflegur munur á milli hins efsta og hins lægsta, að fjöldinn kæmi þar að málum og það væri ekki á borði toppanna að ráðstafa þessum málum, og til að tryggja jafnrétti kynjanna, þá töldum við eðlilegt og mikilvægt að samið yrði um þetta á félagslegum grunni.

Við náðum að þoka málum til betri vegar hjá ríkinu. Við mættum mikilli andstöðu við þessa hugsun bæði hjá fjmrn. og því miður einnig hjá Reykjavíkurborg. Þar var ekki mikill munur á sjónarmiðum. Reyndar fóru sjónarmiðin alveg saman. Við munum ekki láta okkar eftir liggja að reyna að færa þessi mál til betri vegar og búa svo um hnútana að þegar gengið er frá kjarasamningum þegar fram líða stundir séu félagslegir þættir af þessu tagi virtir. Það verður áfram að sjálfsögðu þrýst á að svo verði gert.

Við skulum ekki gleyma því að inn í þessa hugsun er múrað það sjónarmið að í rauninni sé æskilegt að fækka störfum. Hafi fjársvelt stofnun tök á því að fækka fólki er meira til skiptanna fyrir hina sem eftir eru. Þannig er þetta í reynd. Það er búið að byggja inn í kerfið kröfu um mannfækkun. Það er búið að búa til launakerfi sem byggir á þeim sjónarmiðum að fækka fólki. Það er ekki verið að búa til launakerfi sem tryggir meiri peninga í kerfið heldur kerfi sem byggir á annars konar ráðstöfun fjármunanna, annarri skiptingu þar sem markaðssjónarmiðin vega þyngra en áður.

Þetta segi ég til að ítreka þá skoðun sem ég er að halda fram að betra væri að saman færu orð og athafnir. Nú ætlar sama ríkisstjórnin og staðið hefur fyrir þessum breytingum, sem rök hafa verið sett fram um að muni leiða til aukinnar mismununar, þar á meðal milli kynja, að heita því að ráðast í miklar kannanir til að sjá hvort svo gerist ekki örugglega.

Engu að síður vil ég að sjálfsögðu að slík könnun fari fram og tek undir það. Þótt ég hafi haft uppi mikil varnaðarorð á sínum tíma þegar ráðist var í þessar breytingar mun ég að sjálfsögðu ekki láta mitt eftir liggja að því leyti sem við getum haft áhrif á lagasetningu eða komið fram málum af því tagi sem hér eru til umræðu, að þrýsta á um aukið jafnrétti kynjanna. Ég mun ekki láta mitt eftir liggja í að leggja mitt af mörkum til þess að færa hluti betri vegar.

Á það vildi ég leggja áherslu að það er umhugsunarefni að menn setji fram skýrslur, veiti loforð og ætli að kanna hitt og þetta en geri síðan allt annað í reynd. Framkvæmi síðan eða innleiði lög sem búa til kerfi sem byggir á auknu misrétti en ekki auknu jafnrétti eins og þessi framkvæmdaáætlun sem hér er til umræðu á að tryggja.

Ég ætla ekki, hæstv. forseti, að fara nánar í þær tillögur sem hér eru til umfjöllunar, það gerði ég við 2. umr. málsins. Ég vil einnig gera þau orð að mínum sem hér hafa verið látin falla af öðrum alþingismönnum í minni hlutanum sem hafa tjáð sig um þetta mál.