Framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

Miðvikudaginn 27. maí 1998, kl. 14:57:39 (6999)

1998-05-27 14:57:39# 122. lþ. 134.12 fundur 376. mál: #A framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna# þál. 13/122, GGuðbj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 122. lþ.

[14:57]

Guðný Guðbjörnsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka formanni félmn. fyrir þessi svör. Varðandi brtt. á lið 1.1. þá er það samt óskýrt að þar skuli standa ,,þar á meðal``. Þá hljóðar liðurinn svona:

,,Nefnd forsætisráðherra um endurskoðun kjördæmaskipunar og kosningalaga mun í skýrslu sinni leggja fram sérstaka úttekt á áhrifum mismunandi kosningakerfa, þar á meðal`` --- þar á meðal --- ,,á möguleika kvenna og karla til að hljóta kosningu til Alþingis og sveitarstjórna.`` (KÁ: Það eru tveir eða nokkrir fleiri möguleikar.) Mismunandi kosningakerfa á hvað þá annað? (KÁ: Það getur verið eftir landshlutum.) Þetta er mjög óskýrt enn þá að mínu mati en ég þakka þó fyrir þessi svör.

Varðandi ,,æðstu ráðamenn`` vil ég segja að ég tel að sjálfsögðu að ef forseti Íslands óskar eftir að sækja slíkt námskeið þá geti hann það. En hæstv. félmrh. hefur sjálfur lýst því yfir að hann sé mótfallinn því að fólk verði skikkað á slík námskeið. Ef forsetinn vill sækja þessi námskeið, eins og t.d. gerðist í Svíþjóð, þetta var eftirsóknarvert og þótti hreinlega fínt, fólk sagði: Ja, ég er einn af æðstu ráðamönnum, á ég ekki að fara á svona námskeið? Ég held að það hljóti því að vera best að hafa þetta bara skilgreiningu hvers og eins, hver vill sækja svona námskeið.