Framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

Miðvikudaginn 27. maí 1998, kl. 15:01:23 (7001)

1998-05-27 15:01:23# 122. lþ. 134.12 fundur 376. mál: #A framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna# þál. 13/122, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 122. lþ.

[15:01]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir ræðir mikið um að skapa þurfi sérstök störf fyrir konur og gerir það að sérstöku áhyggjuefni sínu að einungis sé verið að skapa störf fyrir karla með uppbyggingu á stóriðju. Ég hef alltaf undrast að konur skuli útiloka sjálfar sig sem starfsmenn í fyrirtækjum eins og álverum, eins og við þekkjum þau. Þar eru vel launuð störf, tiltölulega þrifaleg miðað við margt annað og heppileg að mörgu leyti. Ég spyr mig því, herra forseti: Hvers vegna að útiloka konur frá störfum eins og í stóriðju?

Ég vil engin hornkerling vera, sagði Hallgerður og taldi sig eiga að vera meðal karla. Hún taldi sig vera jafningja allra og eiga að geta tekist á við þau mál sem almennt tíðkuðust í samfélaginu. Ég hef alltaf haldið því fram að konur eigi að geta unnið flest störf í samfélaginu og þar á meðal við stóriðju.

Ég vil einnig spyrja hv. þm. að því hvort Kvennalistinn geti ekki litið svo á að hann eigi fulltrúa í félmn., formann nefndarinnar, Kristínu Ástgeirsdóttur. Ég hef tekið eftir því að hv. þm. hefur ítrekað tekið fram að Kvennalistinn eigi engan fulltrúa í félmn. Ég held að konur eigi yfirleitt ekki betri fulltrúa í nefndum en þær eiga í formanni félmn., Kristínu Ástgeirsdóttur.