Framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

Miðvikudaginn 27. maí 1998, kl. 15:08:18 (7004)

1998-05-27 15:08:18# 122. lþ. 134.12 fundur 376. mál: #A framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna# þál. 13/122, GGuðbj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 122. lþ.

[15:08]

Guðný Guðbjörnsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir þessi orð. Ég held að við séum alveg sammála í þessu máli. Ég lagði mikla áherslu á þörf fyrir fræðslu í skólum um jafnréttismál, þörf fyrir að taka á þessum málum í kennaramenntun. Ég hef sjálf metið jafnréttishugmyndir átta ára barna. Það var sérstakt jafnréttisátak í gangi, reyndar í heimabyggð hv. þm. og á æskuslóðum mínum í Reykjanesbæ. Þar kemur í ljós að fyrir nokkrum árum höfðu átta ára börn mjög kynbundnar hugmyndir um hvað henti konum og körlum. Þess vegna er svo mikilvægt að um þessi mál sé fræðsla til þess að konur og karlar sjái að kynhlutverkin skorða þau ekkert niður, þau geti farið í hvaða störf sem er. Ég held því að við séum alveg sammála um það grundvallaratriði.

Reyndin er sú að núna sækja konur í sum störf og karlar í önnur og það er ekki hægt að neyða þau til annars.