Framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

Miðvikudaginn 27. maí 1998, kl. 15:34:37 (7009)

1998-05-27 15:34:37# 122. lþ. 134.12 fundur 376. mál: #A framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna# þál. 13/122, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 122. lþ.

[15:34]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég hafði gaman af því þegar þingmaðurinn talaði um Lánatryggingasjóð kvenna. Ég þekki hann. Ég stofnaði hann ásamt viðskrh. og borgarstjóranum í Reykjavík í ársbyrjun 1995. Það er svo önnur saga að sitjandi félmrh. stofnaði hann aftur ári síðar, en þannig er nú pólitíkin.

Mál mitt, sem ég beindi til þingmannsins, var að það er félmn. sem setur það inn í framkvæmdaáætlun til fjögurra ára að kannað verði af hálfu forsrn. hvaða áhrif atvinnu- og þjóðfélagsbreytingar á undanförnum árum hafi haft á stöðu kvenna á landsbyggðinni og þar með á möguleika þeirra til náms og atvinnu. Ég beindi því til þingmannsins að þetta væri verkefni sem ég hefði talið að Byggðastofnun hefði átt að vera búin að sinna fyrir löngu.

Mér fannst gott, herra forseti, að hlusta á hv. þm., sem situr í forsæti í stjórn Byggðastofnunar, lýsa því hvað þeir hafa verið að reyna að gera í málefnum kvenna. Hann lýsti mörgum smáverkefnum, eins og hann orðaði það, sem beinast að konum. Það er út af fyrir sig ágætt að það mál er tekið fyrir hér vegna þess að það hverfur yfirleitt í fjöldann í umræðunni um skýrslu Byggðastofnunar. En það var ekki það sem málið snerist um heldur úttektin.

Herra forseti. Ég hef gagnrýnt það að þegar við fjöllum um skýrslu Byggðastofnunar þá kemur ekkert fram um það hvort úrræðið sem gripið var til, fjármögnun verkefna eða annað sem Byggðastofnun er gera, skilaði árangri. Það vantar gæðaúttekt á því hvort að þeim fjármunum, smáum eða stórum, sem Byggðastofnun hefur haft með höndum til þess að veita hinum ólíku stöðum á landinu, hafi verið varið á þann hátt að menn geti sagt: Þennan árangur bar það.

Núna, árið 1998, leggjum við í félmn. Alþingis það til að kannað verði sérstaklega hvaða áhrif atvinnu- og þjóðfélagsbreytingar hafi haft á stöðu kvenna á landsbyggðinni. Það er vel.