Framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

Miðvikudaginn 27. maí 1998, kl. 15:36:57 (7010)

1998-05-27 15:36:57# 122. lþ. 134.12 fundur 376. mál: #A framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna# þál. 13/122, EgJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 122. lþ.

[15:36]

Egill Jónsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt, til að það misskiljist ekki, að taka það fram að ég var ekki að eigna Byggðastofnun frumkvæðið í sambandi við Lánatryggingasjóð kvenna. Ég var einungis að segja að Byggðastofnun hefði verið þátttakandi að ganga frá texta og reyndar í annarri umsýslan í þeim efnum líka, sem ég hef ekki svör um. Það var fjarri því að ég væri að eigna Byggðastofnun þennan sjóð sérstaklega.

Annað í orðum hv. þm. gefur nú ekki sérstakt tilefni til svara hér. Það væri þá helst ábending þingmannsins um að ekki hefðu farið fram sérstakar athuganir á því hvernig fjármunum væri dreift hjá Byggðastofnun. Það eru ekki nein sérstök vandamál við að fá upplýsingar um það. Þar verður þó að vera betri tími og ráðrúm heldur en ég hefi hér til umráða.

Að öðru leyti minni ég á það sem ég sagði áðan að það hafa verið gerðar mjög mikilvægar kannanir á viðhorfum fólksins, einmitt á þessum svæðum sem veikust eru. Ég endurtek það.