Framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

Miðvikudaginn 27. maí 1998, kl. 15:54:41 (7014)

1998-05-27 15:54:41# 122. lþ. 134.12 fundur 376. mál: #A framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna# þál. 13/122, GGuðbj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 122. lþ.

[15:54]

Guðný Guðbjörnsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil aðeins koma inn á orð hv. þm. Hann nefndi áðan að víða erlendis stæðu konur jafnfætis körlum í sjávarútvegi. Ég vil gjarnan fá að vita í hvaða landi það er. Mér er kunnugt um að konur stunduðu sjóinn líklega í meira mæli hér á landi en þær gera nú. En t.d. í Noregi þar sem gjafakvótakerfi tíðkast eins og hér hefur þetta verið gert að sérstöku pólitísku máli, bæði að stuðla að því að konur fái stöður á frystitogurum sem eru mjög vel launuð störf fyrir utan það að komið hefur í ljós að það breytir verulega andrúmsloftinu og umgengni um borð. Einnig hefur verið gert sérstakt átak í því að konur eignist kvóta og það þykir bara sjálfsagt réttlætismál að þau 50% þjóðarinnar fái íhlutunarrétt í kvótagjöf. Því miður hefur ekki náðst upp slík umræða hér en ég mundi svo sannarlega fagna því.

En varðandi það að konur leiti í pólitík og stjórnunarstörf þá er ég sammála hv. þm. að því leyti að það er auðvitað allt of einhliða. En vissulega er hugsunin sú að ef konur kæmust þar inn opni þær brautina fyrir konur í nefndir og ráð og inn í atvinnulífið almennt, m.a. að stjórnir sjóða verði þannig að þeir höfði jafnt til kvenna og karla.

Að síðustu vil ég ítreka að ég er sammála þingmanninum um að auðvitað væri æskilegt að kynskipting vinnumarkaðarins hyrfi. En því miður er það ekki enn þá þannig, og við erum líklega sammála um að til þess að svo verði þurfi verulega að jafna launamun kynjanna og taka upp fræðslu um jafnréttismál í skólum.