Framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

Miðvikudaginn 27. maí 1998, kl. 16:00:27 (7017)

1998-05-27 16:00:27# 122. lþ. 134.12 fundur 376. mál: #A framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna# þál. 13/122, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 122. lþ.

[16:00]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Í sjálfu sér er ekki mikið um þetta að segja. Að sjálfsögðu eru allir jafnir í dag til þess að eignast kvóta og kaupa hlut í fyrirtækjum sem stunda sjávarútveg. Það er fullt af fyrirtækjum á markaði í dag sem eru með hlutabréf til sölu.

Að sjálfsögðu hefur þetta verið meira í höndum karla fram að þessu vegna þess að upphafleg skipting var miðuð við skip sem voru í eigu eða undir stjórn karla. Eins og við höfum rætt hér hafa konur ekki haft áhuga á sjávarútvegi. Þær hafa ekki talið henta sér að vera um borð í skipum yfirleitt. Reyndar hafa konur verið um borð í farskipum á Íslandi en mjög sjaldan um borð í fiskiskipum. Þó hefur það oft sést að sjálfsögðu og ég hef verið á skipum þar sem konur hafa verið um borð og sinnt ýmsum störfum, þó aðallega sem kokkar.

En ég held að ekki sé hægt að ásaka karlmenn um hvernig þessum málum er komið í dag. Að sjálfsögðu var þetta tíðarandinn og þær aðstæður sem menn höfðu búið við alla tíð. En ég sé ekki annað en að þetta sé að breytast og ef við ræðum um sjávarútvegskerfið sem slíkt er það jafnopið fyrir karla sem konur. En hvort það sé orðið mögulegt fyrir einhverja að koma inn nýja til þess að byrja í útgerð þá er það náttúrlega erfitt og þá sérstaklega þegar um er að ræða skömmtunarkerfi, sama í hvaða formi það er, hvort um væri að ræða sóknarkerfi eða aflastýringarkerfi eins og við nýtum. Ég reikna með því, herra forseti, að við getum rætt aflastýringarkerfi og kvóta almennt síðar.