Framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

Miðvikudaginn 27. maí 1998, kl. 16:25:02 (7027)

1998-05-27 16:25:02# 122. lþ. 134.12 fundur 376. mál: #A framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna# þál. 13/122, Frsm. KÁ
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 122. lþ.

[16:25]

Frsm. félmn. (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þær ágætu umræður sem fram hafa farið hér í dag og ekki síst að takast skyldi að beina athyglinni að atvinnumálum kvenna á landsbyggðinni. Það er stórt og mikið mál og mikil þörf á að skoða hvað gerst hefur þar á undanförnum árum og hvað kann að vera fram undan.

Ég vildi koma hingað í ræðustólinn við lok þessarar umræðu vegna þeirra ummæla sem hér féllu áðan varðandi jafnréttisáætlanir ráðuneyta og stofnana ríkisins. Ég vil að það komi skýrt fram að sú tillaga sem finna má í f-lið brtt. frá félmn. felur í sér að hvert einasta ráðuneyti skal hafa jafnréttisnefnd innan sinna vébanda og jafnframt þær stofnanir sem heyra undir viðkomandi ráðuneyti. Verkefni þessara nefnda er að kanna stöðu jafnréttismála í ráðuneytinu og stofnunum þess og gera áætlun um hvernig rétta skuli hlut kynjanna.

Slík áætlun getur ekki þýtt annað en jafnréttisáætlun. Síðan er bent á að það verði m.a. gert með markvissri fræðslu til yfirmanna og annarra starfsmanna. Það má auðvitað hugsa sér ýmsar aðrar leiðir, beinar ákvarðanir ef viljinn er fyrir hendi. Ég lít því svo á að þetta mál sé í höfn. Það er auðvitað verið að gera kannanir á stöðunni til þess að grípa til einhverra úrbóta. Samkvæmt þessu þá ber þeim skylda til þess, öllum ráðuneytum og þeim stofnunum sem undir þau heyra.