Almannatryggingar

Miðvikudaginn 27. maí 1998, kl. 16:27:25 (7028)

1998-05-27 16:27:25# 122. lþ. 134.13 fundur 348. mál: #A almannatryggingar# (lögheimilisskilyrði, slysatrygging sjómanna o.fl.) frv. 59/1998, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 122. lþ.

[16:27]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég sé að hæstv. ráðherra er genginn í salinn. Eins þeir þekkja, sem hafa fjallað um það frv. sem hér er til 3. umr., þá eru hér lagðar til ýmsar breytingar á lögum um almannatryggingar frá árinu 1993 til að leiðrétta ýmsa agnúa og vankanta sem í ljós kom að voru á lögunum og ástæða þótti til þess að sníða af.

Eins og menn þekkja eru almannatryggingalögin að grunninum frá 1971. Ekki hefur farið fram heildarendurskoðun á þeim lögum síðan þá og oft hefur verið vakin athygli á því að víða eru reglur almannatrygginganna mjög ósanngjarnar og óréttlátar.

Það er ánægjuefni að svo gott samkomulag skuli hafa náðst um þær breytingar sem lagðar eru til í þessu frv. Margar af þeim tillögum að breytingum á lögunum og frv. sem mælt hefur verið fyrir hér í þinginu, hafa því miður stöðvast í nefndinni og ekki orðið að lögum. Þess vegna vil ég vekja athygli á því að það er löngu tímabært að þessi lög, almannatryggingalögin og lögin um félagslega aðstoð, verði endurskoðuð í heild.

En, herra forseti, ég kveð mér hér hljóðs vegna brtt. á þskj. 1381, 348. máli, sem er brtt. við almannatrygginalögin, nr. 117/1993, með síðari breytingum. Brtt. er auk mín lögð fram af hv. þm. Margréti Frímannsdóttur, Guðnýju Guðbjörnsdóttur, Össuri Skarphéðinssyni og Kristínu Ástgeirsdóttur.

[16:30]

Við leggjum til að á eftir 1. gr. komi ný grein sem orðast svo:

,,Við 17. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

Tekjur maka hafa ekki áhrif á tekjutryggingu lífeyrisþega.``

Þessi brtt. er komin fram vegna þess að hér er mjög alvarlegt mál á ferðinni og mikið óréttlæti. Nokkrum sinnum hefur verið vakin athygli á því við þingmenn og Alþingi að taka verði á þessu máli og kveða skýrt að orði um það hvernig þessum málum er háttað, síðast í áliti frá umboðsmanni Alþingis upp á 27 síður sem hann sendi frá sér þann 13. apríl sl.

Eiginlega má segja að með framkvæmdinni á þessari grein almannatryggingalaganna, um það hvernig tekjutryggingin skerðist, sé verið að troða fótum mannréttindi öryrkja. Þegar maður talar um mannréttindabrot koma yfirleitt upp í hugann fjarlæg lönd þar sem menn búa við frumstætt réttarfar. Það hvarflar ekki að manni að það geti verið að mannréttindi séu brotin í landi eins og okkar, landi sem býr við velferðarkerfi samhjálpar og jafnaðar en því miður virðist svo vera.

Það er fjöldi fólks sem getur ekki borið hönd fyrir höfuð sér, sem nýtur ekki mannréttinda sem það ætti að njóta samkvæmt alþjóðasamningum og þeim sáttmálum sem við Íslendingar höfum undirgengist sem lýðræðisþjóð í samfélagi þjóða. Þetta eru lífeyrisþegar sem búa við þá ómannúðlegu reglu að tekjur maka skerði tekjutryggingu þeirra í almannatryggingakerfinu. Eins og reglurnar eru nú í framkvæmd er greiðslum til öryrkja þannig háttað að þeim er nánast gert ómögulegt að stofna til fjölskyldu eða hefja sambúð með heilbrigðu fólki. Í sambúð getur öryrki eða lífeyrisþegi aðeins fengið að hámarki rúmar 43 þús. kr. úr tryggingakerfinu og það að því tilskildu að maki hans fái ekki yfir rúmar 38 þús. kr. í laun. Ef laun makans fara yfir 38 þús. kr. byrja tekjur lífeyrisþegans að skerðast, þá byrja þær 43 þús. kr., sem lífeyrisþeginn fær úr almannatryggingakerfinu, að skerðast.

Það sér hver sem sjá vill að fjölskylda með þessar tekjur getur ekki framfleytt sér. Fjölskylda í þessari stöðu getur ekki séð sér farborða og það kallar á það að makinn, sem er vinnufær, verður að afla meiri tekna.

Reglurnar eru einnig þannig að fari tekjur makans yfir tæplega 166 þús. kr. á mánuði fær öryrkinn enga tekjutryggingu frá velferðarkerfinu. Það verður að segja það, herra forseti, að þetta gengur þvert á þær réttarhugmyndir sem gilda um ýmsar aðrar bætur í velferðarkerfinu eins og atvinnuleysistryggingabætur, eins og lífeyrissjóðsgreiðslur og ýmsar aðrar tryggingabætur. Þessar bætur miðast allar við einstakling og eru greiddar óháð tekjum maka þess sem á í hlut. Ef menn missa atvinnuna fá menn atvinnuleysisbæturnar óháð tekjum maka. En séu menn svo óheppnir að missa heilsuna og starfsþrekið eru bæturnar tengdar tekjum makans eða sambýlings og framfærslunni, tryggingaskyldunni, er varpað yfir á makann.

Ég spyr, herra forseti, er það réttlæti að aðrar reglur gildi um stuðning samfélagsins við þann sem missir vinnuna en þann sem missir starfsorkuna? Er það réttlæti? Auðvitað er það óréttlæti sem allir geta verið sammála um. Það er alveg ljóst.

Lengi hefur verið vitað að þetta skerðingarákvæði sem hér er til umræðu er andstætt lögum, og hvorki Tryggingastofnun ríkisins né heilbrrn. hafa getað rökstutt þetta ákvæði eða þessa reglu með vísan til laga. Þann 13. apríl sl. sendi umboðsmaður Alþingis frá sér álit í tilefni af kvörtun Sjálfsbjargar, félags fatlaðra á Akureyri og nágrennis, frá 1. júní 1996. Þar er kvartað yfir skerðingarákvæðunum í 4. gr. reglugerðar frá 1995 um tekjutryggingu samkvæmt lögum um almannatryggingar, nr. 117/1993. En félagið, Sjálfsbjörg, félag fatlaðra á Akureyri, telur þessa reglugerð ekki eiga sér stoð í lögum.

Í tæp tvö ár hefur þessi kvörtun verið hjá umboðsmanni og nú er álitið komið upp á heilar 27 blaðsíður. Ekki gefst tími til þess að rekja álit umboðsmanns í stuttri umræðu á þinginu en í stuttu máli má segja að umboðsmaður Alþingis vefengir ekki þann skilning Sjálfsbjargar að í gildandi lögum skorti heimild til þeirrar reglugerðar sem um ræðir. (Gripið fram í.) Það á að gera hlé klukkan fimm, hv. þm.

Í þessu áliti umboðsmanns Alþingis kemur fram að reglugerðarheimildina sé ekki lengur að finna í almannatryggingalögum. Það er ekki lengur stoð í lögum fyrir þessari skerðingarreglu sem er í framkvæmd í almannatryggingunum. Í raun má segja að þetta 27 síðna álit umboðsmanns Alþingis sé ákall til Alþingis um skýrari lagasetningu í þessu efni. Segja má að við, þingmennirnir sem leggja fram þessa brtt., séum í raun að verða við því ákalli úr því að yfirvöld heilbrigðismála hafa ekki séð sóma sinn í því. Þau hafa ekki séð sóma sinn í að koma með þessa breytingu þannig að ekki sé verið að brjóta mannréttindi á lífeyrisþegum eins og er miðað við þessa reglu eins og hún er í framkvæmd.

Umboðsmaður segir í álitinu að lagaákvæði séu ekki nógu skýr, ekki nógu aðgengileg og endurtekur álit sitt frá 1988 --- en umboðsmaður var með álit um sama efni 1988 --- þar sem hann segir að ástæða væri til að taka þessar reglur til athugunar og taka á ný afstöðu til þess hvort þessar reglur eigi að haldast óbreyttar. Það er eðlilegt að umboðsmaður Alþingis komist að þessari niðurstöðu því hann hefur áður, fyrir tíu árum, beint því til Alþingis að skoða þessa framkvæmd á greiðslum almannatrygginga á tekjutryggingunni.

Sú skerðingarregla sem er til umræðu vinnur gegn hjónaböndum öryrkja. Ofan á það að öryrkjar missa starfsgetuna er þeim nánast gert ómögulegt að njóta fjölskyldulífs. Ég tók eftir því í fréttatíma í gær að þá var verið að ræða við fulltrúa frá skrifstofu fjárhagsaðstoðar heimilanna þar sem verið var að ræða hvernig ýmsar reglur þar vinna gegn fjölskyldunni og hjónabandi. Þetta mál er ekki síður slæmt en það sem var til umræðu í fjölmiðlum í gærkvöldi.

Margoft hefur verið bent á óréttlæti þessarar reglu. Búið er að benda á að þessar reglur brjóta gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga, en í þeim lögum segir að óheimilt sé að mismuna þegnum þjóðfélagsins og þetta er greinilega brot á þeirri reglu. Skerðingarreglan er einnig brot á 65. gr. stjórnarskrárinnar en hún segir að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda, m.a. án tillits til efnahags og stöðu að öðru leyti. Það er alveg greinilegt að það er brot á þeirri reglu því verið er að mismuna fólki. Það er verið að mismuna fólki eftir því hvort það er atvinnulaust eða heilsulaust, hvort það hafi starfsþrek eða ekki. Það er verið að mismuna fólki að öðru leyti og það er verið að brjóta 65. gr. stjórnarskrárinnar með þessari framkvæmd á skerðingarreglu tekjutryggingar eins og hún er framkvæmd í dag.

Líka hefur verið bent á að þessar skerðingarreglur koma í veg fyrir að lífeyrisþegar geti uppfyllt ákvæði gildandi hjúskaparlaga um að hjón sjái fjölskyldu sinni sameiginlega farborða. Ef menn horfa á þær upplýsingar sem ég kom áðan með um það á hve háum upphæðum fjölskyldum lífeyrisþega er ætlað að framfleyta sér er það gjörsamlega ómögulegt, og þeir eru lentir í þeirri fátæktargildru, sem hefur margoft verið bent á hér á þingi, sem þessi skerðingarregla er. Öryrki í sambúð fær ekki meira en 43 þús. kr. á mánuði ef hann er með fullar bætur og að því tilskildu að maki hans fái ekki yfir 38 þús. kr. Um leið og makinn fer að fá yfir 38 þús. kr. í laun byrja þessar greiðslur til lífeyrisþegans að skerðast og skerðast um 45%. Þessu fólki er nánast gert útilokað að auka tekjur sínar, hvað þá að framfleyta sér.

Ég benti á að athygli hefur verið vakin á því að lífeyrisþegum sé nánast gert ókleift að uppfylla ákvæði gildandi hjúskaparlaga vegna þessarar reglu og ég minni á að á síðustu prestastefnu var skorað á Alþingi að leiðrétta þetta ranglæti sem er vissulega alvarleg atlaga að hjónaböndum öryrkja.

Líka má benda á að þessi skerðingarregla stangast á við mannréttindasáttmála Evrópu og mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna sem við Íslendingar höfum skuldbundið okkur til að uppfylla. Við höfum gengist undir það í samfélagi þjóðanna að uppfylla þessa mannréttindasáttmála og mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, og þarna erum við að brjóta þessa reglu, við erum ekki að standa við það sem við höfum skrifað undir.

Síðast en ekki síst minni ég á að við erum aðilar að meginreglum Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðra en þar segir að tryggja skuli öryrkjum að þeim sé ekki mismunað á möguleikum til hjónabands og fjölskyldulífs, auk þess sem aðildarríkin tryggi sérhverjum fötluðum einstaklingi félagslegt öryggi og fullnægjandi tekjutryggingu. Þetta er 8. reglan í meginreglum Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðra.

[16:45]

Herra forseti. Ég spyr hæstv. ráðherra: Telur hæstv. heilbr.- og trmrh. að við séum að tryggja fötluðum einstaklingum fullnægjandi tekjutryggingu? Telur hann að þetta sé fullnægjandi tekjutrygging sem eru í mesta lagi 43 þús. kr., ef makinn fer ekki yfir 38 þús. kr. á mánuði? Hvað segja hv. þm. um þetta? Erum við að standa við þessa skuldbindingu okkar?

Umboðsmaður málefna fatlaðra hjá Sameinuðu þjóðunum Bengt Lindqvist gagnrýndi íslensk stjórnvöld opinberlega í vetur fyrir það hvernig þessi skerðingarregla, skerðingarreglan á tekjutryggingunni takmarkar möguleika fatlaðra til hjónabands og fjölskyldulífs. Og núna síðast, 13. apríl sl. hefur umboðsmaður Alþingis kallað eftir skýrri lagasetningu um þetta efni í áliti sínu.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvernig stendur á því að hæstv. ráðherra hefur ekki brugðist við og komið með skýra lagasetningu? Er ekki orðið brýnt að leiðrétta þetta misrétti?

Ég veit það persónulega að þessar reglur hafa sundrað fjölda fjölskyldna og þetta hefur valdið öryrkjum og ástvinum þeirra ómældri sorg. Þetta hefur gert það að verkum að fólk hefur neyðst til að skilja á pappírunum til að geta séð sér farborða, neyðst til að skilja á pappírunum, og síðan þegar út í það er komið hafa slíkir skilnaðir endað með raunverulegum skilnaði, sem er mjög sorglegt --- það er auðvitað alltaf sorglegt þegar slíkt gerist --- þegar í hlut eiga einstaklingar sem eiga erfitt með að sjá sér farborða, eru að einhverju leyti veikir eða fatlaðir eða þurfa á samfélagsaðstoðinni að halda.

Við sem flytjum þessa brtt. teljum að Alþingi verði að taka af skarið og breyta þessum ómannúðlegu reglum þannig að öryrkjar fái búið við þau mannréttindi sem alþjóðlegir samningar og íslensk lög kveða á um.

Ég benti á það áðan í máli mínu að í áliti umboðsmanns frá því fyrir tíu árum komu fram skilaboð frá umboðsmanni um að ráða þyrfti bót á þessari lagasetningu. Það hefur ekki verið gert. Það eru tíu ár síðan. Sams konar skilaboð koma aftur í áliti frá umboðsmanni um að okkur beri að taka á þessu máli. Alþingi þarf að gera það upp við sig hvort við eigum að búa við þessa skerðingarreglu eða ekki. Það verða auðvitað að koma mjög skýr skilaboð frá Alþingi um það hvernig við viljum hafa þessar reglur.

Brtt. sú sem ég mæli hér fyrir og er á þskj. 1381 tekur af öll tvímæli um að tekjur maka skerði ekki lífeyrisgreiðslur. Og þá gilda um þetta mál sömu reglur og um atvinnuleysisbætur, lífeyrisgreiðslur og aðrar tryggingabætur þannig að einstaklingurinn eigi réttinn óháð tekjum maka.

Herra forseti. Mig langar til að spyrja hæstv. heilbr.- og trmrh. hvort hæstv. ráðherra treysti sér til þess að hafa skerðingarregluna svona áfram í lögum eins og hún er, eða í reglugerð? Því eins og margoft hefur komið fram er ekki lagastoð fyrir þeirri reglugerð sem er í framkvæmd. Ég tel mikilvægt að hæstv. ráðherra svari því hvort hún ætlar sér að hafa regluna óbreytta áfram, sérstaklega í ljósi þess hvaða afleiðingar hún hefur fyrir öryrkja, fyrir lífeyrisþega og fjölskyldur þeirra, í ljósi þeirra athugasemda sem komið hafa frá umboðsmanni fatlaðara hjá Sameinuðu þjóðunum og ég vitnaði í hér áðan, í ljósi álits umboðsmanns Alþingis í 27 síðna áliti frá 13. apríl sl. og í ljósi þess að samkvæmt öllum þeim lögum sem ég nefndi áðan í máli mínu er hér verið að brjóta lög og verið er að brjóta alþjóðlega samninga um mannréttindi sem við erum aðilar að.

Ég óska eftir því, herra forseti, að hæstv. ráðherra svari þessum spurningum á eftir. Ég efast nú um að þessi umræða verði kláruð vegna þess að gera á fundarhlé klukkan fimm, en ég tel mjög mikilvægt að svör fáist við þessum spurningum mínum til hæstv. ráðherra. Því að það er allstór hópur sem býr við þessa ósanngjörnu reglu. Það er stór hópur fólks sem getur ekki verið samvistum við sína nánustu vegna þess að þeir geta ekki séð sér farborða ef þeir eru í sambúð og hafa því neyðst til þess að búa einir.

Það kom bréf frá Sjálfsbjörg og Öryrkjabandalaginu og fulltrúar Öryrkjabandalagsins komu á fund heilbr.- og trn. ekki alls fyrir löngu og vöktu athygli á þessu máli, og heilbr.- og trn. ræddi þetta mál nokkuð á fundi sínum. Einn af gestunum var ung kona sem lýsti því fyrir okkur að hún gæti ekki hafið sambúð með kærasta sínum vegna þess að þá gæti hún ekki séð sér farborða. Hún neyddist til þess að búa ein. Því ef hún færi í sambúð væri hún algjörlega fjárhagslega háð þeim einstaklingi sem hún færi að búa með.

Það er alveg greinilegt að ef sambýlismaðurinn fær yfir 38 þús. kr. skerðast bæturnar. Þetta er algjör fátæktargildra sem ekki er hægt að komast út úr nema þessum reglum verði breytt. Það verður að breyta þessum skerðingarreglum. Við erum að brjóta lög, við erum að brjóta samninga og sáttmála, við erum að (ÁÞ: Mismuna fólki.) mismuna fólki, það er rétt, hv. þm. Ásta B. Þorsteinsdóttir, það er verið að mismuna fólki gróflega með þessari óréttlátu reglu. Það má segja að mannréttindi lífeyrisþega séu fótum troðin á meðan þessi regla er í gildi, fótum troðin. Við verðum að taka á þessu máli. Ég veit að margir eru mér sammála hér í þessum þingsal, að taka verði á þessu máli. Það er ekki síður brýnt en þær breytingar sem eru á þessu þskj., herra forseti, í þessu frv. til laga þar sem verið er að gera ýmsar réttarbætur með breytingum á lögunum um almannatryggingarnar. Það er ekki minni ástæða til þess að leiðrétta þessa reglu og færa hana til mannúðlegra horfs.

Hvers vegna er ekki hægt að taka á þessu máli? (MF: Í góðærinu.) Í góðærinu, rétt, hv. þm. Margrét Frímannsdóttir, í bullandi góðærinu þegar virðist vera hægt að nota peninga almennings í ýmislegt annað en kannski ætti, þar sem ýmislegt bruðl er á ferðinni, þá er hægt að brjóta á lífeyrisþegum á þennan hátt. Ég er nefnilega ekki viss um að það sé mikill kostnaðarauki fyrir ríkissjóð, herra forseti, að breyta þessari reglu, ég er ekki viss um það. Þegar maður hugsar um öll útgjöldin sem þessi regla hefur í för með sér þegar fólki er stíað í sundur og allar þær afleiðingar sem það getur leitt af sér, það getur verið kostnaðarsamt fyrir samfélagið.

Það hefur verið farið fram á það í heilbr.- og trn. að reiknað verði út hversu mikið þetta muni kosta. Og það kom fram hjá fulltrúum Öryrkjabandalagsins sem komu á fund nefndarinnar að líklega yrðu það ekki aukin útgjöld fyrir ríkissjóð að leiðrétta þetta óréttlæti. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hefur hæstv. ráðherra kannað það í kjölfar þessa álits umboðsmanns, í kjölfar þess að margsinnis hefur verið bent á hversu óréttlát þessi regla er og brot á öllum þessum lögum sem ég nefndi, stjórnarskránni, stjórnsýslulögum o.s.frv., hvort það er útgjaldaauki fyrir ríkissjóð að breyta þessum reglum? Hefur það verið skoðað í ráðuneytinu og í fjmrn.? Það væri fróðlegt að fá upplýsingar um það. Þá þarf auðvitað að taka inn í þá útreikninga öll möguleg önnur útgjöld sem hið opinbera verður fyrir vegna þess að þessi regla er við lýði. Því hún kallar á alls kyns útgjöld og vanlíðan víða í samfélaginu. Það væri fróðlegt, herra forseti, að fá upplýsingar um hvort þetta hafi verið kannað því að þetta er stórt réttlætismál og sanngirnismál að þessum reglum verði breytt.

Ég er hér með alllangt bréf sem kjaramálanefnd Öryrkjabandalags Íslands sendi heilbr.- og trn. um þetta mál, sem auðvitað væri full ástæða til að rekja hér. En ég sé að því miður hef ég varla tíma til þess, a.m.k. áður en gert verður hlé á þingfundinum, (MF: Á þessari ræðu.) á þessari ræðu. En ég vil vekja athygli á því að árið 1997 á 121. löggjafarþingi var lagt fram frv. á þinginu til að fá þessu breytt. En það var dregið til baka vegna þess að þetta mál var til umfjöllunar hjá umboðsmanni Alþingis. Og það var mat manna að það mundi trufla þá umfjöllun. Nú er þetta mál komið frá umboðsmanni og hann kallar eftir því að Alþingi taki af skarið í málinu. Umboðsmaður kallar eftir því.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Eru á döfinni einhverjar lagabreytingar frá ráðuneytinu um þetta mál og hefur verið rætt í ráðuneytinu um það hvernig eigi að bregðast við þessu áliti frá umboðsmanni, athugasemdum frá umboðsmanni Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðra? Hefur þetta verið skoðað með tilliti til þeirra laga sem ég hef talið upp og tel að séu brotin á þeim hópi, sem á erfitt með að bera hönd fyrir höfuð sér, sem eru lífeyrisþegar og/eða öryrkjar sem búa með heilbrigðum einstaklingum eða vilja hefja sambúð með heilbrigðu fólki sem er í fullri vinnu?

Ég tel mjög mikilvægt, herra forseti, að fá svör við öllum þessum spurningum mínum. Þar sem ég sé að þingflokksfundir eiga að vera hafnir mun ég síðar í umræðu um þetta mál kveðja mér hljóðs aftur og kalla eftir svörum frá hæstv. ráðherra um málið nema hæstv. ráðherra treysti sér til að svara öllum spurningum mínum í framhaldi af þessari ræðu minni.