Almannatryggingar

Miðvikudaginn 27. maí 1998, kl. 17:06:12 (7032)

1998-05-27 17:06:12# 122. lþ. 134.13 fundur 348. mál: #A almannatryggingar# (lögheimilisskilyrði, slysatrygging sjómanna o.fl.) frv. 59/1998, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 122. lþ.

[17:06]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki sammála hæstv. ráðherra um að þetta sé í lagi hjá þeim sem eiga maka með háar tekjur. Það er alrangt. Það gerir það að verkum að einstaklingurinn fær ekki þá tryggingu sem hann hefur greitt fyrir með sköttunum sínum, eins og hann fær þegar hann er atvinnulaus. Það skiptir ekki nokkru máli hverjar tekjur maka eru ef maður er atvinnulaus, þá fær maður fullar atvinnuleysisbætur. Af hverju á öryrki, í hjónabandi með karli eða konu með háar tekjur, ekki að fá sínar bætur eins og atvinnuleysinginn? Ég er ekki sammála þessu.

Ekki hafa komið nokkur svör, herra forseti, við þeim fjölmörgu spurningum sem ég hef varpað hér til hæstv. ráðherra um þetta alvarlega mál sem snýr að svona stórum hópi fólks.

Varðandi það frv. sem hér er til umræðu þá verður þetta frv. vissulega að lögum í vor. Og ég ætla að vona, hæstv. forseti, að ráðherrann sjái til þess að brtt. verði líka að lögum þannig að réttindi þessa stóra hóps verði leiðrétt. Reglugerðin sem nú er í framkvæmd á sér ekki lagastoð. Það stenst ekki að vera með reglugerð í framkvæmd sem á enga stoð í lögum. Því verður auðvitað að breyta.

Ég mun svo sannarlega styðja þetta frv. en ég skora á hæstv. ráðherra að ganga nú fram og viðurkenna óréttlætið sem er í framkvæmd þessarar reglugerðar og breyti lögunum í þá veru sem brtt. okkar fimmmenninganna gerir ráð fyrir.