Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 28. maí 1998, kl. 10:07:08 (7057)

1998-05-28 10:07:08# 122. lþ. 135.3 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, SvG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 122. lþ.

[10:07]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Við þingmenn Alþb. og óháðra sitjum hjá við lokaafgreiðslu þessa máls. Við hefðum talið eðlilegra að fresta málinu í heild til haustsins eins og við fluttum tillögu um og reyndar var gefinn ádráttur um skeið um að málinu yrði látið fylgja sérstakt frv. til laga um breytingar á skipulags- og byggingarlögum, en síðan hafnaði ríkisstjórnin því að taka það mál til umræðu.

Ég harma það hvernig ríkisstjórnin hefur staðið að þessu máli og raunar spillt þeim friði sem hefði þurft að nást um þetta alvarlega mál og af þeim ástæðum getum við ekki tekið þátt í atkvæðagreiðslunni á þann hátt sem eðlilegast hefði verið, þ.e. ef málið hefði verið lagt fullbúið fyrir þingið og menn hefðu getað greitt atkvæði um efnisatriði þess í einstökum atriðum.

Ég vil líka nota þetta tækifæri, herra forseti, til að gagnrýna það hvernig þetta mál hefur verið notað m.a. fyrir sveitarstjórnarkosningar til að reyna að blekkja þjóðina og kjósendur til fylgis við Sjálfstfl. alveg sérstaklega og vek athygli á því að einn af borgarfulltrúum Sjálfstfl. greiðir atkvæði með þessu máli sem hann lagði til að yrði frestað fyrir nokkrum dögum.