Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 28. maí 1998, kl. 10:09:17 (7059)

1998-05-28 10:09:17# 122. lþ. 135.3 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, GÞÞ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 122. lþ.

[10:09]

Guðlaugur Þór Þórðarson:

Hæstv. forseti. Á það hefur verið minnst að borgarstjórnarflokkur Sjálfstfl. bað um frestun á þessu máli og það er nákvæmlega það sem gerðist. Borgarstjórnarflokkur Sjálfstfl. skoraði á ríkisstjórnina að fresta málinu sökum þess að mikil umræða hefur verið um það og kannski ekki eining í þjóðfélaginu en af því varð ekki og þá er ekkert annað fyrir mig en aðra þingmenn en að taka efnislega afstöðu til málsins.

Það liggur hins vegar alveg fyrir hvað varðar umdeildasta atriði málsins, skipulag miðhálendis, að búið er að boða að tekið verði á því í haust í lögum um skipulags- og byggingarmál og þannig snýr málið að mér. Mér þykir hins vegar athyglisvert að heyra talsmenn stjórnarandstöðunnar vitna reglulega í skoðanakannanir og telja að þingið eigi að fara eftir þeim. Ég minni á að gerð var skoðanakönnun ekki alls fyrir löngu þar sem mikill meiri hluti þjóðarinnar vildi að Húsnæðisstofnun ríkisins yrði lögð niður og gaman væri að heyra þessa sömu stjórnarandstöðuþingmenn tala um það mál.